Tragíkómedía Ingi Þór Þórhallsson og Katla Þórudóttir Njálsdóttir leika Hans og Grétu í Háskólabíói 25. og 26. júní.
Tragíkómedía Ingi Þór Þórhallsson og Katla Þórudóttir Njálsdóttir leika Hans og Grétu í Háskólabíói 25. og 26. júní. — Ljósmynd/Brian FitzGibbon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Örverkið Hansel og Gretel eftir Melkorku Gunborgu Briansdóttur og stofudramað Svar við bréfi Petru eftir Gígju Hilmarsdóttur verða sýnd í tvöfaldri sýningu 25. og 26. júní í Háskólabíói kl

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

Örverkið Hansel og Gretel eftir Melkorku Gunborgu Briansdóttur og stofudramað Svar við bréfi Petru eftir Gígju Hilmarsdóttur verða sýnd í tvöfaldri sýningu 25. og 26. júní í Háskólabíói kl. 20. Í fyrra verkinu, Hansel og Gretel, ræða heimsfrægu sögupersónurnar Hans og Gréta málin. „Þau hafa nefnilega verið að hugsa um ferðalag hetjunnar, hús úr nammi og hvort stjúpa hafi verið þunglynd og pabbi punglinur og hrygglaus en þó sérstaklega, og verst af öllu, um gömlu nornina,“ segir í lýsingu. Í leikverkinu Svar við bréfi Petru býður Ólína vinkonu sinni Stellu á neyðarfund til að svara bréfi eiginmanns síns en Stella hefur annað í hyggju enda á hún ýmislegt óuppgert við hjónin, að því er fram kemur í tilkynningu.

Undirliggjandi óhugnaður

Sýningarnar eru hluti af nýstofnaða sumarleikhúsinu Afturámóti sem leggur höfuðáherslu á ný, íslensk verk eftir unga höfunda en Melkorka segir það ótrúlega þarft inn í leikhúsflóruna, hún er sjálf á sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands en Gígja er nýútskrifaður sviðshöfundur úr sama skóla. Sýningarnar eru sýndar sama kvöld en að sögn Melkorku er það undirliggjandi óhugnaðurinn sem sameinar verkin. „Húmorinn er til staðar en það er eitthvað óþægilegt við bæði verkin, eitthvað sem kemur manni úr jafnvægi,“ segir Melkorka.

Blaðamaður ræddi nánar við Melkorku um leikverkið hennar Hansel og Gretel en hún segir það hafa orðið fyrst til í skapandi sumarstörfum í Kópavogi í fyrra. „Ég skrifaði Hansel og Gretel sem örverk og flyt það fyrst í formi leiklestrar. Síðan öðlast það framhaldslíf síðasta nóvember en þá var það sýnt í Tjarnarbíói á Ungleik sem er sviðslistahátíð fyrir ungt fólk. Núna erum við að vinna þetta aðeins lengra og sýna þetta í Háskólabíói. Þetta er því svona ný og endurbætt útgáfa af eldra verki.“ segir Melkorka og bætir því við hugmyndin hafi byrjað sem brandari sem vatt upp á sig, henni hafi þótt gaman að vinna með karaktera sem allir þekktu og að í gegnum flæðið hafi hún fundið kjarnann. Hún segir að verkið hafi því byrjað sem leikur eða absúrdverk en sé nú orðið mun skýrara og jarðbundnara.

Morð í sætabrauðshúsi

Um hvað fjallar Hansel og Gretel?
„Verkið fjallar um Hans og Grétu, sem við könnumst öll við úr Grimmsævintýrunum. Hér eru þau að hittast eftir að ævintýrinu lýkur, til þess að gera upp fortíðina og ræða hvort það sem þau gerðu gömlu konunni í sætabrauðshúsinu hafi verið í lagi. Þau fjalla um uppeldið sitt og hvort stjúpmamma þeirra hafi verið með tengslaröskun og hvort pabbi þeirra hafi verið glataður eða frábær. Þau eru ósammála um það hvernig þetta var allt, hvað er rétt og hvað ekki og hvort þau séu sek eða saklaus.“

Ingi Þór Þórhallsson og Katla Þórudóttir Njálsdóttir leika Hans og Grétu og eru bæði á leikarabraut Listaháskóla Íslands í sama árgangi og Melkorka. „Þau eiga líka þátt í verkinu af því að við skoðuðum verkið í opnu flæði þar sem þau máttu bæta í handritið og spinna þegar við sýndum það fyrst en mér finnst mikilvægt að leikararnir fái líka tækifæri til að vera hluti af sköpunarferlinu,“ segir Melkorka.

Að sögn Melkorku sér Hulda Kristín Hauksdóttir um búninga en báðir leikarar eru í alvöru þýskum „lederhosen“-buxum á sviðinu og Iðunn Einarsdóttir gerir tónlistina fyrir verkið. „Hún valdi að vinna aðallega með harmónikku þannig að það er harmónikkustef í stíl við þessu þýsku miðaldastemningu sem er auðvitað kjarninn í gamla ævintýrinu en fer síðan í aðrar áttir í verkinu,“ segir Melkorka.

Búr eða barnarúm

Að sögn Melkorku dansar verkið á línu harms og gríns en líka megi flokka það í heimi absúrdverka. „Þau hittast í einskismannslandi eða tómarúmi, sem er fyrir utan ævintýrið, þar sem þau endurskoða eigin sögu og tala líka um ólíkar útgáfur af sögunni, til dæmis bíómyndir sem hafa verið gerðar upp úr henni. Ég myndi því segja að þetta væri svona absúrd tragíkómedía,“ segir Melkorka og heldur áfram: „Ég er almennt mjög hrifin af leikmynd sem er hluti fyrir heild, það er að segja einfaldri leikmynd sem segir mikla sögu eða vísar út fyrir sig og er bæði opin og táknræn. Leikmyndin í verkinu er því mjög einföld, það eru bara tvö barnarúm á sviðinu en ég heillast svo af svona rimlarúmum af því þau tákna bæði barnæskuna en líka búr eða fangelsi.“

Hvað viltu skilja eftir hjá áhorfendum? „Kannski einhverja nýja tilfinningu fyrir þessu ævintýri og fyrir ævintýrunum sem við höldum áfram að segja hvert öðru. Þessi lífseigu ævintýri eru svo mögnuð að mörgu leyti og svo táknræn, það er mikill safi í þeim. Þannig að kannski eitthvert nýtt sjónarhorn af því að í verkinu er bæði að finna tráma en líka húmor. Gréta er til dæmis með líkamsmyndarröskun og Hans er nammifíkill en ég held að þetta mikla tráma í öllum þessum ævintýrum sé það sem ég vil að áhorfendur taki það með sér á koddann,“ segir Melkorka.

Miðasala Afturámóti fer fram á Tix. Hægt er að kaupa klippikort á þrjár, fjórar eða fimm sýningar. Athugið að sýningarnar Hansel og Gretel og Svar við bréfi Petru eru ekki ætlaðar börnum.

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir