Borgarstjóraskipti Dagur lét af störfum í upphafi þessa árs.
Borgarstjóraskipti Dagur lét af störfum í upphafi þessa árs. — Morgunblaðið/Eggert
Fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík verður á biðlaunum hjá borginni í sex mánuði eftir að hann lét af störfum í byrjun þessa árs, en þiggur ekki laun sem formaður borgarráðs á sama tíma, að því er fram kemur í skriflegu svari samskiptastjóra Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins

Fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík verður á biðlaunum hjá borginni í sex mánuði eftir að hann lét af störfum í byrjun þessa árs, en þiggur ekki laun sem formaður borgarráðs á sama tíma, að því er fram kemur í skriflegu svari samskiptastjóra Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Frá því var greint í blaðinu í gær að auka hefði þurft við fjárheimildir í fjárhagsáætlun borgarinnar um 25 milljónir króna vegna borgarstjóraskiptanna og var það gert með sérstökum viðauka við áætlunina.

Samkvæmt sundurliðun í svari borgarinnar fær Dagur biðlaun borgarstjóra í sex mánuði, alls 18.240.862 kr., en til frádráttar koma laun borgarfulltrúa og formanns borgarráðs upp á 9.615.639 kr. Þá kostar orlofsuppgjör við Dag borgina 9.773.617 kr., þannig að heildarkostnaður vegna þessa nemur 18.398.840 kr.

Einnig var gert upp við fráfarandi aðstoðarmann Dags, Diljá Ragnarsdóttur, við brotthvarf hennar úr því starfi og fær hún biðlaun í þrjá mánuði, alls 5.985.691 kr. Þar við bætist orlofsuppgjör upp á 1.574.755 kr. og samtals nemur kostnaðurinn vegna brotthvarfs hennar 7.560.466 kr.

Í svari borgarinnar kemur og fram að launakjör borgarstjóra og aðstoðarmanns hans taki mið af kjörum forsætisráðherra og aðstoðarmanna ráðherra.

Samkvæmt framansögðu nemur því launakostnaður vegna borgarstjóraskiptanna tæpum 26 milljónum kr. sem er nánast sama upphæð og fjárheimildir borgarinnar voru auknar um.

Svo sem áður hefur verið greint frá var ekki gerður sérstakur ráðningarsamningur við Dag í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Þess í stað var stuðst við sérstakt ráðningarbréf, enda þótt lög mæli fyrir um annað í slíkum tilvikum.