Heimsmeistaramót Elísa Elíasdóttir skoraði þrjú mörk í Skopje í gær.
Heimsmeistaramót Elísa Elíasdóttir skoraði þrjú mörk í Skopje í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ísland tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts U20 ára kvenna í handknattleik í Skopje í Norður-Makedóníu í gær með því að vinna stórsigur á gestgjöfunum í annarri umferð riðlakeppninnar, 29:17

Ísland tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts U20 ára kvenna í handknattleik í Skopje í Norður-Makedóníu í gær með því að vinna stórsigur á gestgjöfunum í annarri umferð riðlakeppninnar, 29:17.

Ísland er með fjögur stig, Norður-Makedónía tvö, Angóla tvö og Bandaríkin ekkert fyrir lokaumferð riðilsins en tvö lið fara áfram. Íslenska liðið hefur unnið bæði Norður-Makedóníu og Angóla og mun því vinna riðilinn en íslensku stúlkurnar eiga eftir að leika við Bandaríkin sem töpuðu 24:8 fyrir Angóla í gær.

Mótherji skýrist í dag

Þar með liggur fyrir að íslenska liðið spilar á mánudag í 16-liða úrslitum við liðið sem endar í öðru sæti G-riðils, Portúgal eða Svartfjallaland en það skýrist þegar riðlakeppninni lýkur í dag.

Lengi vel var alls ekki útlit fyrir tólf marka sigur því Norður-Makedónía komst í 5:1 og 8:3. Íslenska liðið náði að jafna metin í 11:11 og þannig var staðan í hálfleik.

Í seinni hálfleik tóku íslensku stúlkurnar öll völd á vellinum og þegar fjórar mínútur voru til leiksloka höfðu þær aðeins fengið á sig fjögur mörk í hálfleiknum. Seinni hálfleikinn unnu þær 18:6.

Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 3, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Embla Steindórsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Ethel Gyða Bjarnasen 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.