Margrét Hún naut mikillar virðingar og var vel liðin í samfélaginu.
Margrét Hún naut mikillar virðingar og var vel liðin í samfélaginu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét var ein af þessum konum sem fæddust inn í sveitasamfélag sem bauð ekki upp á neitt óskaplega mikið fyrir konur, en hún var fædd árið 1873 á Skjögrastöðum skammt frá Hallormsstað,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forstöðumaður…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Margrét var ein af þessum konum sem fæddust inn í sveitasamfélag sem bauð ekki upp á neitt óskaplega mikið fyrir konur, en hún var fædd árið 1873 á Skjögrastöðum skammt frá Hallormsstað,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga á Egilsstöðum, og á þar við Margréti Sigfúsdóttur, skáldkonu og kennara, en á safninu hefur verið sett upp sýning um Margréti. Hún er ein af þremur sýningum fyrir austan undir yfirskriftinni Konur/Women, hinar eru í Minjasafni Austurlands og Tækniminjasafni Austurlands.

„Margrét fór í gegnum þá byltingu sem varð með þéttbýlisvæðingunni. Hún ólst upp á sveitabænum Skjögrastöðum og bjó nokkuð lengi þar á heimili foreldra sinna, hún var orðin nítján ára þegar hún fluttist fyrst af heimilinu til að sinna vinnumennsku. Hún var 23 ára þegar hún kynntist vinnumanninum Þórólfi Sigvaldasyni og þau giftu sig ári síðar og fluttu saman á Fáskrúðsfjörð. Þar störfuðu þau sem verkafólk í fiskvinnu og við sveitastörf, en þau eignuðust tvo syni og bjuggu við bág kjör. Sæbjörn, eldri sonur Margrétar, lést aðeins 15 ára og eiginmaðurinn tveimur árum síðar. Þá flutti hún með yngri syninum, Jónasi, aftur í Fljótdsalinn, en hann dó úr berklum 23 ára. Áföllin dundu því á Margréti og eftir að hún var orðin ekkja og búin að missa bæði börnin sín þá starfaði hún fyrst sem vinnukona.“

Undirbjó börn fyrir farskóla

Stefán segir merkilegt að Margrét, sem ekki var skólagengin, hafi orðið kennari, en hún er í heimildum skráð kennari og var þá til heimilis á einhverjum bæjum nokkur ár í senn.

„Hún kenndi ungum krökkum að lesa og skrifa, undirbjó þau fyrir farskólann, og hún kenndi líka krökkum sem áttu erfitt með að læra. Hún og systur hennar frá Skjögrastöðum virðast allar hafa fengið góða grunnmenntun á æskuheimilinu, sem setti svip sinn á allt sem Margrét gerði. Hún sinnti ritstörfum alla sína ævi, og hún var skáld, elsta vísan sem til er eftir hana er frá því hún var átta ára. Ástæða þess að Héraðsskjalasafnið setti upp þessa sýningu um hana er sú að við erum með mjög mikið af handritum eftir Margréti. Hún var afkastamikil í skrifum, bæði eigin verka og annarra, ljóðahandritin hennar eru mjög skipulögð í átta bindum og bera vitni um 70 ára skáldferil. Hún hefur verið hirðusöm og haldið þessu til haga, en síðustu tvo áratugina í lífi sínu bjó hún á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal, og fjölskyldan þar hefur líka haldið vel utan um þetta. Allt skilaði sér á endanum á Héraðsskjalasafnið fyrir nokkuð mörgum árum, sem er mikið dýrmæti.“

Hún kallaði konur saman

Margrét giftist aldrei aftur og eignaðist ekki fleiri börn og hún átti heimili hjá öðrum, en ekki sitt eigið.

„Allar heimildir bera með sér að Margrét hafi notið mikillar virðingar, verið vel liðin. Hún skrifaðist mikið á við aðrar konur og til eru mörg bréf frá henni, en það sem brýtur enn frekar stöðluðu myndina er að hún endaði á að gefa út eigið efni á prenti, ekki bók, en hún sendi efni í tímarit. Framan af skrifaði hún einvörðungu ljóð, en hún fór líka að skrifa styttri skáldsögur, sem birtust sem framhaldssögur í tímaritum. Fyrst birti hún efni í kvennatímaritinu Hlín, en þar á undan hélt Margrét úti sínu eigin tímariti sem hún handskrifaði og gaf út í 17 ár. Kvenfélagið Eining í Fljótsdal stóð að baki þessu tímariti, sem hét Leiftur, en Margrét hélt utan um það, safnaði efni í blaðið, bæði eftir sig og aðrar konur. Tímaritið handskrifaði hún í einu eintaki og síðan var lesið upp úr því á kvenfélagsfundum. Hún var mikil kvenfélagskona og hvatamaður að því að kvenfélag var stofnað á Fáskrúðsfirði, hún kallaði konur saman. Þegar hún flutti í Fljótsdalinn varð kvenfélagastarfið hennar vettvangur, hún skrifaði fundargerðir, pistla og hugvekjur, sem og tímaritið Leiftur. Hún var penninn í hópnum.“

Sat yfir deyjandi fólki

Stefán segir að í ljóðum og sögum Margrétar komi sterkt fram að hún hafi verið trúuð.

„Hún skrifar líka um eigið hlutskipti, fátæktina og vinnuna, bæði hið neikvæða og jákvæða í þeim málum, og um að erfitt hafi verið að vera til. Eins kemur vel fram hversu vel hún þekkti náttúruna og er tengd henni. Í bréfum hennar má sjá að hún hafði gott skopskyn og í sögunum fer að örla á stéttavakningu, sérstaklega gagnvart því hvernig farið var með þá sem minna máttu sín. Þegar hún bjó á Fáskrúðsfirði var hún oft fengin til að sitja yfir veiku fólki og deyjandi, en hún gagnrýni í einhverjum sögum að þeir kæmu sér undan því hlutverki sem ættu að sinna því, prestar og ríkir karlar.“

Stefán segir að Margrét hafi framan af oftast birt skrif sín undir dulnefni, einkum þá Austfirsk kona, sem er einmitt titill sýningarinnar um hana.

„Sögurnar birti hún aftur á móti undir eigin nafni í tímariti sem kom út á Akureyri og hét Nýjar kvöldvökur, og hún fékk borgað fyrir þau skrif. Hún nær því að komast á þann stað að vera útgefinn launaður rithöfundur, en hún lést árið 1955. Öll þessi handrit geyma stórmerkilega sögu konu sem fæddist á nítjándu öld, Margrét var þrautseig kona sem mætti mörgum hindrunum en hélt alltaf sínu striki. Verk hennar bera vitni einstökum hæfileikum sem henni tókst þrátt fyrir erfiðar aðstæður að koma á framfæri,“ segir Stefán og bætir við að skáldgáfa hafi augljóslega verið í fólkinu hennar, því systurdóttir Margrétar, Guðfinna Þorsteinsdóttir, var skáldkona, sem skrifaði undir nafninu Erla, og sonur hennar var Þorsteinn Valdimarsson ljóðskáld, tónskáld og þýðandi.

Tvö af mörgum ljóðum Margrétar Sigfúsdóttur

Vor

Vorið hjalla vermir stalla,

víst má kalla góða tíð.

Brekkur fjalla brosa allar,

bunur falla um græna hlíð.

Himins blíða hressir lýða

hug þótt stríðin æði grimm.

Stundir líða. Stillið kvíða

stríðs þótt tíð sé köld og dimm.

Til drengs 1921

Bráðum kemur vetur, og blíðvindur þagnar.

Blessuð sólin lækkar, það kuldana magnar.

Aldrei kuldi og vetur, þig angri né græti,

ástúð pabba og mömmu þér jafnan það bæti.

Aldrei vetrarstormar þig hræði, en herði,

heilnæm svala loftbylgja frostsins þér verði.

Geislavöndur mánans þig gleðji og hressi,

gullinbjartar stjörnur þér hvíldina blessi.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir