Tjörupappi Slökkvilið borgarinnar er kallað út fjórum sinnum á ári, að meðaltali, vegna íkveikju frá þakpappalögn.
Tjörupappi Slökkvilið borgarinnar er kallað út fjórum sinnum á ári, að meðaltali, vegna íkveikju frá þakpappalögn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Bergsson oskar@mbl.is Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið kallað út 40 sinnum á síðustu tíu árum vegna bruna af völdum þakpappavinnu. Engar kröfur eru gerðar um menntun eða hæfni þeirra sem starfa við þakpappalögn.

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið kallað út 40 sinnum á síðustu tíu árum vegna bruna af völdum þakpappavinnu. Engar kröfur eru gerðar um menntun eða hæfni þeirra sem starfa við þakpappalögn.

Spurningar vakna um hvernig öryggis- og hæfniskröfum sé mætt vegna vinnu iðnaðarmanna við lagningu og bræðslu tjörupappa, eftir að gríðarlegt tjón varð vegna eldsvoðans í Kringlunni um síðustu helgi.

Regína Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri brunavarnarsviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, segir rannsóknarskyldu hvíla á stofnuninni þegar stórfellt eignatjón verður eins og í Kringlunni.

„Hér þarf að bæta úr“

„Í dag eru engar kröfur í regluverkinu um menntun eða hæfni þeirra sem starfa við þakpappalögn og þetta eru göt sem þarf að stoppa upp í. Annars staðar á Norðurlöndunum þurfa aðilar að hafa ákveðin réttindi eða viðurkenningu eftir að hafa sótt námskeið. Hér þarf að bæta úr, með því að halda námskeið og tryggja með regluverki að þeir sem sinna þessum verkum séu hæfir til þess,“ segir Regína.

Jón Viðar Matthíasson slökkviðliðsstjóri segir slökkviliðið hafa í gegnum tíðina vakið máls á þeirri hættu sem stafar af vinnu með þakpappa.

„Það er búið að vera baráttumál að innleiða reglur hér á Íslandi, sem hafa verið lengi við lýði á Norðurlöndunum. Tryggingafélögin þar taka virkan þátt í þessum námskeiðum og gerðar eru kröfur um að enginn geti tekið að sér þakpappalagnir nema að undangengnu námskeiði sem gefur réttindi til fimm ára í senn. Frumkvæði að slíku hér á landi þarf að koma frá HMS sem ber ábyrgð á málaflokknum á landsvísu,“ segir Jón Viðar.

Fyrstu viðbrögð HMS eftir brunann voru að mynda samstarfstarfshóp ásamt slökkviliðinu og fleiri aðilum til að útbúa leiðbeiningablað fyrir iðnaðarmenn sem sinna verkefnum eins og þessum.

HMS er í samstarfi við Iðuna fræðslusetur um námskeiðahald fyrir iðnaðarmenn og réttindi fyrir byggingastjóra en ekki varðandi þakpappavinnu. Regína telur mikilvægt að bjóða upp á námskeið fyrir þá sem starfa í þessum geira, þó að regluverk vanti.

Lögreglan rannsakar málið

Vera Einarsdóttir upplýsingafulltrúi Vinnueftirlitsins segir stofnunina vera með málið til skoðunar með hliðsjón af forvörnum þannig að koma megi í veg fyrir atvik sem þessi, við sambærileg verkefni framvegis.

„Vinnueftirlitið hafði samband við hlutaðeigandi verktaka í kjölfar brunans í Kringlunni og fékk þær upplýsingar að áhættumat og verklag hefði legið fyrir áður en þessi verkþáttur hófst og að unnið hefði verið eftir því. Slys af þessu tagi, þar sem ekki verða meiðsl á fólki, eru ekki tilkynningaskyld til Vinnueftirlitsins heldur fer lögreglan með rannsókn málsins,“ segir Vera.

Höf.: Óskar Bergsson