Varnir Norsk orrustuþota af gerðinni F-35 á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Norðmenn vilja geyma slíkar vélar í skýlum inni í fjallshlíð.
Varnir Norsk orrustuþota af gerðinni F-35 á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Norðmenn vilja geyma slíkar vélar í skýlum inni í fjallshlíð. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vinna er að hefjast við miklar endurbætur á herflugvellinum Rygge í suðurhluta Noregs. Munu Bandaríkin fjárfesta þar fyrir minnst 200 milljón dollara á komandi misserum. Tilgangurinn er að stórauka þar viðbragð og getu flugherja Bandaríkjanna, Noregs og Atlantshafsbandalagsins (NATO) til að bregðast við versnandi öryggisástandi í Evrópu. Greint er frá þessu í hermiðlinum Stars and Stripes, sem starfar með heimild bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon.

Talsmaður verkfræðideildar Bandaríkjahers segir stefnt að því að hefja framkvæmdir á Rygge-stöðinni strax á komandi mánuðum. Munu þær m.a. fela í sér stóraukið öryggi með flugvellinum í heild sinni, stærri skotfæra- og sprengjugeymslur en fyrir eru, flugskýli fyrir enn fleiri orrustuþotur og húsakost fyrir hundruð flug- og viðhaldsmanna. Einnig verða reistar eldsneytisgeymslur ofanjarðar fyrir bæði loftför og ökutæki. Á þetta að auðvelda herflugvélum NATO að athafna sig frá Noregi, en að baki þessari miklu uppbyggingu býr sameiginlegt hættumat Bandaríkjanna og Noregs eftir innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.

Herþotur geymdar inni í fjalli

Uppbyggingin á Rygge-velli er ekki einsdæmi í Noregi. Í norðurhlutanum má finna herflugvöllinn Bardufoss sem á sér yfir 80 ára sögu. Hluti aðstöðunnar þar er grafinn inn í fjallshlíð og vill norska varnarmálaráðuneytið nú taka þann hluta vallarins aftur í notkun eftir um 40 ára hlé. Inni í fjallshlíðinni má geyma og þjónusta orrustuþotur Noregs og NATO, m.a. hina nýju F-35. Aðstaða sem þessi kann að reynast ómetanleg komi til vopnaðra átaka, segir talsmaður norska flughersins.

„Allt snýst þetta um að vera viðbúinn,“ hefur bandaríski hermiðillinn eftir norska undirofurstanum Tron Strand. Segir hann að með tímanum geti fleiri þjóðir NATO nýtt sér aðstöðuna á herflugvöllunum Rygge og Bardufoss. Mikilvægt sé að efla varnir Evrópu í ljósi versnandi öryggisástands í kjölfar útþenslustefnu Moskvuvaldsins.

Höf.: Kristján H. Johannessen