Ferðaþjónusta Fjöldi ferðafólks er jafnan við Geysi í Haukadal.
Ferðaþjónusta Fjöldi ferðafólks er jafnan við Geysi í Haukadal. — Morgunblaðið/Eggert
„Árið 2024 byrjar vel þegar horft er til fjölda ferðamanna,“ segir í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þrátt fyrir samdrátt í fjölda ferðamanna frá Evrópu til landsins voru tæplega 30 þúsund fleiri ferðamenn hér á landi en í…

„Árið 2024 byrjar vel þegar horft er til fjölda ferðamanna,“ segir í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þrátt fyrir samdrátt í fjölda ferðamanna frá Evrópu til landsins voru tæplega 30 þúsund fleiri ferðamenn hér á landi en í fyrra fyrstu fimm mánuði ársins sem samsvarar 4% fjölgun. Fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum um 5% vegur þar ef til vill upp á móti sem og Asíumarkaður sem virðist vera í áframhaldandi vexti eftir að hafa verið lengi að ná sér á strik eftir heimsfaraldur.

Ráðuneytið segir árið í fyrra hafa verið gott í ferðaþjónustu þar sem 2,2 milljónir manna komu til landsins. Er það mesti fjöldi síðan árið 2018 þegar 2,3 milljónir manna komu. Ráðuneytið telur að árið 2023 hafi verið eitt sterkasta ár greinarinnar til þessa og segir að markmið hagstjórnar um þessar mundir sé að hægja á vexti efnahagsumsvifa, bæði í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum, til þess að ná tökum á verðbólgu og fá svigrúm til að lækka vexti.

Greinileg merki eru um hægari vöxt umsvifa í ferðaþjónustu ef marka má nýlega greiningu á bókunarstöðu í greininni. Lítilleg fækkun er á bókunum í júní en að Ísland sé dottið úr tísku og að óveðurský séu yfir greininni telur ráðuneytið vera orðum aukið því frá og með ágúst og inn á mitt næsta ár sé bókunarstaðan betri miðað við sama tíma í fyrra.