Albärt skemmtir áhorfendum.
Albärt skemmtir áhorfendum. — AFP/Adrian Dennis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópumót karla í knattspyrnu fer nú fram í Þýskalandi. Mikill viðbúnaður er í kringum mótið í hvert sinn og um mikla skemmtun er að ræða. Fótbolti er vinsælasta íþrótt flestra Evrópuþjóða og getur keppnin því orðið ansi spennuþrungin og kveikt miklar tilfinningar

Evrópumót karla í knattspyrnu fer nú fram í Þýskalandi. Mikill viðbúnaður er í kringum mótið í hvert sinn og um mikla skemmtun er að ræða. Fótbolti er vinsælasta íþrótt flestra Evrópuþjóða og getur keppnin því orðið ansi spennuþrungin og kveikt miklar tilfinningar.

Mótið snýst þó um meira en einungis fótbolta. Líkt og önnur íþróttamót stendur Evrópumótið fyrir tengsl milli ólíkra þjóða, og íþróttir hafa í gegnum tíðina búið yfir miklum sameiningarkrafti. Það hefur fótbolti alltaf gert og eitt frægasta dæmið er aðfangadagur árið 1914 þegar franskir, þýskir og breskir hermenn komu upp úr skotgröfunum í fyrri heimsstyrjöld og sameinuðust í vopnahléi með fótboltaleik.

Árið 1980 var lukkudýr Evrópumótsins kynnt áhorfendum í fyrsta skipti. Mótið var þá haldið á Ítalíu og lukkudýrið var Gosi, frægi spýtustrákurinn, en höfundur Ævintýra Gosa er einmitt ítalskur.

Síðan þá hafa lukkudýrin leikið stórt hlutverk og verið mikil skemmtun fyrir börn jafnt sem fullorðna. Hvert mót hefur ákveðið lukkudýr orðið fyrir valinu og hafa þau verið jafn ólík og þau eru mörg.

Dýr og börn

Lukkudýr eiga sér langa sögu, en hugtakið kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1880 í Frakklandi með óperunni „La Mascotte“. Þar er sagt frá ítölskum bónda sem fékk litla sem enga uppskeru á sveitabæ sínum. Einn dag birtist honum kona sem á að hjálpa honum við vinnuna, en bóndinn veit ekki að konan er svokölluð „mascotte“, eða eins konar heilladís sköpuð af Guði, og á að veita hverjum þeim sem hún vinnur hjá lukku.

Hugmyndin um lukkudýr í íþróttum varð til þremur árum síðar í Bandaríkjunum þegar ungur strákur að nafni Chic var hjálparhella hafnaboltaliðs. Það var þó ekki hans eina hlutverk, en leikmenn liðsins héldu því fram að strákurinn færði þeim lukku og þurfti hann ávallt að vera viðstaddur leiki.

Ári síðar kom fram sú hugmynd að tefla fram dýrum sem lukkugripum, en sú hugmynd var byggð á misskilningi. Þá hafði sést til ákveðinnar geitar ráfandi um leikvang bandarísks hafnaboltaliðs. „Geitin hafði ábyggilega verið í leit að tómum dósum eða matarafgöngum,“ skrifar dagblaðið Cincinnati Enquirer árið 1884. Áhorfendur héldu hins vegar að þar væri lukkudýr liðsins mætt, þeim til mikillar gleði.

Þá var hugtakið lukkudýr orðið vel þekkt hjá almenningi, en svo virðist sem á 20. öld hafi þau flest verið annaðhvort dýr eða börn.

Eftir Gosa, árið 1984, var mótið haldið í Frakklandi og lukkudýrið var hani að nafni Peno. Hann var klæddur í liti franska fánans en hani er einmitt þjóðardýr Frakklands. Einnig þýðir Peno víti á frönsku. Þannig myndaðist sú hefð að lukkudýr hvers móts yrði sérstakt tákn þess en einnig landsins þar sem mótið var haldið.

Þó nokkur lukkudýr hafa vakið meiri athygli en önnur, en þar má nefna Goaliath frá 1996, sem er orðaleikur með orðið goal (mark) og risann Golíat, risi sem drengurinn Davíð felldi með steinslöngu. Einnig má nefna Súper-Viktor, lukkudýr árið 2016, dreng með ofurkrafta. Hannn var klæddur í liti franska fánans og gat hann flogið á milli leikja til þess að tryggja mismunandi liðum lukku.

Bangsinn Albärt

Þetta árið er lukkudýr Evrópumótsins ekki minna sérstakt en þau sem hafa komið á undan. Það er nefnilega bangsinn Albärt sem skemmtir lýðnum í Þýskalandi. Albärt er virðingarvottur við hinn upprunalega tuskubangsa, sem er talinn hafa komið fyrst fram á sjónarsviðið í Þýskalandi. Það var árið 1902, en maður að nafni Richard Steiff hafði þá gengið til liðs við frænku sína í leikfangaverksmiðju mörgum árum áður. Hann hafði útskrifast úr listaháskólanum í Stuttgart, og hans hlutverk í verksmiðjunni var að þróa ný leikföng fyrir börn. Hugmynd um leikfangabangsa var byggð á raunverulegum björnum sem Steiff hafði séð í dýragarðinum. Tuskubangsinn varð að veruleika, en sló hins vegar ekki í gegn eins og Steiff hafði búist við. Ári síðar var hann þó sýndur á leikfangahátíð þar sem bandarískur sölumaður sá bangsann og leist vel á.

Það sem Steiff hafði ekki áttað sig á var að vestan hafs var Teddy Roosevelt tiltölulega nýkjörinn Bandaríkjaforseti, og var hann virkilega vel liðinn og vinsæll meðal almennings. Sölumaðurinn pantaði því fjölmörg stykki, og fyrr en varði hafði tuskubangsinn slegið í gegn. Leikfangið varð hálfgerð táknmynd Teddys Roosevelts, sem enn í dag má líta á sem einn farsælasta forseta Bandaríkjanna.

Albärt er því virðingarvottur til tuskubangsans, en „bär“ þýðir bangsi á þýsku. Hann var fyrst kynntur sumarið 2023, og nafnið valið út frá kosningu sem evrópska knattspyrnusambandið hélt. Vefsíða sambandsins segir að bangsinn „feti í stór fótspor“, og nefnir forvera hans, þau lukkudýr sem hafa komið á undan. Enn fremur er minnst á að Albärt vilji „hvetja börn um alla Evrópu til þess að elska fótbolta og gildi hans“.

Þau minnast einnig á hversu mikilvægt er að örva ímyndunarafl barna og hvetja þau til að njóta fótboltans, enda búa allar íþróttir yfir miklum sameiningarkrafti, sama hvort um er að ræða börn eða fullorðna.