Bjarni Ármannsson
Bjarni Ármannsson
Sjávarsýn ehf., félag í eigu Bjarna Ármannssonar fjárfestis, hagnaðist um rúma 1,2 milljarða á síðasta ári. Til samanburðar nam tap félagsins árið áður rúmum 1,9 milljörðum. Þetta kemur fram í ársreikningi Sjávarsýnar ehf

Sjávarsýn ehf., félag í eigu Bjarna Ármannssonar fjárfestis, hagnaðist um rúma 1,2 milljarða á síðasta ári. Til samanburðar nam tap félagsins árið áður rúmum 1,9 milljörðum.

Þetta kemur fram í ársreikningi Sjávarsýnar ehf. fyrir árið 2023.

Í árslok námu eignir félagsins 11,7 milljörðum króna og skuldir félagsins 619 milljónum.

Hrein ávöxtun verðbréfaeignar nam 573 milljónum króna en til samanburðar var ávöxtunin neikvæð upp á 2,7 milljarða árið áður. Áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga voru 670 milljónir en árið áður nam það 470 milljónum króna.

Meðal dóttur- og hlutdeildarfélaga Sjávarsýnar ehf. eru Gasfélagið ehf., Sjávarsýn fjárfestingar ehf., Sjávargrund ehf., Fálkinn-Ísmar ehf. og önnur hlutdeildarfélög.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 53 milljónum en nam árið áður 330 milljónum. Eigið fé í árslok stóð í rúmum 11 milljörðum sem svarar til um 94,7% eiginfjárhlutfalls.

Stjórn félagsins gerir ekki tillögu um arðgreiðslur til hluthafa en eini hluthafi félagsins er Bjarni Ármannsson sem jafnframt er framkvæmdastjóri þess.