— Morgunblaðið/Eyþór
Hvenær og hvernig byrjaðir þú að syngja? Ég byrjaði að þukla mig áfram í tónlist meðan á covid-faraldrinum stóð, bara að semja og nota tónlistarforrit til að pródúsera. Svo gaf ég út mitt fyrsta lag, Flugvélar, árið 2022 og tók lítið gigg með vini…

Hvenær og hvernig byrjaðir þú að syngja?

Ég byrjaði að þukla mig áfram í tónlist meðan á covid-faraldrinum stóð, bara að semja og nota tónlistarforrit til að pródúsera. Svo gaf ég út mitt fyrsta lag, Flugvélar, árið 2022 og tók lítið gigg með vini mínum Hrannari Mána Ólafssyni, sem notar listamannanafnið „Óviti“. Eftir það fór ég eiginlega beint í Músíktilraunir, en það er árleg hljómsveitakeppni sem haldin er af Hinu húsinu. Þá opnuðust svo margar dyr, ég var allt í einu farin að spila út um allt.

Hvernig myndir þú lýsa tónlistarstíl þínum?

Það er kannski erfitt í einu orði, en ég sem bara tónlist sem ég myndi hlusta á sjálf. Ég hlusta mikið á popp en ég sem mikið út frá því sem kemur upp í stúdíóinu. Sumt er þyngra og meira grúví, stundum er það meira andlegt og þreifandi og ég er mikið að vinna með instrumental og digital grunna, en líka bjartar laglínur.

Hvaðan færðu innblástur?

Ég fæ mikinn innblástur frá tónlistarmanninum Djo sem gerði meðal annars plötuna Decide. Ég lít líka mikið upp til Gugusar og Laufeyjar. Ég fæ innblástur fyrir lögin mín hér og þar. Ég sem mikið um umhverfið í kringum mig og út frá sjónrænum hlutum.

Geturðu sagt okkur aðeins frá tónleikunum?

Þetta eru mínir fyrstu útgáfutónleikar. Rammar er önnur platan sem ég gef út og mér fannst kominn tími á að halda mína eigin tónleika. Ég fæ bæði Gugusar og Heru Lind til að spila með mér. Núna standa yfir stífar æfingar og ég er mjög spennt, sérstaklega að troða upp með fólkinu sem syngur með mér á plötunni, eða Óvita og Birgittu Ólafsdóttur, sem tók meðal annars þátt í Idolinu í ár. Ég fékk einnig litlu systur mína, Hildi Óskarsdóttur, til að syngja með mér eitt lag og ég er mjög spennt fyrir því.

Hvað er annað fram undan hjá þér?

Núna sé ég fyrir mér að fylgja þessari plötu eftir eins og ég get, halda marga tónleika og reyna að spila meira með live bandi. Svo langar mig að semja tónlist fyrir aðra, en ég og Hrannar Máni vinur minn, Óviti, erum búin að semja mikið fyrir tónlistarmanninn Blossa og erum einnig að semja litla plötu með vinkonu okkar Soffíu Petru Poulsen. Ég er því búin að vera mikið að semja tónlist.

Kolbrún Óskarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu KUSK, gaf nýlega út sína aðra plötu, Ramma. Af því tilefni heldur hún útgáfutónleika á Kex hosteli 29. júní.