Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Boston Garden þegar titillinn var í höfn á mánudagskvöld.
Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Boston Garden þegar titillinn var í höfn á mánudagskvöld. — AFP/Adam Glanzman
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmiðlar hafa fullyrt alls konar hluti. Að við gætum ekki spilað saman. Að við myndum aldrei vinna. Við höfum heyrt þetta allt saman. En við lokuðum bara á það og héldum okkar striki.“

Boston Celtics lönduðu 18. titli félagsins á mánudag þegar liðið lagði Dallas Mavericks í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta. Boston vann fjóra leiki og tapaði aðeins einum í viðureigninni við Dallas og var sigurinn sannfærandi, þótt eini tapleikurinn hafi verið með 38 stigum, einum mesta mun frá upphafi í úrslitakeppni.

Fremstir hjá Boston voru Jaylen Brown og Jason Tatum, en liðið allt er hins vegar vel skipað og má segja að allir hafi lagt sitt af mörkum á leiðinni að titlinum. Bakverðirnir Jrue Holiday og Derrick White eru kempur í vörn og sókn og öldungurinn Al Horford gefur ekkert eftir. Þá hefur Lettinn Kristaps Porzingis átt frábært tímabil, þótt hann hafi meiðst í upphafi úrslitakeppninnar og ekki komið mikið við sögu.

Besta lið deildarinnar

Boston var besta lið deildarinnar í vetur. Á leiktímabilinu vann Boston 64 leiki og tapaði aðeins 18. Liðið vann 20 heimaleiki í röð í upphafi tímabils. Þeir unnu 14 leikjum meira en næsta lið í Austurdeildinni, New York Knicks, og sjö leikjum meira en efsta liðið vestan megin, Oklahoma City Thunder. Samt voru efasemdaraddirnar háværar. Í nánast hvert skipti sem liðið tapaði leik var viðkvæðið að nú væri kominn fram brestur, sem yrði liðinu að falli í úrslitakeppninni. Liðið gæti ekki unnið leiki þegar mjótt væri á mununum. Liðið gæti ekki haldið í forskot. Þegar þriggja stiga skotin geiguðu væru því allar bjargir bannaðar.

Annað kom á daginn. Yfirburðirnir í úrslitakeppninni voru miklir. Í fyrstu umferð lenti Boston á móti Miami Heat. Í fyrra sló Miami Boston út í sjö leikjum í úrslitum Austurdeildar og Jimmy Butler lék á als oddi. Nú var ekki mikil fyrirstaða í Miami og ekki hjálpuðu meiðsli Butlers liðinu frá Flórída. Boston vann 4:1.

Sama var upp á teningnum gegn Cleveland Cavaliers. Aftur vann Boston 4:1.

Í úrslitum Austurdeildar mætti Boston ungu og efnilegu liði Indiana Pacers og fór í gegnum þá rimmu án þess að tapa leik. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Boston vann aðeins annan leikinn með yfirburðum, í hinum öllum rétt tókst meisturunum að kreista fram sigur. Fyrsti leikurinn fór í framlengingu eftir að Brown hafði jafnað leikinn með erfiðu þriggja stiga skoti nánast utan vallar. Boston hafði svo sigur í framlengingunni, 133;128. Í leikjum þrjú og fjögur munaði aðeins þremur stigum í hvorum leik fyrir sig Boston í vil þegar upp var staðið.

Yfirburðir Dončić

Dallas var í fimmta sæti Vesturdeildar og þurfti að hafa aðeins meira fyrir því að komast í úrslitin, en með eitthvert skæðasta bakvarðapar sögunnar í körfubolta, þá Luka Dončić og Kyrie Irving, tókst þeim að slá út þrjú lið, sem öll voru ofar í töflunni þegar venjulega leiktímabilinu lauk og hefðu átt að teljast sigurstranglegri.

Dončić er sennilega besti leikmaður deildarinnar, aðeins 25 ára, og má rifja upp að hann var í skæðu liði Slóveníu, sem lék Ísland grátt í Helsinki í riðlakeppninni á EM 2017 og stóð að lokum uppi sem Evrópumeistari. Ýmsir fengu það hlutverk að stöðva Dončić og oft þurfti Brown að gæta hans. Eftir fimmta leikinn gekk Brown til Dončić og faðmaði Slóvenann að sér. Brown var með hljóðnema á sér og heyrðist hrósa honum fyrir frammistöðuna: „Þú náðir því besta út úr mér. Ég elska þig, bróðir.“

Irving hefur leikið frábærlega fyrir Dallas á tímabilinu og átti ekki lítinn þátt í að liðið komst í úrslitin. Hann er líka með Íslandstengingu, kom hingað árið 2008 með grunnskólaliðinu sínu og skoraði 52 stig í æfingaleik gegn U18-landsliði Íslands (Ísland vann með tveggja stiga mun).

Í úrslitarimmunni gegn Boston voru honum hins vegar mislagðar hendur ef frá er skilinn leikur þrjú þar sem hann skoraði 35 stig og 21 stig í bursti Dallas á Boston í leik fjögur. Irving hitti úr 41,4% skota sinna í leikjunum gegn Boston, sem er þriðja versta skotnýting hans í úrslitakeppninni. Hans versta skotnýting var hins vegar þegar hann spilaði með Boston og liðið datt út í annarri umferð úrslitakeppninna gegn Milwaukee Bucks árið 2019 í fimm leikjum. Þá var nýting Irving 35,6%. Árið eftir var hann farinn til Brooklyn.

Irving hafði hins vegar verið keyptur til Boston til að búa til meistaralið og þótti ekki standa undir væntingum. Stuðningsmenn Boston hafa enda látið Irving heyra það og þegar hann hefur snúið aftur í Boston Garden hafa þeir púað í hvert skipti, sem hann snerti boltann. Á því var engin undantekning í lokaleik úrslitakeppninnar á mánudag.

Aðeins þrír leikmenn eru eftir hjá Boston af þeim, sem þá voru þar fyrir, þeir Brown, Horford og Tatum.

Kæfandi varnarleikur

Boston lagði Dallas 4:1 og var það ekki síst fyrir kæfandi vörn þar sem tókst að halda aftur af sóknarparinu Dončić og Irving. Boston er með mjög fjölhæft varnarlið og ber þar ekki síst að nefna þá Brown, Holiday og White, sem gefa sig alla í leikinn.

Til marks um það er að um miðjan lokaleikinn kastaði White sér í gólfið eftir lausum bolta og fékk einn leikmann Dallas beint í hnakkann þannig að andlitið á honum skall í gólfið. Við það brotnaði framtönn, en White hélt áfram að spila og var jafnvel öflugri en fyrir byltuna.

Jaylen Brown var valinn mikilvægasti leikmaður bæði úrslitanna í Austurdeildinni og lokarimmunnar, en Tatum lagði ekki síður af mörkum. Þetta er sjötta árið, sem þeir félagar leika saman. Oft hafa þeir náð langt og titillinn nú er því þeim mun sætari.

Það getur verið flókið að setja saman meistaralið. Michael Jordan varð ekki meistari með Chicago Bulls fyrr en á sínu sjöunda leiktímabili með liðinu árið 1991. Þá loks hafði tekist að fá nógu öfluga leikmenn í kringum hann til að vinna titla og þeir urðu sex.

Sigursælasta lið NBA

Boston er sigursælasta lið NBA. Með sigrinum í liðinni viku landaði liðið sínum 18. meistaratitli og hefur nú unnið einum fleiri en höfuðandstæðingarnir Los Angeles Lakers, sem eru með 17 titla.

Önnur lið eru langt undan. Golden State Warriors hafa unnið sjö titla, Chicago sex og San Antonio Spurs fimm. Tíu lið í deildinni hafa aldrei unnið titil.

Boston vann sinn fyrsta titil árið 1957. Tveimur árum síðar hófst sigurganga, sem seint verður jöfnuð. Frá 1959 til 1966 vann liðið átta titla í röð, klikkaði árið 1967, en vann svo aftur 1968 og 1969. Á sjöunda áratugnum var Bill Russell burðarásinn í liðinu. Hann kom til Boston 1957, spilaði með liðinu í 13 ár og vann 11 titla, tvo síðustu sem spilandi þjálfari.

Boston vann tvo titla á áttunda áratugnum og þrjá á þeim níunda með Larry Bird í aðalhlutverki. Síðasti titillinn með Bird var 1986 og þá tók við 36 ára eyðimerkurganga.

Árið 2008 var hins vegar röðin komin að Boston á ný. Þá komu leikmennirnir Kevin Garnett, Ray Allen og Rajon Rondo til Boston þar sem fyrir var Paul Pierce. Það ár bar Boston sigurorð af Los Angeles, sem var með leikmenn á borð við Kobe Bryant og Pau Gasol.

Celtics og Lakers mættust aftur í úrslitum tveimur árum síðar með sama kjarna leikmanna, en þá hafði Kaliforníuliðið betur.

Uppbygging meistaraliðs

Segja má að uppbygging núverandi meistaraliðs hafi hafist árið 2016 þegar Boston hafði þriðja valrétt í nýliðavalinu og valdi Jaylen Brown. Árið eftir hafði Boston aftur þriðja valréttinn og valdi þá Jayson Tatum. Tekin var ákvörðun um að púsla saman liði í kringum þessa tvo leikmenn með það að markmiði að vinna meistaratitilinn.

Á ýmsu hefur gengið á þeirri leið, liðið hefur oft náð langt, en vonbrigðin hafa líka verið sár. Síðan Brown og Tatum byrjuðu að spila saman tímabilið 2017-18 hefur Boston fjórum sinnum tapað í úrslitum Austurdeildar og einu sinni í úrslitum.

Það var á móti Golden State Warriors árið 2022. Þá komst Boston í 2:1, en tapaði næstu þremur leikjum og Steph Curry og félagar fögnuðu meistaratitli á heimavelli Boston.

Margir leikmenn hafa komið við sögu á þessum tíma. Al Horford kom til Boston, fór og kom svo aftur. Mikilvægt skref var stigið þegar Derrick White kom til liðsins frá San Antonio Spurs á miðju tímabili, í febrúar 2022. Hann átti mikinn þátt í að liðið komst í úrslit það árið.

Aftur datt Boston í lukkupottinn þegar liðið landaði leikmanninum Jrue Holiday í fyrra frá Milwaukee Bucks. Holiday er eini leikmaður Boston, sem var með meistaratitil fyrir, varð meistari með Milwaukee 2021 og var lykilmaður í því liði. Menn klóra sér enn í höfðinu yfir því að Bucks skyldu láta hann fara.

Lettinn Kristaps Porzingis kom einnig í raðir Boston í fyrra. Hann spilaði fyrst í NBA árið 2015, þá með Knicks. Miklar væntingar voru gerðar til hans þegar hann kom til New York, en meiðsli og ýmislegt annað urðu til þess að minna varð úr en efni stóðu til. Porzingis er 2,18 m á hæð, getur skotið alls staðar á vellinum og gerir andstæðingunum erfitt fyrir að ráðast á körfuna. Hann átti frábært tímabil, en varð fyrir meiðslum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og kom því minna við sögu en efni stóðu til. Liðið var mun betra þegar hann var inni á vellinum í úrslitakeppninni, en kannski mátti Boston ekki við meiri yfirburðum.

Al Horford er aldursforsetinn í liði Boston og varð 38 ára í sumar. Hann er frá Dóminíska lýðveldinu og fyrsti leikmaðurinn þaðan til að verða meistari í NBA. Þetta var 17. tímabilið hans í deildinni og hann var þurfti að spila 186 leiki í úrslitakeppni til þess að landa loks titli. Hann átti aðeins sjö leiki í að jafna met Karls Malones, sem lék 193 leiki í úrslitakeppni NBA án þess að verða meistari. Aðrir leikmenn Boston tala um hann af mikilli virðingu og væntumþykju og segja að hann sé ómissandi liðsfélagi.

Ýmsir aðrir leikmenn komu inn á af bekknum og settu mark sitt á leik liðsins. Þriggja stiga skyttan Sam Hauser reyndist geigvænlega skotviss og bakvörðurinn lúsiðni Payton Pritchard þeyttist um allan völl og tókst í tvígang að dúndra boltanum frá miðju í körfuna í lok leikhluta þegar Dallas Mavericks gerðu sig líklega til að komast inn í leiki.

Þá má ekki gleyma þjálfaranum. Joe Mazzulla tók við liðinu til bráðabirgða í september 2022 rétt áður en tímabilið hófst þegar Ime Udoka var vikið frá og sendur í leyfi fyrir að hafa brotið starfsreglur Boston Celtics. Ekki er vitað hvað gerðist og í fyrstu var gefið til kynna að hann gæti snúið aftur, en af því varð ekki og í febrúar í fyrra var Mazzulla fastráðinn. Margir héldu að hann hefði ekki reynslu til að leiða Boston að meistaratitli, en annað kom á daginn. Mazzulla er 35 ára og yngsti þjálfari til að verða meistari í NBA síðan Bill Russell leiddi Boston til sigurs árið 1968 34 ára gamall.

Tvíeykið Brown og Tatum

Lykillinn að sigri Boston var þó samleikur Browns og Tatums. Brown hefur sagt frá því að í menntaskóla í Georgíu hafi kennari sagt við sig að hann ætti eftir að lenda í fangelsi. Tatum minnist þess að hafa farið að gráta þegar grunnskólakennari í St. Louis hafi sagt við sig að draumurinn um að spila í NBA væri „kjánalegur“.

Oft hafa komið fram efasemdaraddir um að þeir væru nógu góðir til að hægt væri að byggja á þeim. Nú eru þeir meistarar og Brown var valinn mikilvægasti leikmaður liðsins bæði í úrslitum Austurdeildar og í viðureigninni við Dallas. Eftir að það var tilkynnt sagði Brown að hann deildi þeim verðlaunum með Tatum, bróður sínum.

„Við höfum nú spilað saman í sjö ár,“ sagði Brown þegar meistaratitillinn var í höfn. „Við höfum gengið í gegnum mikið – töpin, væntingarnar. Fjölmiðlar hafa fullyrt alls konar hluti. Að við gætum ekki spilað saman. Að við myndum aldrei vinna. Við höfum heyrt þetta allt saman. En við lokuðum bara á það og héldum okkar striki. Ég treysti honum og hann treysti mér. Að ná þessu marki og deila því með JT er bara stórkostlegt.“

Tatum tók í sama streng í samtali við Boston Globe: „Meginmarkmiðið var að vinna meistaratitil. Okkur var sama hver yrði mikilvægasti leikmaður úrslitanna. Ég veit að ég þarf á honum að halda í þessum leiðangri og hann á mér.“

18. titli Celtics var fagnað með skrúðgöngu um Boston á föstudag. Menn gefa leikmönnum Boston hins vegar ekki mikinn tíma til að njóta sigursins. Strax er farið að tala um hvort Boston hafi burði til að endurtaka leikinn næsta vetur. Það gæti orðið þrautin þyngri. Sex ár eru síðan sama liðið vann síðast tvö tímabil í röð. Það voru Golden State Warriors 2017 og 2018. Brown og Tatum eru hins vegar aðeins 27 og 26 ára og haldist þeir heilir eru þeirra bestu ár fram undan. Framtíðin er því björt hjá Boston hvernig sem fer.