Róbert Örn Hjálmtýsson fæddist 5. júlí 1977 í Gautaborg í Svíþjóð. Hann lést á heimili sínu 10. júní 2024 eftir löng veikindi.

Foreldrar Róberts eru Hjálmtýr Rúnar Baldursson, f. 28.1. 1953, og Hanna Steingrímsdóttir, f. 10.9. 1952. Þau voru í hjónabandi 1977-1995 og stjúpfaðir Magni Ólafsson, f. 22.1. 1960. Systur Róberts eru: Monika, f. 5.5. 1980, eiginmaður Júlíus Jóhannsson, f. 13.9. 1974, synir þeirra: Jóhann Sölvi, f. 22.1. 1996, móðir hans er Sigrún Garðarsdóttir, Jakob Hagalín, f. 25.7. 2007, og Andri Jökull, f. 20.8. 2014; Vala Margrét, f. 25.9. 2001, móðir hennar er Dúa Þorfinnsdóttir.

Dóttir Róberts er Bergrún Björk, f. 6.11. 2007, móðir hennar er Anna Margrét Ólafsdóttir.

Róbert ólst upp í Bökkunum í Neðra-Breiðholti og gekk í Breiðholtsskóla. Þaðan lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti eftir stutt stopp í Menntaskólanum við Sund, þar sem Róbert lifði og hrærðist í nokkur ár innan um stóran vinahóp og skapandi félagslíf. Síðar stundaði hann um tíma nám hjá Keili Háskólabrú. Róbert var sterkur námsmaður en hafði hvorki eirð né áhuga á hefðbundnu námi. Hann kaus heldur að mennta sig sjálfur og las alla tíð mjög mikið, þá einna helst ævisögur og óskáldað efni og kynnti sér á dýptina þau hugðarefni sem til hans höfðuðu. Sköpunargleðin á tónlistarsviðinu vaknaði á unglingsárum en þegar Róbert var í FB var hann duglegur að nýta sér húsakost skólans og lagði hann þar grunninn að tónlistarferli sínum í svokölluðum „Undirheimum“ í kjallara Breiðholtslaugar.

Róbert var með öllu sjálflærður í tónlist og það fannst honum mikilvægt að vera. Spilaði fyrst á bassa en síðan á öll hljóðfæri sem til þurfti við að semja og flytja lög, spilaði á gítar, trommur, hljómborð og söng.

Róbert gaf út fjórar hljómplötur með hljómsveitinni Ég, voru þær allar tilnefndar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, ýmist sem plata ársins, myndband ársins eða textahöfundur ársins. Róbert gaf út eina plötu með Spilagöldrum og eina plötu með Popparoft. Róbert sá einnig um hljóðblöndun, útsetningu og tónlistarflutning á tveimur hljómplötum fyrir skáldið og tónlistarmanninn Dölla.

Róbert eignaðist dótturina Bergrúnu Björk árið 2007 og átti hún alla tíð hug hans allan og hjarta.

Útförin verður gerð frá Fella- og Hólakirkju í dag, 24. júní 2024, klukkan 13.

Athöfninni verður streymt á https://sonik.is/robert

Með djúpum söknuði kveð ég frænda minn Róbert Örn Hjálmtýsson.

Minningarnar streyma fram allt frá því hann birtist inn í líf mitt. Efst í huga er mér þegar ég heimsótti fjölskylduna til Gautaborgar og Róbert, aðeins um ársgamall og ég ellefu árum eldri, mynduðum strax góð tengsl. Eftir að þau fluttu aftur heim og í kjallarann í Akurgerðinu var ég tíður gestur á heimili þeirra, stöku sinnum að passa þennan ljúfa og skemmtilega dreng eða bara með þeim feðgum í frumstæðum tölvuleikjum í tölvuúrinu hans.

Eftir að þau fluttu í Bakkana var ég enn tíður gestur á heimili þeirra fyrst um sinn en samverustundum okkar fækkaði eðlilega eftir því sem við eltumst og hann eignaðist sína bestu vini þar og eyddi að sjálfsögðu sínum bestu stundum með þeim.

Við héldum samt alltaf einhverjum tengslum og þegar ég eignaðist mína fjölskyldu kom Róbert stundum og passaði litla frænda sinn og honum þótti það augljóslega gaman enda mjög barngóður og alltaf jafn ljúfur.

Seinustu árin fylgdist ég aðallega með Róberti í gegnum Facebook. Ég hafði gaman af skrifum hans þar, hann hafði sterkar skoðanir og gat oft sett þær fram á mjög skemmtilegan hátt. Þó maður væri ekki sammála skoðunum hans voru skrifin oft á tíðum svo hnyttin og kaldhæðin að maður gat ekki annað en hrifist með og skellt upp úr á köflum.

Ég get ekki kvatt Róbert án þess að nefna Fantasy-deildina Feðgakeppni Íslands, keppni þar sem við feðgar, ég og Egill Gautur, kepptum við þá feðga Hjalla og Róbert. Án þess að reyna að útskýra hvað Fantasy er þá sameinuðumst við þar í áhuga okkar allra á enska boltanum. Undanfarin ár höfðu þeir Liverpool-feðgar oftar en ekki betur og fengu sigurlaunin sem voru þau að við feðgarnir urðum að skrifa á facebook-vegginn okkar „Liverpool eru bestir“, sem er býsna erfiður biti fyrir okkur að kyngja, gallharða United-menn. Það þarf ekki að taka fram að Róbert var auðvitað hugmyndasmiðurinn á bak við þessa keppni.

Elsku Hanna, Hjalli, Monika, Bergrún og Vala, ykkar missir er mikill. Megið þið finna styrk einhvers staðar frá til að styrkja ykkur í sorginni.

Bless Robbi frændi – þetta er fyrir þig og ég mun aldrei segja aftur:

Liverpool eru bestir.

Steingrímur Gautur Pétursson.

Með nokkrum fátæklegum orðum langar mig að minnast æskuvinar míns Róberts eða Robba eins og við vinirnir kölluðum hann alltaf í gamla daga.

Róbert var miklum hæfileikum gæddur ákaflega greindur, íþróttamaður góður, skemmtilegur og auðvitað frábær tónlistarmaður. Róbert átti það til að beina sínum hæfileikum á staði sem þóttu ekki hefðbundnir og var það stundum svekkjandi, fyrir okkur sem þótti vænt um hann, en líka gaman að fylgjast með hve ótrúlega góður hann var í að tileinka sér nýja hluti. En fyrst og fremst var gaman að fá að fylgjast með honum á sviði tónlistarinnar þar sem sköpunargáfa hans fékk að njóta sín.

Róbert var ákaflega uppátækjasamur, sem okkur vinum hans þótti rosalega spennandi og skemmtilegt, en alltaf með skemmtilegheit og glens að leiðarljósi. Hellist yfir mig alveg ótrúlegt magn af skemmtilegum og hlægilegum minningum tengt því.

Eitt sem kemur upp í hugann var að Róbert var vinur vina sinna. Þegar eitthvað bjátaði á var Róbert snöggur til að verja þá sem honum þótti vænt um. Var alltaf gott að vita af honum með sér. Einnig var hann fljótur að byrja að hvetja sitt fólk þegar honum þótti það við hæfi.

Við Róbert áttum mörg sameiginleg áhugamál. Mikill tími fór hjá okkur í fótboltaleiki og tölvuleiki. En þegar ég lít aftur í tímann þá átta ég mig á því að einn af mörgum mannkostum hans var hversu góða nærveru hann hafði. Alltaf var gaman að fá hann í heimsókn eða koma til hans. Mikill og skemmtilegur var tíminn sem við eyddum saman í tölvuleiki, að hlusta á tónlist og síðast en ekki síst að elda og borða góðan mat. Einnig verð ég að minnast á Benidormferð okkar þar sem uppátækjasemi okkar manns fékk að njóta sín.

Við Róbert tengdumst sterkum vinaböndum sem slitnuðu ekki þrátt fyrir að við hittumst ekki oft síðustu ár. Ógleymanlegt er þegar við hittumst í Bónus á síðasta ári, höfðum þá ekki hist í heilt ár. En það stoppaði okkur ekki í að spjalla og hlæja saman í langan tíma í miðri búðinni, það var ekki fyrr en við áttuðum okkur á því að við vorum búnir tala saman í meira en klukkutíma að við kvöddumst hlæjandi, að sjálfsögðu.

Ég sendi öllum ættingjum og vinum Róberts mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Óskar Þór Hilmarsson.

‘Við hittumst í frímínútum

ég hafði ekki séð þig í ár

tókum tali um hitt og þetta

og í stiganum baðstu mig

og svo fjórum árum seinna

gaf Ég út plötu sem enginn keypti

Skemmtileg lög!’

Við Róbert urðum miklir vinir þegar við lentum saman í sláttuhópi á vegum Reykjavíkurborgar sumarið 1995. Við vorum líka báðir úr Breiðholtsskóla og tilheyrðum sama vinahóp. Við höfðum báðir brennandi áhuga á tónlist og tónlistarmönnum, og sérstaklega tónlist frá sjöunda og áttunda áratugnum. Róbert var þá byrjaður að spila á bassa og gott ef hann var ekki búinn að stofna hljómsveit með Böldrunum tveimur vinum sínum, Jack og Sívertsen. Sjálfur hafði ég spilað á gítar í mörg ár.

‘Mig dreymir

Loftbelg

Cappuccino’

Nokkrum árum síðar var ég eitthvað að þvælast uppi í FB og rakst á Róbert. Ég hafði nýlega tekið þátt í að stofna band með nokkrum góðum vinum og það vantaði bassaleikara. Ég vissi að Róbert hefði verið að plokka bassa og þar sem við stóðum þarna í stiganum spurði ég hann hvort hann væri kannski til í að koma í bandið? Jú hann var til í að skoða það.

Það var þennan vetur sem við Róbert byrjuðum að taka upp tónlist og semja lög saman. Pabbi minn hafði nokkru áður keypt fjögurra rása Fostex upptökutæki í einhverju bríaríi (Takk elsku pabbi/Snorri fyrir að hafa keypt þetta tæki, það reyndist ómetanlegt í alla staði! Kv S & R) og við Róbert tekið algjöru ástfóstri við þetta tæki. Við áttum okkar bestu og innilegustu stundir þar sem við grenjuðum úr hlátri yfir einhverjum músiktilraunum sem okkur þóttu yfirgengilega fyndnar.

Árið 2002 var svo stofnuð ný hljómsveit sem fékk nafnið Ég. Lögin okkar voru líka orðin stórkostleg þótti okkur. Lagið ‘Geitungarnir mínir’ var komið í blússandi spilun á Rás 2 og útgefandi búinn að samþykkja að gefa út plötu með okkur. Við vorum duglegir að æfa og spiluðum fullt af tónleikum. Vorum eiginlega bara geggjað góðir og platan okkar sem fékk nafnið ‘Skemmtileg lög’ fannst okkur algjörlega stórkostleg!

‘Mig dreymir

Riddarinn flytur norður

Drottningin giftist peði’

Vorið 2003 hafði ég fengið nóg af hljómsveitarlífi og ákvað að segja skilið við Ég. Við Róbert vorum samt alltaf nánir og héldum góðu sambandi allt þar til hann kvaddi. Ég leitaði ávallt mikið til hans og sérstaklega þegar ég var að vinna tónlist.

Róbert Örn Hjálmtýsson var einstakur. Hann var bráðgáfaður og miklum hæfileikum gæddur á mörgum sviðum. Róbert hafði hins vegar afar krefjandi lífsstíl og fór oft full sparlega með hæfileika sína fannst manni. Hann var alltaf mikill vinur vina sinna með sitt stóra hjarta og var óspar á lofræður yfir þeim sem honum þótti vænt um. Og manni þótti alltaf vænt um Róbert. Sama þótt hann sigldi oft á móti straumnum svo ekki sé meira sagt.

Það einkenndi Róbert líka alla tíð þessi gríðarlega næmni fyrir fyndni (‘sense of humour’). Ég veit ekki alveg hvernig best er að útskýra, en það má yfirleitt finna einhvern húmors vinkil í því sem hann skyldi eftir sig.

Elsku Róbert,

Maradona.

Kær kveðja yfir víddir

þinn vinur,

Steindór Ingi Snorrason (Sten).

Einhvern tímann síðla á tíunda áratug síðustu aldar var ég staddur á tónleikum í FB í Breiðholti.

Þar lék hljómsveitin Kókóhundur. Mér þóttu þetta nokkuð furðulegir fýrar og skemmtilegir og átti ég smá spjall við söngvarann. Hann kynnti sig sem Róbert. Nokkrum misserum síðar ruglaði ég reytum saman við nokkra drengi úr Breiðholti í hljómsveitinni Óp. Því ævintýri lauk þegar Sigurður trommuleikari sagði mér frá vini þeirra sem væri að gera plötu og vildi fá okkur með sér í það verkefni. Ég hlustaði á demó og hreifst af þessu. Ég fékk svo að hitta þennan vin. Hann hét Róbert.

Með okkur þarna í byrjun voru Sigurður Breiðfjörð trommuleikari og gítarleikararnir Baldur Sívertsen og Steindór Ingi Snorrason. Sigurður gekk fljótt úr skaftinu og við tóku nokkrir trommuleikarar, þeirra á meðal Ari Eldjárn, áður en Andri Geir Árnason tók við. Steindór steig til hliðar en kom þó oftar en einu sinni til baka og Örn Eldjárn kom á gítarinn. Þannig var hljómsveitin Ég Róberti til halds og trausts og úr varð ógleymanlegt samstarf og vinátta.

Róbert var einn hæfileikaríkasti listamaður sem ég hef kynnst og bjó sér til einstakan hljóðheim. Það voru forréttindi að fá að taka þátt í þessum upptökum sem voru oft ekki mjög „fagmannlegar“; sígarettur og eldspýtur settar fyrir ofan nótur á hljómborði svo Róbert gæti munað hvar hann ætti að spila, skrýtnar aðferðir við að stilla upp hljóðnemum og mikil notkun á gafferteipi, því ekki var Róbert laghentur. Margar af þessum upptökum eru þó þegar orðnar sígildar og verða um ókomna tíð.

Eftir sitja ótal frábærar minningar eins og tónleikaferðir á Ísafjörð og norður yfir heiðar, sjónvarpsupptökur ásamt upptökusessjónum. Við eyddum kannski klukkutíma í að taka upp bassa í einu lagi og svo fjórum í að ræða fótbolta og mannkynssögu sem var sameiginlegt áhugamál okkar Róberts. Það er einmitt skrýtið að fylgjast með Evrópumótinu í fótbolta og geta ekki tekið spjall við Róbert eftir eftirminnilegan leik.

Ég vil þakka Róberti fyrir að leyfa mér og hinum strákunum í hljómsveitinni Ég að taka þátt í að skapa og koma til skila þessari frábæru tónlist sem bjó innra með honum en umfram allt frábæra og eftirminnilega vináttu.

Fyrir hönd hljómsveitarinnar Ég vil ég votta Bergrúnu, foreldrum, systrum og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Arnar Ingi Hreiðarsson.