Kristinn Sv. Helgason varði þann 10. júní síðastliðinn doktorsritgerð sína við Háskólann í München (e. Ludwig Maxi­milian University). Ritgerðin er á sviði stjórnmálahagfræði og leitast við að sýna fram á hvernig hönnun leikreglna er ákvarðandi þáttur í skilvirkni stjórnskipulags alþjóðastofnana

Kristinn Sv. Helgason varði þann 10. júní síðastliðinn doktorsritgerð sína við Háskólann í München (e. Ludwig Maxi­milian University). Ritgerðin er á sviði stjórnmálahagfræði og leitast við að sýna fram á hvernig hönnun leikreglna er ákvarðandi þáttur í skilvirkni stjórnskipulags alþjóðastofnana. Leiðbeinendur Kristins voru Klaus Goetz, forseti félagsvísindadeildar LMU og prófessor í stjórnmálafræði, og Bernhard Zangl, prófessor í stjórnmálafræði. Neil Thurman, prófessor við sama skóla, var einnig prófdómari við vörnina.

Kristinn hafði áður lokið meistaraprófum í opinberri stjórnsýslu frá Harvard-­háskóla og rekstrarhagfræði frá Ríkisháskólanum í Virginíu, og er auk þess viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Kristinn hefur unnið að doktorsritgerð sinni síðustu fjögur árin samhliða fullu starfi við rannsóknir á þróunarmálum hjá hagdeild Sameinuðu þjóðanna í New York.


Fjölskylda Kristinn er giftur Evu Mjöll Ingólfsdóttur fiðluleikara og dóttir þeirra er Andrea, sem starfar við upptökur, hljóðblöndun og tónsmíðar í New York. Foreldrar Kristins voru Helgi Kristófersson, skipstjóri í Sandgerði, f. 18.4. 1937, sem lést með Vb. Hólmari þann 23. nóvember 1963, og Guðrún A. Guðmundsdóttir, sem lengst af starfaði á barnaleikvöllum Reykjavíkurborgar, f. 27.1. 1933, d. 17.8. 2008.