Jóhann stofnaði brugghúsið árið 2012 ásamt þremur öðrum. Ævintýrið hefur haldið áfram síðan.
Jóhann stofnaði brugghúsið árið 2012 ásamt þremur öðrum. Ævintýrið hefur haldið áfram síðan. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve Mogensson
Það halda margir að þjóðhátíðarhelgin sé stærsta helgin hjá okkur. Hún er í fimmta sæti.

Þetta verður í raun til á fylleríi uppi í sumarbústað. Ég var með vini mínum, Kjartani Vídó. Við áttum annað fyrirtæki saman á þessum tíma, þ.e. 2012. Við áttum að vera að vinna fyrir þetta fyrirtæki. En við litum á flösku af bjór og á henni stóð að þetta væru fjögur hráefni. Og af þeim voru tvö vatn og ger. Og við hugsuðum á þeim tíma að besta vatnið í heimi kæmi frá Eyjafjallajökli, er fílterað gegnum hraunið og svo er það flutt til Eyja og er besta vatn í heimi […] og svo er það ger. Það er bara hægt að kaupa það í Bónus. Þetta er ekkert mál. Við vissum ekkert hvernig ætti að búa til bjór.“

Með þessum orðum lýsir Jóhann Guðmundsson forritari forleiknum að því að bruggsmiðjan Brothers Brewery í Vestmannaeyjum varð til. Verkefnið reyndist þó öllu erfiðara en við fyrstu sýn og eftir blóð, svita og tár, en ekki síst vondauf fórnarlömb sem látin voru smakka á fyrstu afurðum félaganna, small þetta með aukinni þekkingu og þrálæti þeirra félaganna.

„Í grunninn er þetta bara að búa til súpu og að kunna að nýta þau hráefni sem þú ert með og þekkja þau. Þetta er í raun bara eins og matseld. Ef þú þekkir hráefnið og notar það besta sem þú getur fengið þá geturðu búið til ágætan bjór.“

Á þeim tíma voru þeir búnir að draga bræður sína að borðinu og yfir einni ölkollunni fæddist nafnið á verkefninu. Það var ekki verið að tvínóna við hlutina. Merki fyrirtækisins var pantað í gegnum netið og segir Jóhann raunar að það hafi reynst ákveðinn örlagavaldur.

„Öll merkin sem þið sjáið, m.a. á glösunum hérna, eru merkt þannig að fyrirtækið hafi verið stofnað 2012. Við brugguðum engan bjór fyrr en 2013. Ef við hefðum vitað þá að við yrðum á þeim stað sem verið erum á í dag þá héti þetta alveg örugglega einhverju ömurlegu nafni eins og Eyjabrugg, eða Lundabrugg eða Bruggeyja. Þetta hefði aldrei heitið Brothers Brewery.“

Í apríl 2013 voru öll tæki komin til vinnslunnar, m.a. tveir hitakatlar úr Elko sem þeir tóku í sundur til þess að búa til suðubúnaðinn.

„Það var Masters weekend í golfinu. Við vorum heima að horfa á golf, drekka bjór og brugga bjór og það var bjór út um allt, Það var korn út um allt. Þetta var æðislegt. Ég á tvö æðisleg börn og ég á meira að segja eitt barnabarn. En að búa til sinn eigin bjór! Þú ert algjörlega frjáls!“

Ertu að segja að það sé betra en að búa til sín eigin börn?

„Nei, ég er ekki að segja það. Ég er að segja að það sé líka yndislegt.“

Davíð, bróðir Jóhanns, sem dreginn var inn í verkefnið af bróður sínum, taldi sig snemma hafa séð ljósið og sagðist einfaldlega geta keypt betri bjór í Ríkinu. Hvarf hann þá frá störfum.

„Hann er svolítið eins og fimmti Bítillinn,“ segir Jóhann kankvís en bendir þó á að hann hafi dregið frænda sinn að borðinu við þessi kaflaskil í rekstri fyrirtækisins sem þó var varla orðið til á þessum tíma.

Keyptu heilt bakarí

Bjórbræðralagið hefur komið sér fyrir í glæsilegum húsakynnum í miðjum Vestmannaeyjabæ en til þess að komast yfir hina fullkomnu staðsetningu þurfti að taka á honum stóra sínum.

„Staðurinn sjálfur er 150 fermetrar um það bil. Húsnæðið sem framleiðslan og allt er í er 550 fermetrar. Þetta er húsnæði sem við keyptum 2019. Hér var bakarí á þeim tíma. Við keyptum húsið og reksturinn og rifum svo allt út úr húsinu til þess að byggja hér upp brugghús. Það eru í raun aðeins útveggir og steinsteypan eftir. Það fóru u.þ.b. 15 tonn af steinsteypu úr húsinu, bara til að taka niður veggi og stækka til þess að koma bruggtækjunum fyrir. En það er mikil lofthæð sem hentar fyrir bruggtankana sem eru hér fyrir aftan,“ útskýrir Jóhann. Og hann segir að framtíðarplönin hafi litið gríðarlega vel út.

„Við opnum í apríl 2019 og við fórum í gríðarlegar fjárfestingar við að setja þetta upp. Við fórum í þessa fjárfestingu því okkur var lofað að Herjólfur myndi ganga 90% í Landeyjahöfn. Sem hann gerir ekki, hann fer 70% og 2020 átti ekki að koma. Það átti að vera frábært ferðamannasumar.“

Þú ert að vísa í drepsóttina?

„Já, sem breytti þessu aðeins. Og það mátti t.d. kaupa bjórinn á veitingastað við hliðina á okkur. Og ég mátti t.d. í maí 2020 kaupa bjórinn minn á veitingastað við hliðina á mér en af því að við vorum skilgreind sem krá þá mátti ég ekki selja bjórinn. Þannig að ég þurfti að fara hérna við hliðina á mér, kaupa bjór þar og setjast við borðin hér hjá mér í góðu veðri en ég mátti ekki selja hann.“

Já, stjórnvöld bönnuðu rekstur kráa en ekki veitingastaða.

„Þetta voru skrítnir tímar en þetta kemur. Við erum reyndar ekki lengur krá. Við erum veitingastaður. Við létum ekki segjast. Þegar einhver kemur og segir að þetta sé svona þá ókei, við opnum veitingastað. Við seljum reyndar ekki veitingar en ef til þess kæmi þá búum við einfaldlega til eina samloku á 10.000 kr. og hún yrði einfaldlega aldrei seld eða alltaf uppseld við fyrsta dag. Það voru seldar kleinur á kaffibarnum þannig að þeir máttu hafa opið.“

Þannig að þið eruð að búa ykkur undir næsta faraldur?

„Við erum tilbúnir. Við ætlum ekki að klikka á þessu næst.“

Kofinn á kajanum

Þegar blaðamenn bar að garði hjá bræðrunum var saglykt í lofti og hamarshöggin bárust út á götu. Smíðavinna í gangi og verkefnið stórt og lítið í senn. Jóhann og samstarfsmenn hans ætla að opna minnsta bar landsins. Þegar blaðamenn líta húsið augum er ekki nema von að þeir spyrji:

Er hægt að koma heilum bar þarna inn?

„Jájá, við erum auðvitað fyrst og fremst að hugsa þetta þannig að fólk grípi með sér bjór í bjórglösum eða einhverjum glösum og þetta verður fyrst og fremst fyrir útisvæðið þarna fyrir utan. Þetta verður nánast eins og matarvagn fyrir bjór. Það eru svona vagnar í Reykjavík og við ætlum að gera nákvæmlega það sama hér.“

Þarna er um að ræða fimm fermetra kofa sem á örugglega eftir að kæta margan ferðalanginn, þyrstan eftir gönguför á Helgafell, Stórhöfða eða um Herjólfsdal, nú eða þá sem koma í leit að endurlausn eftir volkið úr Landeyjum.

„Sumartíminn er yndislegur og þetta er algjör paradís, ekki það að þetta er líka yndisleg paradís yfir veturinn, þótt þá sé aðeins rólegra. En yfir sumartímann eru kannski komnir 1.000 ferðamenn fyrir hádegi og svo eru hér stundum skemmtiferðaskip og þar geta komið 1.000 manns einnig. Þannig að falleg náttúra, frábært brugghús og góðir veitingastaðir eru málið,“ segir Jóhann.

Ekki stærsta helgin

„Það halda margir að þjóðhátíðarhelgin sé stærsta helgin hjá okkur. Hún er í fimmta sæti. Stærsta helgin er 21.-22. júní sem er bjórhátíðin okkar. Svo er það Goslokahátíðin í júlí. Svo eru það miðaldra foreldrar sem fylgja börnunum sínum á Orkumót og Pæjumót. Þau eru komin hingað eins og til Tenerife, til að fylgja börnunum sínum og hvetja þau allan daginn og fara svo um kvöldið og fá sér einn drykk eða tvo og fara svo á veitingastað enda eru frábærir staðir hér í Eyjum.“

Bræðurnir og frændurnir brugga um 24 þúsund lítra á ári hverju. Það er ekki mikið í heildarsamhengi hlutanna. En það er nóg til að halda fyrirtækinu á floti, gleðja gesti og gangandi í Eyjum og einhverja fleiri á fastalandinu. Það er ekki lítið afrek, sé litið til þess að grundvöllur þess var lagður undir áhrifum og hefur sótt styrk sinn þangað allar götur síðan.

Viðtalið við Jóhann má heyra í langri og stórskemmtilegri útgáfu á mbl.is og einnig helstu hlaðvarpsveitum.

Höf.: Stefán E. Stefánsson& Gísli Freyr Valdórsson