Bjarni Árnason fæddist í Birkihlíð í Skriðdal 3. desember 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju 13. júní 2024.

Foreldrar hans voru Árni Bjarnason, f. 7. ágúst 1915, d. 2. júlí 2009, og Ragnheiður Einarsdóttir, f. 27. september 1922, d. 26. febrúar 2012. Bræður Bjarna eru: Sigurður, f. 3. desember 1941, maki Sigvarðína Guðmundsdóttir, f. 10. mars 1942; Einar, f. 17. febrúar 1947, maki Sigríður Pálsdóttir, f. 9. febrúar 1956; Sigurbjörn, f. 7. febrúar 1954, maki Ásta Sigríður Sigurðardóttir, 2. október 1957.

Bjarni giftist Jónu G. Guðmundsdóttur 3. desember 1966. Börn þeirra eru: 1) Ómar flugvirki, f. 28. júní 1967, kvæntist Margréti Lindu Alfreðsdóttur, f. 23. ágúst 1966, þau skildu. Börn þeirra eru: Eydís Rut, f. 28. ágúst 1989, og Hafsteinn Freyr, f. 10. nóvember 1992. Sambýliskona Ómars er Þórey Sigfúsdóttir, f. 20. febrúar 1966. Dætur Þóreyjar eru Elínborg, f. 23. ágúst 1990, Hrönn, f. 27. febrúar 1994, og Sigrún, f. 26. október 1995. 2) Ævar bílamálari, f. 11. júlí 1968, kvæntur Jóhönnu Birnu Ástráðsdóttur, f. 1. júlí 1967. Börn þeirra eru: Eysteinn Bjarni, f. 4. maí 1995, Elvar Veigur, f. 28. júní 2000, og Ástrún Júnía, f. 1. apríl 2008, dóttir Jóhönnu er Sigrún Júnía, f. 19. október 1987. 3) Kristborg Erla hárgreiðslusveinn, f. 18. janúar 1973, gift Gísla E. Einarssyni, f. 9. október 1969, börn þeirra eru Brynja Sif, f. 15. september 1996, og Hafþór Logi, f. 23. apríl 2000. 4) Árni Þór, f. 21. febrúar 1979, d. 15. mars 2004, sambýliskona hans var Jenný Magnúsdóttir, f. 19. janúar 1979. 5) Ragnheiður Vala hárgreiðslumeistari, f. 9. júlí 1980, gift Arnóri Steinari Einarssyni, f. 13. september 1973. Börn þeirra eru: Ólafur Þór, f. 20. ágúst 2007, og Bjarni Þór, f. 14. júní 2010. Bjarni á fimm barnabarnabörn.

Bjarni fæddist í Birkihlíð í Skriðdal, bjó hann þar til ársins 1947, þá flutti fjölskyldan í Hátún í Skriðdal og bjó þar til 1961. Bjarni fór árið 1958 í bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur árið 1960. Árið 1961 keyptu bræðurnir Bjarni og Sigurður Litla-Sandfell. Foreldrar þeirra ráku þar bú til ársins 1968 en þá tóku Bjarni og eiginkona hans Jóna við búskap á Litla-Sandfelli og stunduðu hann til ársins 2001.

Bjarni starfaði sem landpóstur frá 2001 til 2014.

Útför Bjarna fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 24. júní 2024, klukkan 14.

Elsku pabbi.

Eins erfitt og það er og aðdragandinn hafi verið langur varstu svo sannarlega tilbúinn til að berjast við þennan illvíga sjúkdóm. Baráttuvilji þinn var svo mikill, en á endanum varðstu að láta í minni pokann. Með þér eigum við systkinin svo ótrúlega margar og góðar minningar frá okkar æsku í sveitinni, þar sem ýmislegt var brallað. Tókst þér alltaf að taka öllum okkar uppátækjum með mikilli yfirvegun. Þú elskaðir sveitina og dýrin sem áttu hug þinn allan og þú náðir að laða þau öll að þér. Þegar þið mamma hættuð svo búskap og fluttuð til Egilsstaða tóku við ný áhugamál; ferðalög, þó smá „búskapur“ hafi enn verið til staðar sem þið sinntuð flesta daga. Í okkar hjarta lifa margar og góðar minningar með þér og mömmu, sem við munum passa vel upp á elsku pabbi.

Við munum alltaf sakna þín.

Kveðjum þig með vísunni (eftir Hrein Guðvarðarson sveitunga) sem þú fórst svo oft með:

Mér finnst ég vera þreyttur, þungur,

þykir ellin lítið smart.

En þegar ég verð aftur ungur

ætla ég að gera margt.

Þín

Ómar, Ævar, Erla og Vala.

Elsku afi.

Í dag kveðjum við einstakan mann, hann Bjarna afa okkar sem hefur kennt og frætt okkur bræður svo mikið um ótal hluti. Það sem við vorum búnir að brasa margt í sveitinni með þér ásamt því að fara með ykkur ömmu í útilegur um landið og ekki má gleyma öllum stundunum með ykkur heima á Egilsstöðum og Akureyri. Mikið vorum við heppnir að fá þennan dýrmæta tíma með þér, minningarnar um þig munu alltaf ylja okkur í hjartanu og lærdómurinn fylgja okkur í gegnum lífsleiðina.

Við bræður pössum vel upp á ömmu og Nóa fyrir þig og kveðjum þig með þessu ljóði:

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

(Katrín Ruth)

Þínir afastrákar,

Ólafur Þór og
Bjarni Þór.