Þessi fræga mynd var á sínum tíma seld á uppboði til styrktar fólki á hamfarasvæðum í Asíu.
Þessi fræga mynd var á sínum tíma seld á uppboði til styrktar fólki á hamfarasvæðum í Asíu. — Ljósmynd/Patrick Demarchelier
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fer raunar hrollur um mig þegar ég stilli þessu upp, þar sem allir geta séð það

Það er ekki hverjum sem er boðið að halda einkasýningu á munum úr eigin eigu í hinu virta safni Victoria & Albert í Suður-Kensington og Naomi Campbell fetar nú í fótspor fólks á borð við David Bowie og Fridu Kahlo. Þykir þetta enn ein staðfestingin á sérstöðu ofurfyrirsætunnar innan hátískuheimsins en hún er sem kunnugt er hvergi farin að rifa seglin, 54 ára.

Campbell hefur varðveitt margt af því sem tengist ferli hennar, sem hófst þegar hún var aðeins 16 ára, kjóla, búninga, skart, ýmsa fylgihluti en líka ljósmyndir og annað. Hugmyndin er að sýningin gefi gestum góða innsýn í litríkt líf fyrirsætunnar.

Aðalsýningarstjórinn, Sonnet Stanfill, segir í samtali við fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, gesti eiga veislu fyrir
höndum; eins konar ferðalag gegnum líf Naomi Campbell.

„Ég hef unnið [að sýningunni] með frábæru teymi og það hefur verið dásamlegt að enduruppgötva marga af þessum hlutum. Sumt af þessu hefur aldrei sést opinberlega. Það fer raunar hrollur um mig þegar ég stilli þessu upp, þar sem allir geta séð það; þetta er Pandóru-kassinn minn, þannig lagað,“ segir Campbell sjálf í samtali við vef BBC.

Munirnir á sýningunni hlaupa á hundruðum, þar á meðal yfir 100 kjólar og búningar sem hún klæddist í forsíðumyndatökum fyrir hin ýmsu blöð og tímarit í upphafi ferils síns.

Og það er ekki bara glamúr og glys en á sýningunni verður einnig kjóllinn sem Campbell klæddist síðasta daginn sem hún gegndi samfélagsþjónustu eftir að hafa hlotið dóm fyrir að ráðast á þjónustustúlku sína árið 2007. Sá kom frá Dolce & Gabbana.

Þá hafa minningarnar streymt fram en við undirbúning sýningarinnar hefur nána vini, sem nú eru látnir, að sjálfsögðu borið á góma, má þar nefna hönnuðina Alexander McQueen og Azzedine Alaïa, að ekki sé talað um Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, sem Campbell leit mikið upp til. Sjálf er Campbell ákaflega stolt af kynþætti sínum og hefur alla tíð viljað vera svörtum stúlkum og konum innblástur. Hún var fyrsta konan til að prýða forsíðu bæði Vogue og Time Magazine.

Sýningunni lýkur í apríl á næsta ári.