Steinunn Haraldsdóttir er íslenskufræðingur og vinnur sem sérfræðingur í útgáfudeild skrifstofu Alþingis.
Steinunn Haraldsdóttir er íslenskufræðingur og vinnur sem sérfræðingur í útgáfudeild skrifstofu Alþingis.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það gefst ekki alltaf tími fyrir lestur svo ég les helst á kvöldin fyrir svefninn og er alltaf með margt í gangi. Þessar bækur hafa verið á náttborðinu undanfarið. Breski rithöfundurinn Hilary Mantel lést í fyrra, það er mikill missir

Það gefst ekki alltaf tími fyrir lestur svo ég les helst á kvöldin fyrir svefninn og er alltaf með margt í gangi. Þessar bækur hafa verið á náttborðinu undanfarið.

Breski rithöfundurinn Hilary Mantel lést í fyrra, það er mikill missir. En þá er ekkert annað í stöðunni en að lesa aftur hinn frábæra þríleik hennar um Thomas Cromwell, ráðgjafa og allsherjarreddara Hinriks 8., sem komst úr lágstétt til mikilla metorða við hirðina en fallið var hátt. Wolf Hall er sú fyrsta í röðinni. Sögulegt efni en úrvinnslan listræn og sérlega vel skrifað.

Með hækkandi aldri eykst áhuginn á sagnfræði og væntanlega verð ég farin að lesa um hrakninga á fjöllum og þjóðlegan fróðleik mjög bráðlega. Ég fór á áhugavert námskeið í vetur hjá Sverri Jakobssyni um landnámubækur þar sem ýmsum mýtum var hent út af borðinu og nú er ég að lesa bók hans um sjálfsmynd Íslendinga 1100-1400, Við og veröldin, sem sýnir að við höfum svo sannarlega alltaf verið partur af heiminum og tengt okkur við hann.

Ég skemmti mér við að læra frönsku í Duolingo og fannst alveg rakið að æfa mig með því að lesa Tinna-bækurnar á frummálinu. Ég kann þær svona næstum því utan að á íslensku svo ég sá fyrir mér léttan lestur en Loftur Guðmundsson þýddi þær mjög svo frjálslega svo sumt kom mér afar spánskt (franskt) fyrir sjónir. Var að klára On a marché sur la Lune (Myrkur í mánafjöllum).

Ég las nýlega Deus eftir Sigríði Hagalín sem er fantagóður höfundur en ég tek bækurnar hennar upp af varúð, þetta gæti allt saman ræst, og samkvæmt þessari bók tekur gervigreindin af okkur öll völd. Hvort það verður til góðs eða ills er óvíst en þar gæti ljóðið gert gæfumuninn. Góð pæling en samt finnst mér persónusköpunin það sterkasta í bókinni. Ég varð reyndar að gera nokkur áhlaup að lestrinum því mér fannst svo óþægilegt að lesa lýsingar á einelti sem ein aðalpersónan verður fyrir og hennar líðan. Ekki löng bók en efnismikil og umhugsunarverð.