[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland og Holland eru bæði nánast örugg með sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli þeirra í seinni leik D-riðilsins í Leipzig í Þýskalandi í gærkvöld

EM 2024

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Frakkland og Holland eru bæði nánast örugg með sæti í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli þeirra í seinni leik D-riðilsins í Leipzig í Þýskalandi í gærkvöld.

Austurríki er í hörðum slag um að komast áfram eftir sigur á Pólverjum í Berlín, 3:1, en úrslit seinni leiksins sáu til þess að stigalausir Pólverjar eru endanlega úr leik. Þeirra von var fólgin í því að Frakkar myndu tapa gegn Hollandi.

Nú geta Pólverjarnir ekki lengur komist úr neðsta sæti riðilsins og geta farið að skipuleggja stutt ferðalag heim eftir lokaleik sinn gegn Frökkum. Þeir eru þar með fyrsta liðið sem er endanlega úr leik á þessu Evrópumóti.

Leikur Hollendinga og Frakka var ágætlega fjörugur á köflum, sérstaklega framan af. Frakkarnir voru heldur sterkari aðilinn en mörkin létu á sér standa.

Verðskuldað hjá Austurríki

Austurríkismenn unnu verðskuldaðan sigur á Pólverjum og hafa mætt öflugir til leiks á EM en þeir töpuðu mjög naumlega fyrir Frökkum í fyrstu umferðinni.

Gernot Trauner kom Austurríki yfir strax á 9. mínútu en Krzysztof Piatek jafnaði fyrir Pólverja eftir hálftíma leik.

Austurríkismenn tóku síðan völdin þegar á leið. Christoph Baumgartner skoraði á 66. mínútu, 2:1, og Marko Arnautovic innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 77. mínútu, 3:1.

Austurríki á eftir að mæta Hollandi og jafntefli myndi að öllum líkindum gulltryggja liðinu sæti í sextán liða úrslitum. Fjögur stig í þriðja sæti riðils eiga alltaf að duga til að vera eitt af fjórum liðum í þriðja sæti sem komast í útsláttarkeppnina.

Spennandi E-riðill

Úkraínumenn komu sér inn í baráttuna á ný og galopnuðu E-riðilinn með því að vinna Slóvakíu, 2:1, í Düsseldorf í gær. Allt annað en sigur hefði komið þeim í erfiða og jafnvel vonlausa stöðu.

Slóvakar virtust ætla að fylgja eftir sigrinum óvænta á Belgum og Ivan Schranz kom þeim yfir á 17. mínútu. Hann hefur gert bæði mörk liðsins í keppninni.

En Úkraínumenn tóku völdin í seinni hálfleik, Mykola Shaparenko jafnaði á 54. mínútu og lagði upp sigurmarkið fyrir Roman Yaremchuk á 80. mínútu.

Leikur Belga og Rúmena í kvöld ræður gríðarlega miklu um framhaldið. Takist Belgum að sigra verða öll liðin með þrjú stig fyrir lokaumferðina og þar verða því tveir úrslitaleikir, Belgía – Úkraína og Rúmenía – Slóvakía. Rúmenar geta hins vegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum með sigri á Belgum.

Síðustu leikir umferðarinnar

Annarri umferð riðlakeppninnar lýkur í dag með tveimur leikjum í F-riðli, auk viðureignar Belga og Rúmena. Tyrkir og Portúgalir mætast í áhugaverðum leik tveggja liða sem lögðu Georgíu og Tékkland að velli í fyrstu umferðinni.

Annað kvöld hefst svo þriðja umferðin með lokaumferð A-riðils þar sem Þjóðverjar eru þegar komnir áfram, Sviss stendur mjög vel að vígi en Skotland og Ungverjaland eygja enn von.