Samgöngur Margir mæta á flugvöllinn þegar Twin-Otterinn kemur, sem er aldrei sjaldnar en tvisvar í viku.
Samgöngur Margir mæta á flugvöllinn þegar Twin-Otterinn kemur, sem er aldrei sjaldnar en tvisvar í viku. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið hefur verið umleikis að undanförnu í Grímseyjarflugi hjá Norlandair. Yfir sumartímann er félagið með tvær fastar ferðir á viku í eyjuna, frá og til Akureyrar, á þriðjudögum og sunnudögum. Nú í sumar hefur hins vegar oft verið bætt við…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikið hefur verið umleikis að undanförnu í Grímseyjarflugi hjá Norlandair. Yfir sumartímann er félagið með tvær fastar ferðir á viku í eyjuna, frá og til Akureyrar, á þriðjudögum og sunnudögum. Nú í sumar hefur hins vegar oft verið bætt við aukaferðum með farþega af skemmtiferðaskipum sem eru daglangt í höfn á Akureyri. Þetta er þá fólk sem vill bæta við í ferðabók sína að hafa heimsótt eyjuna á heimskautsbaug.

„Stundum eru þetta tvær ferðir á dag út í eyju með farþega af skemmtiferðaskipum. Þetta er svo sem fljótfarið og stoppið ekki langt. Í þessum ferðum er yfirleitt hvert sæti skipað í vélinni, sem tekur 18 farþega,“ segir Bjarni Helgason, flugstjóri hjá Norlandair, í samtali við Morgunblaðið. Hann er gamalreyndur í fluginu og kann vel við sig á Twin Otter, en vélar þeirrar gerðar eru notaðar í Grímseyjarferðirnar.

„Já, svo háttar til í Grímsey að krían heldur sig mikið bókstaflega á flugbrautinni en fælist og færir sig þegar vélar nálgast. Þá hentar best að koma á svæðið á Twin Otter, sem eru fremur hægfleygar vélar. Fuglinn hefur þá ráðrúm til að færa sig, en við verðum að forðast eins og heitan eldinn að fá kríuna í hreyfla vélanna. Á öðrum tímum árs förum við hins vegar í Grímsey oft á King Air-vélunum sem félagið hefur yfir að ráða,“ segir Bjarni.

Frá Akureyri í Grímsey er 25 mínútna flug. Þá er gjarnan farið beint út Eyjafjörðinn og stefnan svo sett á eyjuna þegar komið er að Kaldbak í minni fjarðarins. Í flugi í síðustu viku, þegar blaðamaður var með í för, var hins vegar farið yfir Leirdalsheiði á Gjögraskaga og Hvalvatnsfjörð en frá honum er bein lína í eyjuna góðu.

„Flugið er ein af lífæðum Grímseyjar og byggðin þar mjög mikilvæg. Flugið getur þó oft verið krefjandi, til dæmis ef stíf átt er af austri. Lending með GPS-tækni er hins vegar ekkert mál jafnvel þótt þoka sé yfir,“ segir Bjarni.

Talsvert er um ferðafólk í Grímsey nú, segir Ragnhildur Hjaltadóttir. Hún hefur í áratugi staðið vaktina á flugvellinum auk þess að sinna margvíslegu öðru í Grímsey. Ferjan Sæfari er gerð út frá Dalvík og nú yfir sumarið eru Grímseyjarferðir hennar fimm á viku. Skipið tekur um hundrað farþega, sem sumir eru í eyjunni dagstund uns aftur er siglt til baka. Aðrir hafa lengri viðdvöl.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson