Fjölteflalaleiðangur Bobby Fischer í fjöltefli sem fram fór í Montreal, Kanada.
Fjölteflalaleiðangur Bobby Fischer í fjöltefli sem fram fór í Montreal, Kanada.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Detroit, Rochester, Walham, Montreal, Quebec City, Toronto, Westerly, Fitchburg, Hartford, Richmond, Wasington D.C., New York, Pittsburgh, Cleveland, Toledo, Chicago, Baton Rouge, New Orleans, Houston, Little Rock, Hot Springs, Wichita, Ogden,…

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Detroit, Rochester, Walham, Montreal, Quebec City, Toronto, Westerly, Fitchburg, Hartford, Richmond, Wasington D.C., New York, Pittsburgh, Cleveland, Toledo, Chicago, Baton Rouge, New Orleans, Houston, Little Rock, Hot Springs, Wichita, Ogden, Hollywood, San Francisco, Sacramento, Davis, Santa Barbara, Santa Monica, Las Vegas, Denver, Cheltenham, Boston, Milwaukee, Flint, Columbus, Cicero, Indianapolis, New York, Pennsylvania State College. Hvaða staðir eru þetta? Það rifjaðist upp að ég á í fórum mínum bók eftir John Donaldson sem ber titilinn Legend on the road, sem þýða mætti með sama hætti og Ólafur Gunnarsson gerði þegar hann snaraði hinu fræga verki Jacks Kerouacs, On the road.

Fjölteflaleiðangur Bobbys Fischers náði um Bandaríkin þver og endilöng með viðkomu í nokkrum borgum Kanada; hófst í bílaborginni Detroit í janúar 1964 og lauk seint í maí sama ár. Bandaríska meistaramótinu 1963-'64 hafði lokið eins og venjan var fyrstu dagana í janúar og Fischer varð Bandaríkjameistari í sjötta sinn tvítugur að aldri með 100% árangur, hlaut 11 vinninga af 11. Sigurinn vakti gríðarlega athygli víða um lönd. Gamall vinur, Larry Evans, og faðir hans Harry Evans, sem síðar varð aðalskipuleggjandi túrsins, sáu viðskiptatækifæri tengd afrekinu og eftir nokkurt þref um verð og tilhögun dróst BF á að leggja upp í ferðalagið en fór fram á 250 dali fyrir hvert fjöltefli og má tífalda þá upphæð miðað við verðlag í dag. BF hafði komið til fæstra þeirra borga þar sem fjölteflin fóru fram og Bandaríkin, með öllum sínum fjölbreytileika, birtust honum upp á nýtt. Þátttakendur voru oftast í kringum 50 talsins og þar fyrir utan hélt hann fyrirlestur á hverjum stað. Fjöldi manns kom til að fylgjast með og menn sáu nýja hlið á þessum unga manni þegar hann hélt fyrirlestrana sem reyndust hin besta skemmtun. Í New Orleans uppskar hann mikinn fögnuð er hann hélt því fram að á hinum stutta en glæsta ferli sínum hafi Paul Morphy upp úr miðri 19. öld aukið meira við vinsældir skákarinnar með snilldartöktum sínum en fyrsti heimsmeistari Sovétríkjanna, Mikhael Botvinnik, hefði gert með sínum „brimarhólsbarningi“ í yfir 30 ár. Donaldsson taldi að BF hefði teflt a.m.k. 2.022 skákir, unnið 1.850, gert 67 jafntefli og tapað 67, árangur upp á 94%. Fyrst í stað leyfði okkar maður þátttakendum að segja pass þegar kom að næsta leik en fjölteflin áttu það til að dragast á langinn og fyrirkomulaginu var breytt. „Heyrðu félagi, þetta er ekki bréfskák,“ sagði hann við einn mótstöðumanninn sem dvaldi of lengi við eina stöðuna. Í Detroit kom þessi staða upp:

Fjölteflaleiðangur 1964:

Bobby Fischer – J. Witeczek

60. Rf6+ Kh8 61. Kf8 Be6 62. Rd5!

Með hugmyndinni 62. … Bxd5 63. Bg5! og 64. Bf6 mát. Svartur er varnarlaus og gafst upp.

Seinna dæmið rataði í hið merka rit „My 60 memorable games“:

Fjölteflaleiðangur 1964:

Hvítur hafði fórnað manni fyrir þessa stöðu og nú komu nokkrir snjallir leikir.

20. Rf5+! gxf5 21. exf5 Hac8 22. Hxd7+ Dxd7

23. f6+!

Hann hafði hugsað sér að leika 23. He1+ sem ætti einnig að vinna en sá að þessi var enn betri.

23. … Rxf6 24. He1+ Re4 25. Hxe4+ Kf6 26. Dxd7 Hcd8 27. Dg4

og svartur gafst upp.