Eyvindur Hreggviðsson fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1936. Hann lést á Vífilsstöðum 10. júní 2024.

Foreldrar Eyvindar voru þau hjónin Þórunn Jensdóttir frá Árnagerði í Fljótshlíð, f. 1.2. 1897, d. 24.2. 2975, og Guðjón Hreggviður Jónsson frá Hlíð í Vestmannaeyjum, f. 11.8. 1909, d. 22.12. 1987. Bróðir Eyvindar var Tómas Hreggviðsson, f. 24.2. 1935, d. 5.6. 2006.

Eyvindur flutti ungur til Vestmannaeyja þar sem hann ólst upp. Sex ára gamall fór hann að fara í sveit á sumrin í Árnagerði í Fljótshlíð. Hann lærði bifvélavirkjun hjá föður sínum ásamt bróður sínum Tómasi, og ráku þeir feðgar bílaverkstæði í Vestmannaeyjum. Árið 1966 flutti Eyvindur ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og bjó þar til dauðadags. Hann starfaði lengst af hjá Sveini Egilssyni bílaverkstæði, og lauk starfsævi sem húsvörður í Breiðholtsskóla í Reykjavík. Eyvindur og fjölskylda stunduðu hestamennsku og hrossarækt og ferðaðist hann mikið um landið á hestum.

Eftirlifandi eiginkona Eyvindar er Þóra Þórðardóttir frá Skálanesi Vestmannaeyjum, f. 16.4. 1939. Þau giftu sig 4.10. 1959. Börn þeirra eru: 1) Kristbjörg, f. 10.1. 1957, maki Gunnar Arnarson, f. 17.1. 1957, börn þeirra eru Þórdís Erla, f. 1983, barnsfaðir Hlynur Snær Guðjónsson, f. 1985, barn þeirra er Svala Björk, f. 2013. Eyvindur Hrannar, f. 1988, maki Anne Clara Malherbes Vestergaard, f. 1991, börn þeirra eru Selma, f. 2018, og Sólon Thor, f. 2023. 2) Hreggviður, f. 6.7. 1959, maki Jenny Maria Mandal, f. 25.3. 1963, börn þeirra eru Eyvindur Mandal, f. 1988, maki Sofie Fältsjö, f. 1990, börn þeirra eru Freyja Elisa, f. 2015, og Edda Elvira, f. 2016. Elsa Mandal, f. 1991, barnsfaðir Robin Haraldsen, f. 1988, barn þeirra er Alvar Ási Mandal Haraldsen, f. 2018. 3) Þórunn, f. 29.5. 1966, barnsfaðir Matthías Sveinsson, f. 11.5. 1963, barn þeirra er Þóra, f. 1986, barnsfaðir hennar er Ragnar Arnbjörn Guðmundsson, f. 1984, börn þeirra eru Óskar Helgi, f. 2013, Þórunn, f. 2015, og Jóhann Pétur, f. 2018.

Útför Eyvindar fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag, 24. júní 2024, klukkan 15.

Kær mágur minn, Eyvindur Hreggviðsson frá Hlíð í Vestmannaeyjum, er látinn eftir erfið veikindi, hann var á 88. ári. Hann giftist systur minni henni Þóru en við systur höfum alltaf verið nánar þótt sjö ár skilji. Við höfum haldið vel saman í gegnum lífið og Eyvindur og Svanur maðurinn minn voru góðir vinir. Við byggðum hús á Sóleyjargötu 7 en feðgarnir þrír frá Hlíð byggðu á númer 3. Það var mikil samvinna og hjálpsemi milli fjölskyldnanna. Þetta voru góð ár og við Þóra unnum saman á símstöðinni, vorum nágrannar og börnin okkar á líkum aldri. Fjölskylda þeirra flutti svo til Reykjavíkur 1966 og við sáum mikið eftir þeim en ferðuðumst oft á milli og vorum hvert hjá öðru.

Mamma og Lára systir brugðu búi frá Skálanesi og mamma var hjá okkar á sumrin en hjá Þóru og Eyfa á veturna í Reykjavík. Svo kom gosið 1973 og þá varð allt öðruvísi en venjulega, við fórum upp á land og við vorum hjá Eyfa og Þóru og fjölskyldu, sem voru sex ásamt mömmu, en það var ekkert mál að bæta fjórum öðrum við.

Árið 1996 fluttum við svo í Kópavoginn og vorum þar í 14 ár og höfðum við mikið samneyti við Þóru og Eyfa og reyndust þau okkur mjög vel. Þau eiga þrjú börn, Kristbjörgu, Hreggvið og Þórunni, sem við höfum átti mikið og gott samband við.

Árið 2017 fórum við með Þóru og Eyfa í ógleymanlega ferð til Svíþjóðar til Hreggviðs og Jennýjar og vorum þar í góðu yfirlæti hjá þeim í viku og fórum vítt og breitt um Suður-Svíþjóð.

Við vorum alltaf velkomin á heimili þeirra og í sveitina og hélt ég t.d. upp á 80 ára afmælið mitt í sveitinni sem hefði ekki orðið nema með hjálp þeirra og barna okkar.

Eyfi er búinn að vera veikur í nokkur ár og hefur Þóra staðið við hlið hans eins og hetja. Þótt samverustundunum hefði fækkað síðustu ár þá voru þær alltaf jafn góðar og yndislegar. Í lok langrar ævi og samfylgdar vil ég þakka fyrir mig og fjölskyldu mína fyrir allar gleðistundir í gegnum lífið.

Ingibjörg J.
Þórðardóttir.