— AFP/Desiree Martin
Fjölmennt lið björgunarmanna beið í gær komu skemmtiferðaskips á sólarstaðnum Tenerife. Um borð voru m.a. 67 flóttamenn auk jarðneskra leifa sex til viðbótar. Fólkið hafði lent í sjávarháska á flótta sínum frá Afríku og var bjargað um borð í skemmtiferðaskipið

Fjölmennt lið björgunarmanna beið í gær komu skemmtiferðaskips á sólarstaðnum Tenerife. Um borð voru m.a. 67 flóttamenn auk jarðneskra leifa sex til viðbótar. Fólkið hafði lent í sjávarháska á flótta sínum frá Afríku og var bjargað um borð í skemmtiferðaskipið. Í hópnum eru þrjár konur og jafnmörg börn.

Auk sjúkraflutningamanna tóku fulltrúar Rauða krossins og lögreglu á móti fólkinu. Fréttamiðlar á svæðinu greina frá því að flestir flóttamannanna hafi virst örmagna eftir hrakfarirnar. Var talið nauðsynlegt að flytja nokkra þeirra frá borði í hjólastólum og sjúkrabörum. Ekki hafa verið veittar upplýsingar um þá sex sem týndu lífi. Áður en skipið lagðist að bryggju var kallað eftir aðstoð sjúkraþyrlu sem flutti minnst einn alvarlega veikan í land.