Anton Guðmundsson
Anton Guðmundsson
Samfélagið ber sameiginlega ábyrgð á því að vernda og efla börnin okkar.

Anton Guðmundsson

Börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum – þau eru framtíðin okkar. Ómótaðir einstaklingar sem við berum ábyrgð á. Við verðum að hafa ákveðin gildi að leiðarljósi í samfélagi okkar sem snúa að börnum.

Við verðum að skapa tækifæri fyrir öll börn, óháð kyni, uppruna eða félagslegri stöðu. Jafnrétti er lykilatriði að tryggja að öll börn fái sömu tækifæri til að ná árangri. Þetta felur í sér að brjóta niður hindranir og mismunun, og stuðla að samfélagi þar sem öll börn fá að njóta sín til fulls.

Samfélagið ber sameiginlega ábyrgð á því að vernda og efla börnin okkar. Foreldrar, kennarar, stjórnvöld og almenningur þurfa að vinna saman að því að skapa betri heim fyrir komandi kynslóðir. Með samstilltu átaki getum við tryggt að börnin okkar fái bestu mögulegu framtíðina, þar sem þau geta blómstrað og nýtt hæfileika sína til fulls.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er einn af mikilvægustu alþjóðasamningum sem hafa verið samþykktir til verndar réttindum barna. Samningurinn, sem var samþykktur árið 1989, markar tímamót í alþjóðlegum mannréttindum og hefur haft gríðarleg áhrif á líf milljóna barna um allan heim.

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.

Í 1.-41. grein Barnasáttmálans er fjallað efnislega um réttindi barna. Flokka má réttindi barna í þrennt: vernd, umönnun og þátttöku.

Vernd: Réttur allra barna til lífs og frelsis til tjáningar, skoðana og trúar. Friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs.

Umönnun: Réttur allra barna til að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun og tækifæri til að þroskast félagslega.

Þátttaka: Réttur allra barna til að koma skoðunum sínum á öllum málum sem þau varða á framfæri, með einum eða öðrum hætti. Taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Öll réttindin sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum eru mikilvæg. Fjórar greinar sáttmálans fela þó í sér grundvallarreglur sem eru rauður þráður í gegnum allan sáttmálann og tengja saman ólík ákvæði hans. Ef önnur ákvæði Barnasáttmálans vega hvert á móti öðru varðandi túlkun þeirra er sérstaklega mikilvægt að hafa þessar grundvallarreglur í huga.

Greinarnar fjórar eru eftirfarandi:

2. grein: Öll börn eru jöfn. Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.

3. grein: Það sem barni er fyrir bestu: Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. Stjórnvöld eiga að tryggja að foreldrar verndi börn sín og gæti þeirra, eða aðrir í þeirra stað þegar þörf er á. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem ábyrgt er fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.

6. grein: Líf og þroski: Öll börn eiga rétt á því að lifa og þroskast og skulu stjórnvöld tryggja það.

12. grein: Virðing fyrir skoðunum barna: Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið byggist á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga úti um allan heim frá árinu 1996. Verkefnið byggist jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. UNICEF á Íslandi hefur umsjón með verkefninu en verkefnið er stutt af mennta- og barnamálaráðuneytinu. Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í átta skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi.

23 sveitarfélög á Íslandi hafa farið þessa leið. Við í Framsókn í Suðurnesjabæ viljum innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi hjá Suðurnesjabæ og munum við mæla fyrir málinu á næstunni.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs.