— Skýringarmynd/Morgunblaðið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksines, var sá þingmaður sem talaði mest allra á nýafstöðni þingi. Hann er því nýr ræðukóngur Alþingis. Eyjólfur flutti 562 ræður og athugasemdir(andsvör) og talaði í samtals 1.936 mínútur

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksines, var sá þingmaður sem talaði mest allra á nýafstöðni þingi. Hann er því nýr ræðukóngur Alþingis. Eyjólfur flutti 562 ræður og athugasemdir(andsvör) og talaði í samtals 1.936 mínútur. Hann stóð því í rúmar 32 klukkustundir samtals í ræðustól Alþingis á 154. löggjafarþinginu.

Næstur Eyjólfi kom margfaldur ræðukóngur síðustu ára, Píratinn Björn Leví Gunnarsson. Hann flutti 518 ræður/andsvör og talaði í samtals 1.509 mínútur. Það gera rúmar 25 klukkustundir samtals. Sú þingkoma sem lengst talaði var Inga Sæland formaður Flokks fólksins. Hún flutti 262 ræður og andsvör og talaði í samtals 1.096 mínútur. Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi töflu.

Á lista yfir þá 10 þingmenn sem lengst hafa talað má sjá að þar má finna fjóra þingmenn Pírata, þrjá þingmenn Flokks fólksins, tvo þingmenn Viðreisnar og einn þingmann Miðflokksins. Það bar til tíðinda á nýloknu löggjafarþingi að Bjarni Benediktsson flutti ræður í þremur ráðherraembættum. Hann var fjármálaráðherra við upphaf þingsins síðastliðið haust, tók síðan við embætti utanríkisráðherra og loks embætti forsætisráðherra.

Bjarni flutti 206 ræður og athugasemdir og talaði í 522 mínútur samtals. Sá ráðherra sem lengst talaði var hins vegar Siguður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann flutti fyrst ræður og gerði andsvör sem innviðaráðherra en síðan sem fjármálaráðherra. Sigurður Ingi talaði 239 sinnum og samtals í 669 mínútur.

Katrín Jakobsdóttir, sem lét af embætti forstætisráðherra í vor og fór í forsetaframboð, flutti 176 ræður/andsvör og talaði í 460 mínútur samtals á sínum síðasta þingvetri.

Fram kemur í yfirliti á vef Alþingis að á nýafstöðnu þingi voru fluttar 10.635 ræður og athugasemdir.

Fluttar voru 5.479 þingræður í 24.043 mínútur ( 400,72 klst.) 5.156 athugasemdir voru gerðar og stóðu þær í samtals .8174 mínútur. ( 136,23 klst.) Meðallengd þingræðu var 4,4 mínútur og athugasemda 1,6 mínútur.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson