[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þarna kemur í ljós, öfugt við hvernig okkar upplifun er í samtímanum, að það er meiri friður í heiminum í dag en áður.

Gallerí Undirgöng er óhefðbundið listamannarekið sýningarrými við Hverfisgötu 76 í Reykjavík. Hlutverk gallerísins er að sýna tímabundin útilistaverk í borginni, auka sýnileika samtímalistar í borgarrýminu og skapa tækifæri fyrir myndlistarmenn til að vinna verk fyrir almannarými.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir sýnir þar verk á sýningunni Við erum hér. „Verkin eru hugsuð fyrir þennan stað en hér eru undirgöng opin fyrir öllum allan sólarhringinn í íslensku veðri og vindum. Þetta eru aðrar aðstæður en að sýna inni í hefðbundnu galleríi eða safni og verkin því sérstaklega gerð fyrir þetta samhengi. Mig langaði til að gera eitthvað sem væri yfirlýsing,“ segir Sirra. „Sýningin heitir Við erum hér, og samanstendur af fimm nýjum verkum sem meðal annars vísa í staðsetningar, kosmísk fyrirbæri og samskipti á milli þjóðríkja. Það má segja að þetta sé eins konar stöðutékk.“

Gordíonshnútur

Eitt verkanna er stækkuð teikning af hnút. „Þarna er ég að hugsa um gordíonshnútinn, sem er hnúturinn sem við vísum til í orðatiltækinu að höggva á hnútinn og vísar aftur í frásögn af Alexander mikla. Þetta er óleysanlegur hnútur og á honum sjást engir endar. Tvær sögur eru af því hvernig Alexander leysti hnútinn, önnur með afli, hin með kænsku.“

Átök og friður

Annað verk er uppstækkuð teikning, gerð eftir grafi frá netsíðu sem heitir Our World in Data en þar er hægt að skoða alls konar talnaupplýsingar um heiminn, sem eru settar fram í myndrænum gröfum. „Þetta verk, Sambönd milli tveggja ríkja, sýnir breytilegt ástand átaka eða friðar á milli landa eða þjóða frá aldamótum 1900 til ársins 2023. Samböndin eru flokkuð í fimm flokka: Alvarleg átök, átök, neikvæðan frið, hlýlegan frið og öryggissamband. Þarna kemur í ljós, öfugt við hvernig okkar upplifun er í samtímanum, að það er meiri friður í heiminum í dag en áður.“

Sirra sýnir fleiri verk í undirgöngunum. „Þarna er mynd af því sem á íslensku kallast skuggaþoka og er í órafjarlægð úti í geimnum þar sem nýjar sólir eru að fæðast. Þarna er líka þekkt teikning sem var send með Pioneer-geimförunum út í geim. Þar var grafin á skjöld teikning sem er tilraun til að miðla því hvar við mannkynið erum. Í framtíðinni getur einhver fundið þessa teikningu en við vitum ekki hver. Þá vaknar spurningin: Hvernig miðlarðu upplýsingum til einhvers sem þú veist ekki hver er, hvaða tungumál hann talar eða hvaða skynfæri hann hefur?

Mér finnst þetta áhugavert og við mættum gera meira af því að vanda okkur við að eiga samskipti við þá sem eru okkur framandi.“

Allt hefur merkingu

Spurð hvort að baki sýningu eins og þessari liggi miklar rannsóknir segir hún: „Ég er alltaf að safna í sarp myndum sem mér þykja áhugaverðar og þær koma oft úr vísindaheiminum. Ég sé ekki mikinn mun á þeim og landslagi. Á þessari sýningu vel ég að setja saman myndir sem í sameiningu skapa merkingu. Allt sem við sjáum hefur einhverja merkingu og segir sögu, maður þarf bara að lesa hana.“

Sýningin í Gallerí Undirgöngum stendur fram í miðjan júlí.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir