Sæþór Már Hinriksson saethor@mbl.is
Fyrir tæpum 50 árum öttu tveir ungir menn kappi, Íslendingur og Jamaíkumaður. Ísleikvangurinn í Málmey í Svíþjóð (Malmö Isstadion) var staðurinn og heimsmeistaramótið í badminton tilefnið. Árið var 1977 og aldrei áður hafði verið keppt um heimsmeistaratitil í íþróttinni. Okkar menn gerðu þó ekki sterkt tilkall til titilsins, en engu að síður var um stóra stund að ræða.
Gengu hvor sína leið
Trevor Stewart byrjaði sterkt og vann fyrstu lotuna 18:16. Sigurður Haraldsson gjörsigraði í lotu númer tvö, 15:9, og því var farið í oddalotu. Þar byrjaði Trevor vel, komst í 13:4 og útlitið því svart fyrir Sigurð. Hann reif sig þó í gang, jafnaði metin 13:13 og vann síðan lotuna 18:15 og þar með viðureignina. Okkar menn tókust í hendur og gengu hvor sína leið, hvor öðrum ókunnugir.
Þannig liðu árin og í besta falli hittust þeir í minningu hvor annars, er þeir rifjuðu upp, hvor í sínu lagi, þennan leik í Malmö fyrir 47 árum. Svona gerist á hverjum einasta degi og hefur gerst í mörg ár. Svona er í raun alls ekkert í frásögur færandi, nema þó í einstaka tilfellum og sú er raunin hér.
Hafði áður komið til Íslands
Þegar Trevor hugsaði um Ísland hugsaði hann ekki um badmintonleik við Sigurð Haraldsson. Hann hafði komið áður til landsins þegar hann var að flytja frá Jamaíku til Englands. „Við millilentum fyrst í Nova Scotia í Kanada, þar var snjór, og ég sagði „þetta er hræðilegt“, við höfum engan snjó á Jamaíku. Ég snerti snjóinn og hann var mjög kaldur. Svo lentum við á Íslandi og þar var líka snjór. Þá sagði ég við fólkið í vélinni að ég vildi ekki fara, ég vildi ekki fara til Englands.“
Leið hans lá síðan aftur til Íslands í ár og var hann staddur á landinu í liðinni viku með Helgu Stewart konu sinni. Þá rifjaðist upp fyrir honum að hann hefði spilað við Íslending þarna í Svíþjóð árið 1977. Gaman væri nú að hitta sinn gamla andstæðing og loksins kynnast honum. Hann hafði því samband við Badmintonsamband Íslands (BSÍ) til að hafa uppi á manninum.
Kristján Daníelsson formaður BSÍ hringir þá í Sigurð og spyr hvort hann kannist við að hafa spilað við mann frá Jamaíku á heimsmeistaramótinu 1977, sem hann játti. „Þá gaf hann mér netfangið hans og ég er búinn að vera í sambandi við hann síðan og við ákváðum að hittast í dag og það er bara gaman,“ segir Sigurður.
Þeir félagar voru staddir í húsnæði TBR þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins tóku púlsinn á þeim. Fyrr um daginn hafði Sigurður sýnt þeim hjónum helstu staðina í Reykjavík og að sjálfsögðu Hlíðarenda en hann var markvörður í Val á sínum tíma og vann marga titla með liðinu.
Trevor vissi ekki að hans biðu fréttamenn þegar í TBR-húsið var komið og spurði undrandi en glettinn: „Er ég frægur á Íslandi?“