Hraunkæling Ekki hefur verið staðið að hraunkælingu hér á landi frá því gaus í Vestmannaeyjum fyrir 51 ári.
Hraunkæling Ekki hefur verið staðið að hraunkælingu hér á landi frá því gaus í Vestmannaeyjum fyrir 51 ári. — Morgunblaðið/Eyþór
Slökkvilið hafa unnið að hraunkælingu við varnargarðinn við Svartsengi síðan að kvöldi fimmtudags þegar samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð vegna þriggja hraunspýja sem tóku að fikra sig yfir varnargarðinn

Slökkvilið hafa unnið að hraunkælingu við varnargarðinn við Svartsengi síðan að kvöldi fimmtudags þegar samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð vegna þriggja hraunspýja sem tóku að fikra sig yfir varnargarðinn.

Það er slökkvilið Grindavíkur sem hefur haft yfirumsjón með hraunkælingunni, en það hefur notið aðstoðar annarra slökkviliða við kælinguna, auk þess sem notast er við jarðýtur og jarðvinnuvélar til að ýta jarðvegi upp í garðinn.

Eldgosið á lokastigi

Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Rangárvallasýslu, var á vettvangi með fimm manna hóp þegar mbl.is bar að garði í gær. Á þeim tíma hafði tekist að kæla eina spýju og var komið að því að kæla þá næstu.

Á vefmyndavélum mbl.is mátti sjá slökkvilið að störfum nokkuð fram eftir, en ekki er vitað hversu lengi þarf að standa að hraunkælingu. Það eru þó líkur á slökkviliðið geti senn farið að huga að öðrum verkefnum þar sem útlit er fyrir að gosið sé á lokastigi, ef því er þá ekki lokið. Þetta sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is í gær. Til útskýringar sagði hann virkni í gígnum hafa dottið niður aðfaranótt föstudags auk þess sem dregið hefði úr hraunflæði.