Spurt og svarað Lilja Dögg Alfreðsdóttir situr fyrir svörum í Spursmálum.
Spurt og svarað Lilja Dögg Alfreðsdóttir situr fyrir svörum í Spursmálum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tekur ekki undir það að stóraukin ríkisútgjöld á síðustu árum séu meginorsök þeirrar þrálátu verðbólgu sem hagkerfið hefur átt að etja við síðustu misserin

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tekur ekki undir það að stóraukin ríkisútgjöld á síðustu árum séu meginorsök þeirrar þrálátu verðbólgu sem hagkerfið hefur átt að etja við síðustu misserin. Hún bendir þó á að miklar launahækkanir hafi kynt undir verðbólgu. Ljóst sé, þegar litið er til aukinna ríkisútgjalda, að orsakanna megi þar fyrst og fremst leita í auknum launakostnaði.

Aukið markaðsfé

Hefur Lilja trú á því að verðbólgan sé á niðurleið. Á sama tíma horfir íslenskt hagkerfi upp á samdrátt vegna minnkandi eftirspurnar fólks eftir ferðum til Íslands. Hún hefur lagt það til við ráðherranefnd um ríkisfjármál að stórauknu fé verði varið til neytendamarkaðssetningar á erlendum mörkuðum og telur hæfilegt að horfa til 700 milljóna í því samandi og alveg upp í 1,2 milljarða króna á ársgrundvelli.

Þrátt fyrir allnokkurn bölmóð í ferðaþjónustuaðilum bendir Lilja á að umsvif ferðaþjónustunnar hafi þó verið meiri í maímánuði en árið á undan. Áhyggjurnar snúi hins vegar að haustinu og vetrinum og að bregðast þurfi við til þess að Ísland verði ekki undir í samkeppni við nágrannaríkin sem í mörgum tilvikum verji gríðarlegum fjármunum í markaðssetningu af þessu tagi. Nefnir Lilja Norðmenn í því sambandi sem verji um áttfalt meiri fjármunum í þennan málaflokk en við Íslendingar.

Dýrtíð í ferðaþjónustu

Allnokkuð hefur verið rætt um hversu dýrt það er að ferðast til Íslands. Hafa bæði hótelrekendur og veitingahúsaeigendur kvartað sáran undan síhækkandi launakostnaði sem komi sérstaklega illa við fyrirtækin, meðal annars vegna álagsgreiðslna til fólks sem stendur vaktir á þeirra vettvangi.

Lilja vill ekki kveða fast að orði um að launahækkanir hafi verið of ríflegar hjá þessum hópum. Hins vegar sé ljóst að launakostnaður sé hluti af því sem hafi áhrif á samkeppnishæfni landsins, borið saman við önnur ríki sem sigli á sömu mið.

Kvikmyndastyrkir margfaldist

Í þættinum er Lilja einnig spurð út í þær gríðarlegu fjárhæðir sem ríkissjóður ver nú til endurgreiðslu kostnaðar af kvikmyndaverkefnum sem stofnað er til hér á landi. Er í því sambandi bent á u.þ.b. fjögurra milljarða endurgreiðslu á kostnaði við Hollywood-þættina True Detective. Segir Lilja að þessir fjármunir skili sér margfaldlega til baka inn í hagkerfið að nýju. Vísar hún þar meðal annars í skýrslu breska ráðgjafarfyrirtækisins Olsberg SPI sem komst að þeirri niðurstöðu að hver króna sem kæmi í gegnum endugreiðslukerfið 6,8-faldaðist í hagkerfinu.

Fullyrti þáttarstjórnandi að slíkir útreikningar minntu helst á töfrabrögð og væru í reynd aðeins tóm þvæla. Vill ráðherra ekki taka undir það. Var hún þá spurð út í það af hverju ríkissjóður niðurgreiddi ekki einfaldlega 35% af kostnaði allra þeirra fyrirtækja sem vildu stofna til umsvifa hér á landi. Bendir Lilja á að kvikmyndageirinn sé sér á báti og feli meðal annars í sér mikla landkynningu. Þá bendir hún einnig á að í nýsköpunargeiranum fái fyrirtæki umtalsverða fjármuni endurgreidda vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þessar endurgreiðslur séu í raun af sama toga spunnar.

Viðtalið við Lilju má nálgast í heild sinni á mbl.is en einnig á helstu hlaðvarpsveitum á borð við Spotify. Aðrir gestir þáttarins eru Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður og lögmaður, og Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins.

Höf.: Stefán E. Stefánsson