Áslaug Á. Jóhannsdóttir fæddist á Skriðulandi, Hörgársveit, 16. febrúar 1938. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð, Akureyri, 12. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Ástríður Margrét Sæmundsdóttir, f. 1896, d. 1982, og Jóhann Friðrik Sigvaldason, f. 1889, d. 1957. Systkini Ásu: Bára (hálfsystir frá föður), f. 1921, d. 1996, Sæmundur, f. 1924, d. 2008, drengur, f. 1925, d. 1925, Gunnar Þór, f. 1926, d. 1987, Sigrún, f. 1928, d. 2023, Snjólaug, f. 1930, d. 1930, Baldvin Helgi, f. 1931, d. 1944, Þóroddur, f. 1932, d. 1989, Aðalsteinn, f. 1934, d. 2017, Snjólaug Jóhanna, f. 1938 (tvíburasystir Ásu), og Bryndís, f. 1942.

Árið 1964 gekk Áslaug í hjónaband með Hans Meinhard Jensen frá Sørvogi, Vogey, Færeyjum, f. 1932, d. 2017. Þeim varð ekki barna auðið. Fyrir hjónaband átti Ása dótturina Hönnu Heiðbjörtu, f. 1955, d. 2024. Kjörforeldrar hennar voru Bára Jóhannsdóttir (hálfsystir Ásu) og eiginmaður hennar, Jón Guðnason.

Ása ólst upp á Ytri-Reistará frá fjögurra ára aldri og gekk í barnaskóla í Arnarneshreppi. Hún fór snemma að vinna utan heimils á öðrum sveitabæjum í héraðinu og var vinnukona um skeið á Akureyri. Rúmlega tvítug flutti Ása suður yfir heiðar og vann á Landspítalanum sem gangastúlka. Seinna slóst hún í för með samstarfskonum á Landspítalanum og fór til vinnu í Kaupmannahöfn. Þar starfaði hún meðal annars á sjómannaheimili, þar sem hún kynntist Hans Meinhard, sem seinna varð eiginmaður hennar.

Árið 1964 fluttu Ása og Hans frá Danmörku til Íslands. Eftir heimkomuna bjuggu þau á Litlu-Klöpp, Seltjarnarnesi og vann Ása um árabil í frystihúsinu Ísbirninum. Árið 1976 fluttu þau hjónin til Akureyrar. Lengst bjuggu þau í Eiðsvallagötu 11. Í nokkur ár bjuggu þau í Kjarnagötu 14, áður en þau fluttu að hjúkrunarheimilinu Hlíð. Á Akureyri starfaði Ása í frysthúsi ÚA og síðar á FSA.

Áhugamál Ásu tengdust einkum ferðalögum og hannyrðum. Hún átti töluvert ljósmyndasafn, sem hún nostraði við. Ása var frændrækin og góð heim að sækja. Fyrir um það bil tuttugu og fimm árum reistu þau hjónin sumarbústaðinn Heiðarkot í Vaðlaheiði og undu þar vel í fallegu umhverfi og glæsilegu útsýni.

Útför Áslaugar Á. Jóhannsdóttur fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 24. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ása frænka var afar gestrisin kona. Ávallt hlaðið borð af kræsingum þegar fólk kom í heimsókn til þeirra hjóna. Í æsku fannst okkur systkinum heimili þeirra dálítið ævintýralegt. Þau áttu ýmsa hluti sem voru öðruvísi og spennandi. Sennilega voru það færeysku munirnir, sem einkenndi þeirra fallega og snyrtilega heimili. Það vantaði aldrei umræðuefni og þegar heimsókn lauk var okkur fylgt alveg út að dyrum og Ása stóð eftir og veifaði þar til við vorum úr augsýn.

Ása var mikil handavinnukona, ótal fallegar útsaumsmyndir og klukkustrengir liggja eftir hana. Hún hafði mikinn áhuga á ljósmyndum. Skipulag einkenndi Ásu. Myndir, blaðaúrklippur, boðskort og upplýsingar frá ferðalögum þeirra hjóna var einstaklega fallega og vel sett inn í albúm og möppur. Hún hafði oft á orði síðustu ár „það liggur gífurleg vinna á bak við þetta skipulag“.

Ása fékk mænuáverka í rútuslysi haustið 1995 og vann ekkert eftir það. Hún var þakklát öllum sem studdu hana og komu að endurhæfingu hennar. Eftir þetta gat hún hvorki prjónað né saumað út, vegna dofa í fingrum, en hún kvartaði ekki. Henni varð tíðrætt um Danmerkurdvölina, þegar hún kynntist Hans, og rifjaði upp skemmtilegar sögur þaðan. Ása gat dundað sér við að skoða myndir frá þeim tíma, ásamt því að vera með götukort og rifja upp staði í Kaupmannahöfn.

Þau hjón fóru reglulega til Færeyja til að hitta fjölskyldu Hans. Þau samskipti voru góð og bar Ása hlýjar tilfinningar til þess fólks.

Fyrir um það bil tuttugu og fimm árum réðust Ása og Hans í að reisa sumarbústað í Kotabyggð í Vaðlaheiði, sem þau nefndu Heiðarkot. Ása lagði alla sína orku í smíðina og bústaðurinn varð henni sælureitur. Þangað var gaman að koma, enda vel tekið á móti gestum. Hún elskaði bústaðinn, enda ekki skrýtið. Húsið allt smekklegt, staðsetning og útsýni þaðan algjörlega dásamlegt.

Ása vildi ekki láta hafa mikið fyrir sér og var lengi að venjast því að þurfa að þiggja þjónustu eftir að heilsu hennar tók að hraka. Hún elskaði fólkið sitt og mest auðvitað Hans, þótt hún léti hann stundum heyra það aðeins.

Blessuð sé minning Ásu frænku.

Berghildur, Svandís og Ingvar.

Með nokkrum orðum vil ég minnast Ásu föðursystur minnar, því margar ljúfar bernskuminningar tengjast Ásu og Hans heitnum eiginmanni hennar. Þau voru einstaklega barngóð og var gaman að heimsækja þau og fá þau í heimsókn. Ása var sú allra myndarlegasta húsmóðir sem ég hef kynnst og þau hjónin bæði sérlega fær í matargerð og bakstri. Á þessum tíma var óvanalegt að karlmenn kæmu nálægt eldhússtörfum og ég, þá fjögurra ára stelpa, hneykslaðist mikið á þessari hegðun Hans og sagði hátt þegar ég sá hann í eldhúsinu: „Kall að baka!“ Það var mikið hlegið að þessu og var Hans óþreytandi að minna mig á þetta þegar ég var orðin fullorðin. Hans hló mikið þegar hann sagði eiginmanni mínum þessa sögu þegar við heimsóttum þau á fallega heimilið þeirra á Akureyri.

Ása frænka mín og guðmóðir var alla tíð elskuleg við mig og bið ég almáttugan Guð að umvefja Ásu kærleika sínum og friði.

Guðrún Sæmundsdóttir.