Samkomulag Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar undirrita kjarasamning við sveitarfélögin.
Samkomulag Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar undirrita kjarasamning við sveitarfélögin. — Ljósmynd/Sameyki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þótt búið sé að semja um endurnýjun kjarasamninga fyrir meginþorra launafólks á almennum markaði og fjölmörg stéttarfélög opinberra starfsmanna hafi undirritað samninga við viðsemjendur þeirra hjá ríki, Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum á seinustu dögum og vikum, er enn mikið verk fyrir höndum. Ósamið er við fjölda stéttarfélaga, þ.m.t. háskólamenn í aðildarfélögum BHM, sem eru rúmlega 18 þúsund talsins í 24 félögum, við kennarafélögin, sem eru með um tólf þúsund félagsmenn í sjö aðildarfélögum, hjúkrunarfræðinga með tæplega fjögur þúsund starfandi félagsmenn og fleiri. Þessum viðræðum hefur ekki verið vísað til sáttameðferðar og gæti teygst úr viðræðum fram yfir sumarleyfin. Nokkur sáttamál eru auk þess í vinnslu á borði ríkissáttasemjara.

Að sögn Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara eru enn nokkur mál ófrágengin hjá embættinu og eru menn þessa dagana að reyna að átta sig á hverjum unnt verður að ljúka fyrir mánaðamót en oftast nær hafa fundarhöld í húsnæði ríkissáttasemjara legið að mestu niðri í júlí og fram í ágúst.

„Ég ætla að reyna eins og oftast hefur verið gert að vera ekki með samningafundi eins og hægt er í júlímánuði,“ segir Ástráður en tekur fram að ef þörf krefji muni hann að sjálfsögðu verða til staðar og sinna því. „Við reynum eins og við getum að klára það sem hægt er í næstu viku og svo þurfum við að taka stöðuna,“ segir hann.

Fleiri samningar hafa náðst á seinustu dögum. Í fyrrdag samdi Efling við Reykjavíkurborg og í gær undirritaði Samiðn kjarasamninga við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, HS Orku og HS Veitur.

Það er til marks um fjölda kjarasamninga sem þarf að endurnýja á vinnumarkaðinum, að í síðustu kjaralotu vegna skammtímasamninganna frá nóvember 2022 og fram á fyrstu mánuði yfirstandandi árs, voru gerðir tæplega 300 kjarasamningar. Þeir náðu til rúmlega 170 þúsund launþega.

Kjaratölfræðinefnd birtir nýjustu tiltæku upplýsingar um skipulag og stöðu mála á vinnumarkaði í vorskýrslu sinni. Þar má sjá að samningar SA ná til um 65% alls launafólks á vinnumarkaði og 98% launafólks á almenna markaðinum. Ríkið semur við alls 82 stéttarfélög, Reykjavíkurborg við 19 stéttarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga við 58 félög. Þótt mikill meirihluti launafólks sé í stéttarfélögum sem eiga aðild að heildarsamtökum standa mörg félög utan heildarsamtaka. Það eru m.a. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og stéttarfélög ýmissa heilbrigðisstétta. „Ætla má að um 19 þúsund manns séu félagsmenn í stéttarfélögum utan heildarsamtaka,“ segir í vorskýrslunni.

Vinnumarkaðurinn hefur vaxið ört að undanförnu. Í fyrra voru tæplega 220 þúsund manns starfandi á vinnumarkaði. „Megnið af fjölgun starfandi síðustu tvö ár er erlent launafólk og skýrir það bæði hraða fjölgun starfandi og íbúa. Frá árinu 2019 má rekja tvo þriðju af fjölgunni til þess og er hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði nú það hæsta nokkru sinni, um 23%,“ segir í vorskýrslunni.

Aðild að stéttarfélögum og svonefnd þekja kjarasamninga á Íslandi er ein sú mesta í heimi. Umsamin kjör í kjarasamningum ná til stærri hluta starfandi fólks en í nokkru öðru aðildarlandi OECD.

Langtímasamningar

Merkið að festast í sessi

Kjarasamningarnir sem gerðir voru í mars sl. á almenna markaðinum gilda til janúarloka 2028. Flestir samningar sem undirritaðir hafa verið í kjölfarið eru einnig til fjögurra ára og eru á sambærilegum nótum. Samningamenn hafa gjarnan á orði að nýgerðir samningar hafi fylgt merki stöðugleikasamninganna.

„Þetta merki sem hefur verið að mótast hefur verið að fá mikla festu og þetta hefur allt saman verið í eðlilegu samræmi við það sem upp var lagt með á stóra borðinu. En við eigum eftir að sjá hvernig okkur gengur að leysa úr málum gagnvart sérstaklega BHM og Kennarsambandinu,“ segir Ástráður Haraldsson, spurður um stöðuna í samningalotunni.

Höf.: Ómar Friðriksson