Þorsteinn Baldursson fæddist í Reykjavík 14. október 1934. Hann lést 4. júní 2024 á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Hann var elsta barn hjónanna Baldurs Þorsteinssonar kaupmanns, f. 1908 í Vík í Mýrdal, d. 1980, og Fjólu Jónsdóttur, f. 1915 í Stykkishólmi, d. 1996.

Systkini: Jón, f. 1938, látinn, í sambúð með Hermínu Benjamínsdóttur, látin. Þau áttu eina dóttur. Vigdís, f. 1940, gift Axel Bender, d. 2014, þau eiga þrjú börn. Sævar, f. 1947, og á hann sex syni. Helgi, f. 1948, kvæntur Guðbjörgu Marteinsdóttur og eiga þau þrjú börn. Fjóla (skírð Ágústa), f. 1949, d. 2017, gift Kristni Gíslasyni, d. 2007.

Þorsteinn kvæntist hinn 30.5. 1954 Katrínu G. Magnúsdóttur, f. 5.9. 1934, d. 6.1. 2022. Börn þeirra eru: 1) Baldur K., f. 10.11. 1954, kvæntist Ingunni Nielsen, f. 1961, þau eiga þrjár dætur en eru skilin: a) Lilja Hrönn, f. 18.10. 1983, í sambúð með Jens Andra Fylkissyni, f. 1975. b) Eva Katrín, f. 12.3. 1987, í sambúð með Ragnari Jóni Hrólfssyni, f. 1988, þau eiga eina dóttur, Valrúnu Freyju, f. 2017, og annað barn á leiðinni. c) Hildur Guðrún, f. 27.1. 1991, í sambúð með Ragnari Sigurðsson, f. 1990. Baldur var í sambúð með Ölmu Brown Jónsdóttur, f. 1971, og á eina dóttur með henni: d) Emilía Íris f. 1.1. 2000, í sambúð með Vilborgu Unni Jónsdóttur, f. 1993. 2) Magnús Gylfi Thorstenn, f. 23.6. 1957, kvæntur Susan Thorstenn, f. 1957, þau eiga þrjú börn: a) Juliana Margaret, f. 9.10. 1987, gift Tomas Moore Trudeau, þau eiga tvo syni, Remy, f. 2015, og Leo Magnus, f. 2017. b) Philip Keilir, f. 25.2. 1993, kvæntur Zabrinu Motwani Condor, f. 1995. c) Erik, f. 1.8. 1998. 3) Sif, f. 9.10. 1961, giftist Ólafi Garðarssyni, f. 1959, þau eiga tvö börn en eru skilin: a) Garðar Steinn, f. 1983, b) Rebekka, f. 1985, gift Reyni Inga Árnasyni, f. 1985, þau eiga tvö börn, Ólaf Árna, f. 2008, og Söru Katrínu, f. 2011. Sif giftist Gunnari Óla Péturssyni, f. 1968, en þau skildu, þau eiga tvö börn: a) Pétur, f. 1992, kvæntur Hildi Hjörvar, f. 1991. b) Katrín Rós, f. 1994, í sambúð með Svavari Hjaltested, f. 1992, þau eiga tvö börn: Hildi Sölku, f. 2019, og Sverri Stein, f. 2023.

Ástvinur Sifjar er Halldór Halldórsson, f. 1963.

Þorsteinn ólst upp á Klapparstíg þar sem foreldrar hans voru með verslunina Fram og var mikið á Laugavegi 66 þar sem afi hans var með verslunina Vík.

Fór ungur í sveit í Álftagróf í Mýrdal og var þar öll sumur þar til hann fór í Verslunarskóla Íslands. Stofnaði heildsöluna Gísla Jónsson og Co. hf. og varð mikill frumkvöðull við innflutning á vörum sem voru ekki til á Íslandi. Stofnaði Víkurvagna ehf. í Vík í Mýrdal, Vélaborg hf. og fleiri fyrirtæki.

Hafði frumkvæði að því að gera upp Brydebúð, elsta timburhús á Suðurlandi, í Vík í Mýrdal og setja upp minnismerki bæði fyrir breska og þýska sjómenn sem fórust með skipum í Víkurfjöru. Stofnaði ásamt fjórum félögum Fornbílaklúbb Íslands 1977.

Útför hans verður frá Háteigskirkju í dag, 24. júní 2024, klukkan 13.

Núna er hann pabbi fallinn frá og er kominn heim í fang mömmu.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Pabbi var alltaf frumkvöðull. Hann var fenginn af tveim vinum sínum til að endurbyggja gjaldþrota fyrirtæki, Gísla Jónsson & Co, sem gekk vel hjá honum, hann síðan keypti þetta fyrirtæki af þeim og jók við framboð á vörum hjá Gísla Jónssyni & Co, árið 1968 hóf hann innflutning á hjólhýsum sem voru þá óþekkt á Íslandi og tókst á örfáum árum að búa til töluverða hjólhýsamenningu á Íslandi.

Þegar ég var að vinna í Karnabæ hafði pabbi samband við mig og vildi fá mig til að vinna hjá Vélaborg, fyrirtæki sem hann hafði nýverið stofnað og seldi dráttarvélar, ég var hikandi við að hætta hjá Karnabæ til að selja dráttarvélar, en mér fannst ég skulda honum það, ég fór að vinna hjá Vélaborg og í sameiningu gerðum við það að einu stærsta fyrirtæki í landbúnaðarvélasölu á Íslandi.

Síðan stofnaði hann Víkurvagna austur í Vík í Mýrdal til að framleiða sturtuvagna fyrir bændur og verktaka, vagnar sem Vélaborg seldi.

Seinna stofnaði hann Glóa sem setti dekkingarfilmur í hliðar og afturrúður bíla, ég starfaði lengi við að setja þessar filmur á rúður bíla.

Einnig stofnaði hann Tjaldaleiguna Skemmtilegt sem leigði samkomutjöld, borð og stóla fyrir ýmsar hátíðir og ég ferðaðist landshorna á milli til að setja upp þessi tjöld og taka þau síðan aftur niður.

Mér er það minnisstætt þegar hann sagði eitt sinn við mig: „Þú verður að lyfta þér upp úr þeim aðstæðum sem þú ert í og koma þér upp á hæð og líta yfir lífið þitt til að sjá hvað er hægt að gera til að lagfæra það.“ Þetta var nákvæmlega það sem hann sjálfur gerði þegar hann átti við vandamál að stríða og sú breyting hjá honum varð til þess að fjölskyldunni og honum leið miklu betur og allar dyr opnuðust fyrir fjölskylduna, þessar ráðleggingar hans eiga erindi við flestar manneskjur á Íslandi.

Ef það er einhver texti sem lýsir sambandi pabba og mömmu, konunnar sem hann svo sannarlega þurfti á að halda í lífi sínu, hún var hans stoð og stytta, og hann átti henni mikið að þakka, þá er það þessi texti eftir Jón Sigurðsson.

Er völlur grær og vetur flýr

og vermir sólin grund,

kem ég heim og hitti þig,

verð hjá þér alla stund.

Við byggjum saman bæ í sveit

sem brosir móti sól,

þar ungu lífi landið mitt,

mun ljá og veita skjól.

Sól slær silfri á voga,

sjáðu jökulinn loga.

Allt er bjart fyrir okkur tveim

því ég er kominn heim.

Að ferðalokum finn ég þig

sem mér fagnar höndum tveim.

Ég er kominn heim,

já ég er kominn heim.

Hvíl í friði pabbi minn.

Baldur Katrínarson Þorsteinsson.

Elsku pabbi.

Minningarnar hafa streymt fram síðustu daga. Minningar sem sem ylja inn að dýpstu hjartarótum. Öll ferðalögin sem við fjölskyldan upplifðum saman. Hjólhýsaferðirnar um fjöll og firnindi. Evrópa lá fyrir fótum okkar, við gátum farið hvert á land sem var, það var ekkert sem stoppaði þig, nema kannski ef bíllinn bilaði en þá var fundin lausn á því eftir smástund. Bílaverkstæðið var lokað þegar við komumst loksins yfir Alpana og niður á jafnsléttu með stórt hjólhýsi í eftirdragi og bíllinn orðinn svolítið lúinn. Við fréttum í þorpinu hvar eigandi bílaverkstæðisins bjó og auðvitað bankaði pabbi upp á. Hann var hættur að vinna þennan dag sagði hann en pabbi heillaði hann upp úr skónum með spjalli og þegar bíllinn var tilbúinn voru þeir orðnir bestu mátar. Honum tókst að heilla fólk með gríni og glensi og var fljótur að eignast vini hvar sem hann fór. Þessa hæfileika í mannlegum samskiptum notaði hann sér í viðskiptalífinu og náði miklum árangri þar. Skíðaferðirnar voru stórskemmtilegar og fræg er sagan af pabba þegar honum leiddist biðin í bílalestinni á Holtavörðuheiðinni í stórhríð. Við vorum búin að vera veðurteppt í nokkra klukkutíma ásamt tugum annarra bíla þegar pabbi ákveður að skjótast aðeins á vélsleðanum fremst í röðina og kanna hvort hann geti ekki hjálpað til að moka svo við komumst leiðar okkar. Á leiðinni til baka var orðið svo blint að hann sá ekki metra fram fyrir sig og veit ekki fyrr en hann kemur að veginum. Þetta voru snjógöng sem náðu marga metra upp fyrir bílana en hann sér að það er annað hvort að hrökkva eða stökkva svo hann stökk yfir snjógöngin á vélsleðanum og bílarnir undir. Mamma var orðin svo hrædd um pabba að hún lét björgunarsveitina fara að leita að honum, en þá kom hann allt í einu blaðskellandi eftir stökkið og alsæll með ævintýrið. Pabbi tók oft áhættu í lífinu, það var engin lognmolla í kringum hann, krafturinn, dugnaðurinn, lífsgleðin og grínið var svo smitandi að hann hreif fólk með sér. Auðvitað var ekki alltaf sól í heiði hjá mömmu og pabba, sérstaklega voru fyrstu árin í þeirra búskap krefjandi því þá var Bakkus besti vinur pabba. Eftir að pabbi sagði skilið við hann þá lá leiðin upp á við hjá þeim og lífið varð eitt stórt ævintýri. Þau nutu saman lífsins, ferðuðust um heiminn í húsbíl,mamma á kortinu og pabbi óþreytandi að keyra, fóru í stærstu óperuhúsin og tónleikahallirnar að njóta tónlistar, sigldu um heimsins höf á Golu,bátnum sínum, renndu sér niður skíðabrekkurnar og hjóluðu meðfram Rín og Dóná. Bestu stundirnar voru þó með börnum og barnabörnunum í sumarbústaðnum Dala-Dal í Reynishverfi, sælureitur sem við nutum öll með þeim. Hann pabbi var sannarlega einstakur persónuleiki sem notaði alla sína orku og viðskiptavit til að gleðja fólkið í kringum sig og gefa til baka til samfélagsins. Ég er svo þakklát að hafa fengið að vera stelpan þín og fá að njóta allra ævintýranna með ykkur mömmu. Ég kveð þig með gleði í hjarta því ég veit að þið mamma eruð núna á leið á vit ævintýranna saman á ný.

Þín dóttir,

Sif Þorsteinsdóttir.

Elsku afi Doddi.

Á sama tíma og ég sit hér í söknuði þá er ég glöð að þú fékkst loksins að fara til ömmu Kötu, öll níu líf þín nú á enda.

Það eru fáir jafn þrautseigir og þú varst, jafn duglegir, jafn hugmyndaríkir og jafn framkvæmdaglaðir. Þegar ég var lítil þá fannst mér afi Doddi geta allt. Fyrstur landsmanna til að flytja inn tjaldvagna, hjólhýsi, veislutjöld, hoppukastala, skyggingar í rúður, sjálfvirkar bílaþvottastöðvar og svo mætti lengi telja. Eitt sinn spurði ég þig hvort þú værir frumkvöðull. Þú neitaðir, brostir og sagðist bara alltaf hafa reynt að finna nýja og nýja leið til að fara á hausinn, það gekk bara aldrei.

Mér er mjög minnistætt fyrsta skiptið sem ég fékk að prófa að aka bíl. Ég var 12 ára og þú fórst með mig niður að Þórisholti í Mýrdalnum á Willys 1946 módeli, skiptir við mig um sæti og sagðir mér að prófa taka í hann. Fyrir þá sem hafa prófað að keyra þennan bíl vita að þetta var ekki hinn auðveldasti bíll að keyra, sérstaklega þegar ég náði ekki upp fyrir stýri. Trúin sem þú hafðir á mér var mér án efa veganesti inn í þetta líf. Það var ekki fyrr en ég fór í fyrsta ökutímann 16 ára að ég áttaði mig á því að nútímabílar væru allir komnir með vökvastýri og það ætti ekki að vera svona erfitt að snúa stýrinu.

Ást þín á bílum og þörfin fyrir að koma þér í ævintýralegar ógöngur á hinum ýmsu ökutækjum var á allra vitorði. Þér nægði aldrei að keyra bílana á hefðbundnum vegum, heldur leið þér best þegar við vorum að keyra yfir ár, yfir fjöll sem átti ekki að vera hægt að keyra yfir, yfir hálendið eða í flæðarmálinu í Reynisfjöru. Það eru heldur ekki margir sem hafa keyrt bílinn sinn upp á lítinn pramma og siglt honum yfir Arnarfjörð þegar enginn vegur lá milli Bíldudals og Þingeyrar og þig vantaði að komast keyrandi á milli.

Ást þín á náunganum og trú á það góða í fólki var eftirtektarverð. Það hefðu fáir aðrir en þú lánað bláókunnugum manni nokkur hundruð evrur á áttunda áratuginum á ferðalagi um Evrópu og trúað því að hann myndi síðar senda þér peninginn í bréfpósti heim. Viti menn, nokkrum mánuðum síðar birtust peningarnir með vöxtum í umslagi heim að dyrum. Hjá þér snerist lífið um að hafa gaman og einbeita sér að því sem maður hefur, í stað þess sem mann skortir. Þetta gerðuð þið amma svo yndislega vel og hef ég tekið mér til fyrirmyndar. Þú reddaðir öllu og uppgjöf var ekki í þinni orðabók, þú komst allt á þrjósku, bjartsýni, dugnaði og útsjónarsemi. Takk fyrir allar yndislegu minningarnar og allt brasið í gegnum tíðina. Takk fyrir hestaferðirnar, fyrir fjórhjólaferðirnar, fyrir ferðirnar aftur í heykerrunni, fyrir vélsleðaferðirnar, fyrir ísbíltúrana í öllum glæsikerrunum þínum, fyrir gönguferðirnar yfir Reynisfjall, fyrir ævintýraferðirnar á gamla Willys yfir ár og fjöll, fyrir fjöruferðirnar, fyrir lautarferðirnar, fyrir skíðaferðirnar, fyrir utanlandsferðirnar og síðast en ekki síst takk fyrir allt sem þú kenndir mér.

Hvíldu í friði elsku afi, ég mun sakna þín sárt.

Rebekka.