Sæmundur Vilhjálmsson sjómaður fæddist á Hrollaugsstöðum á Langanesi 25. maí 1948. Hann lést á lungnadeild Borgarspítala 14. júní 2024.
Foreldrar hans voru Guðrún Þórðardóttir og Vilhjálmur Magnússon. Systkini Sæmundar eru níu: Agnar, látinn, Hrönn, látin, Þórður, Hólmfríður, Magnús, Kristín, Helga, Eva og Ingólfur.
Eiginkona Sæmundar er Þóra H. Björgvinsdóttir. Sonur þeirra er Sindri, sambýliskona hans er Heiðrún Ýr Reynisdóttir, dætur þeirra eru Arndís Ósk og Þórdís Sif.
Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 24. júní 2024, klukkan 13.
Elsku besti pabbi minn, að sitja við hlið þér og halda í hönd þína þegar þú kvaddir okkur er það erfiðasta sem ég hef gert, en ég er samt svo þakklátur að hafa fengið að vera hjá þér þessa stund.
Að hugsa til þess að fá hvorki að sjá þig, snerta né heyra aftur kremur mitt hjarta en það eru forréttindi af hafa alist upp með þig sem mína fyrirmynd í lífinu og er stoltur að geta kallað þig pabba minn og afa dætra minna.
Ég er þakklátur fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman, sem eru ófáar, ferðalögin, veiðiferðirnar og ekki síst að hafa unnið með þér til sjós.
Ég á eftir að sakna þín svoooo mikið, þú varst ástríkur, hlýr og góður maður, það geta margir tekið undir, þú varst ekki bara faðir minn, þú varst líka vinur minn og félagi.
Hvíldu í friði elsku pabbi minn.
Þinn sonur,
Sindri Sæmundsson.
Elsku besti Sæmi minn.
Mikið er það erfitt og sárt að kveðja þig. Er svo þakklát fyrir allar okkar stundir.
Vá, hvað ég lenti í lukkupottinum að eignast svona æðislega frábæra tengdaforeldra.
Þú varst mér svo miklu meira en tengdafaðir, gafst mér þá væntumþykju og hlýju sem faðir gefur barni sínu og vorum við líka góðir vinir.
Oft straukst þú mér hlýlega á kinn án tilefnis sem sagði svo miklu meira en þúsund orð. Mikið þótti mér alltaf vænt um það.
Yndislegi húmorinn þinn, stríðnin og brosið þitt mun aldrei gleymast.
Stelpurnar okkar Sindra svo heppnar að eiga Sæma afa.
Minningakistan mín er full af yndislegum og dýrmætum minningum.
Elska þig elsku Sæmi minn.
Þín tengdadóttir,
Heiðrún Ýr.
Elsku yndislegi afi okkar.
Að kveðja þig er eitt það erfiðasta sem við höfum gert, vitandi það að við fáum aldrei að faðma þig aftur. Heyra þig hlæja að ruglinu í okkur, spjalla við þig um draumabústaðinn okkar með öllum dýrunum sem við myndum hafa og atast svolítið í ömmu.
Minningarnar okkar eru svo margar og dýrmætar. Öll okkar ferðalög, bústaðaferðirnar, útilegurnar, Spánarferðinar og þegar við fórum með þér og pabba á þínar æskuslóðir, og ljóminn í augunum þínum þegar þú varst að segja okkur sögur úr æsku þinni. Þá sérstaklega um fulla póstberann sem datt niður fjallið.
Allar leikvallarferðirnar, ísgöngutúrarnir og að gefa öndunum á tjörninni. Ferðirnar voru margar út í hraun að tína jarðarber.
Við vorum svo heppnar að eiga öll jól og áramót með ykkur ömmu. Páska, afmæli og margar veislur.
Alveg sama hvað við spurðum þig um að gera með okkur eða fyrir okkur var svarið alltaf já.
Við systur rifumst alltaf um þig eins og hundur og köttur, við vildum alltaf báðar sitja í fanginu á afa, tróðum jafnvel 10+ böngsum í fangið á þér til að sitja með.
Söknum að fá snöppin frá þér og vídeóin úr morgungöngunni og að búa til fleiri minningar með þér.
Þú varst fullur af ást, umhyggju og hlýju. Heiminn vantar fleiri menn eins og þig. Þú stóðst alltaf með þínu fólki og gafst okkur alla þína ást og umhyggju elsku afi.
Elskum þig ávallt.
Gullin þín,
Arndís Ósk og
Þórdís Sif.