Frumsýning Skrítla og Skoppa í Húsdýragarðinum 2004.
Frumsýning Skrítla og Skoppa í Húsdýragarðinum 2004.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir, frumkvöðlar hérlendis í gerð barnaefnis fyrir börn frá níu mánaða aldri, fengu nýverið heiðursverðlaun, sem Sögur – verðlaunahátíð barnanna – veitti þeim fyrir ómetanlegt starf í þágu barna á Íslandi

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir, frumkvöðlar hérlendis í gerð barnaefnis fyrir börn frá níu mánaða aldri, fengu nýverið heiðursverðlaun, sem Sögur – verðlaunahátíð barnanna – veitti þeim fyrir ómetanlegt starf í þágu barna á Íslandi. Vinkonurnar í hlutverkum Skoppu og Skrítlu hafa skemmt börnum og aðstandendum þeirra í 20 ár og von er á sjónvarpsseríu frá þeim í haust auk þess sem jólaleikrit er í bígerð.

Skoppa og Skrítla í Húsdýragarðinum var fyrsta verkefnið, um 40 mínútna mynd á VHS-spólu 2004. Hugmyndin var að gera eitthvað fyrir tveggja ára son Hrefnu en myndbandið náði heldur betur til fleiri og þær hafa haldið athygli barna og aðstandenda þeirra síðan. „Á þessum tíma var lítið af leiknu íslensku sjónvarpsefni á íslensku fyrir yngstu börnin,“ vekur Hrefna athygli á.

Vinkonurnar hafa gert vel á annað hundrað sjónvarpsþætti, samið og sýnt fimm leikrit og eina kvikmynd, sent frá sér ótal myndbönd og CD-diska, bækur, hljóðbækur og fleira, komið fram í þremur heimsálfum og halda enn úti danspartíum fyrir börn. „Fyrsta leiksýning okkar var til þess gerð að kynna töfra leikhússins fyrir okkar allra yngstu börnum.“

Gleði og jákvæðni

Í verkum sínum hafa Hrefna og Linda haft gleði og jákvæðni að leiðarljósi. „Við höfum lagt aðaláherslu á að birta allra yngstu börnunum jákvæðar og skemmtilegar hliðar lífsins og tilverunnar. Þau sjúga efnið í sig og læra tungumálið af því að lesa það af vörum okkar. Talsett efni er frábært en þar fara munnur og tungumál ekki saman. Börn læra alltaf mest þegar þau skemmta sér og því bjóðum við upp á fræðslu og fróðleik í bland við almenna skemmtun.“

Konurnar vilja hafa gaman af lífinu. „Lífið getur verið skemmtilegt og við getum kosið að líta alltaf á það björtum augum. Dimman kemur inn í líf allra og þá er gott að hafa tileinkað sér að vera alltaf með glasið hálffullt og sér í hag. Gleðin og jákvæðnin hafa alltaf verið útgangspunktur okkar.“

Í fyrra sendu stöllurnar frá sér sjónvarpsseríuna Halló Heimur – hér kem ég! Nú vinna þær að framhaldi af þeirri seríu sem ætlað er í sýningu næsta vetur. „Við finnum leiðir fyrir þessar persónur, svo þær lifi áfram, þótt við séum ekki endalaust í gallanum,“ segir Hrefna. „Fleiri hundruð börn hafa unnið með okkur og við söknum þeirra. Þess vegna erum við að vinna í því að fara einu sinni aftur á svið. Við erum mikil jólabörn og meira get ég ekki sagt.“

Verk Hrefnu og Lindu hafa fengið einróma lof, þau hafa verið tilnefnd til Eddu- og Grímuverðlauna og nú hafa börnin heiðrað konurnar, sem eiga heiðurinn af Skoppu og Skrítlu. Menntamálastofnun, KrakkaRúv og Sögur – samtök um barnamenningu standa að verkefninu Sögur verðlaunahátíð barnanna og heiðursverðlaunin eru Hrefnu og Lindu kær. „Börnin eru okkar bestu gagnrýnendur og þetta eru allra, allra bestu verðlaun sem við getum fengið, því þau eru fyrir börnin.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson