Tölvur Mállíkanið ChatGPT verður innleitt í stýrikerfi snjalltækja Apple í komandi uppfærslum snjalltækjanna.
Tölvur Mállíkanið ChatGPT verður innleitt í stýrikerfi snjalltækja Apple í komandi uppfærslum snjalltækjanna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lögmaður á sviði tækniréttar og upplýsingaréttar segir innleiðingu mállíkansins ChatGPT í hugbúnað snjalltækja Apple-fyrirtækisins viðbúna þróun. „Það er búið að tala um að mállíkönin muni þróast þannig að hver og einn verði með sitt eigið…

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Lögmaður á sviði tækniréttar og upplýsingaréttar segir innleiðingu mállíkansins ChatGPT í hugbúnað snjalltækja Apple-fyrirtækisins viðbúna þróun.
„Það er búið að tala um að mállíkönin muni þróast þannig að hver og einn verði með sitt eigið mállíkan sem lærir inn á þig og þína hætti,“ segir Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður, einn eigenda lögmannsstofunnar LEX og aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið.

„Spurningin er hvort þetta sé ekki eitt skrefið sem færir okkur nær því,“ segir Lára.

Apple greindi frá því í síðustu viku að mállíkanið ChatGPT yrði innleitt í stýrikerfi snjalltækja fyrirtækisins. Uppfærslan mun bera heitið Apple Intelligence og verður gervigreindin innbyggð í mörg verkfæri snjalltækja Apple.

„Eins og ég skil þetta þá mun þessi tækni verða innleidd í tækin og þannig nýta þær upplýsingar sem Apple safnar raunar nú þegar, sem sagt tölvupóstinn þinn, dagatal, skilaboðin og þess háttar,“ segir Lára. Hún veltir því fyrir sér hvort hugsunin sé sú að þetta verði eins og aðstoðarmaður eiganda tækisins sem þekki gögnin hans svipað og Copilot sem Microsoft býður notendum sínum upp á.

Gríðarleg vinnslugeta

Lára segist jafnframt velta því upp hvað verði um gögnin manns með þessari uppfærslu.

„Þegar það er verið að keyra mállíkön eins og ChatGPT þá þarf gríðarlega vinnslugetu. Apple hefur gefið það út að á snjalltækinu sjálfu keyri lítið mállíkan sem geti leyst einfaldar verkbeiðnir, en flóknari verkbeiðnir verða sendar til Apple í skýið. Þá er spurning hvort gögnin fari hugsanlega í hendur þriðja aðila sem væri þá eftir atvikum Open AI,“ segir Lára. Þá vakni spurningar um hvort gögnin yrðu notuð til að þjálfa mállíkönin áfram af Open AI sem Lára telur þó ólíklegt.

Lára bendir á að það verði að skoða með hvaða hætti ChatGPT komi inn í snjalltækin, hvernig Apple hagnýti gögnin og hvort þriðji aðili, Open AI, geti hagnýtt gögn eigenda tækjanna.

„Þá geta komið upp ýmis lagaleg álitamál, sem sagt varðandi það hvort fólk sé með vinnupóstinn í símanum, hvort þar séu trúnaðarupplýsingar sem mega alls ekki fara í hendur þriðja aðila,“ segir Lára. Hún bendir á að þróunin auki þörfina á því að fólk skilji tæknina og áhættuna sem fylgir framþróun tækninnar.

Mállíkan er tölfræðilíkan

„Þetta snýst líka um tæknilæsi. Við erum alltaf að tala um fjármálalæsi og heilsulæsi en þetta er eitt af þessu sem þarf að huga að líka,“ segir Lára en að fólk verði að vera upplýst um hvað felist í tækninni og hversu langt hún nái.

Lára bendir á að það sé mikilvægt að fólk viti hvað mállíkan, á borð við ChatGPT, er. Aðspurð segir hún það vera tölfræðilíkan en ekki áreiðanlega heimild. Það sé engin röksemda- færsla sem á sér stað í líkaninu.

„Þetta er ekki þannig að þú getir spurt ChatGPT og búist við að það komi svar sem er satt og rétt. Þetta er svokallað spunalíkan,“ segir Lára. Mállíkanið finni hvað sé tölfræðilega líklegasta svarið og það kunni þannig að búa til svar sem lítur út fyrir að vera rétt, þó svo það sé ekki rétt.

Tim Cook, forstjóri Apple, sagði að uppfærslan yrði aðgengileg innan tíðar. Eftir að forstjórinn greindi frá uppfærslunni lækkaði gengi Apple en tók svo við sér og leiddi til þess að fyrirtækið er metið verðmætasta fyrirtæki í heimi á ný.