60 ára Jón Pétur er fæddur og uppalinn í Ólafsvík. Hann lærði dans hjá Sigurði Hákonarsyni og einnig nam hann dans í Ipswich á Englandi. Hann hefur verið danskennari frá 1983. Rak hann dansskóla Jóns Péturs og Köru ásamt Köru Arngrímsdóttur í hartnær 30 ár

60 ára Jón Pétur er fæddur og uppalinn í Ólafsvík. Hann lærði dans hjá Sigurði Hákonarsyni og einnig nam hann dans í Ipswich á Englandi. Hann hefur verið danskennari frá 1983. Rak hann dansskóla Jóns Péturs og Köru ásamt Köru Arngrímsdóttur í hartnær 30 ár. Rekur hann nú sinn eigin dansskóla. „Ég er núna í ýmiss konar verkefnum, hópeflisvinnu og félagsfærni innan skóla og leikskóla landsins þar sem dansinn ræður ríkjum að sjálfsögðu. Einnig fer ég í fyrirtæki með sams konar athæfi og bara þar sem mínir kraftar nýtast.“

Jón Pétur er líka á strandveiðum á sumrin og gerir út frá Arnarstapa og víðar. „Það fer eftir veiði og veðri hvar mig ber niður. Ég ólst upp við að fara með föður mínum á skak. Sjómennskan togar því alltaf í mig. Ég get ekki útskýrt eins vel hvernig dansinn kom til. Ég fór gagngert til Reykjavíkur til að fara í kokkinn, en það snerist allsvakalega í höndunum á mér og í dansinn fór ég, og er og verð svo lengi sem ég hef gaman af og mínir kraftar nýtast.“

Jón Pétur hefur gaman af að ferðast og sérstaklega inn á hálendi bæði að sumar- og vetrarlagi. „Til að mynda fer ég töluvert á Hveravelli að vetri, eins og mínir félagar segja; á mitt annað heimili. Hestar toga líka í mig. Ég á ekki hesta en fer mikið á bak með vinum og vandamönnum. Og svo bara að vera innan um skemmtilegt fólk.“


Fjölskylda Börn Jóns Péturs eru Davíð Snær, f. 1995, Pálmi, f. 1999, og Elísa, f. 2007. Foreldrar Jóns Péturs voru hjónin Úlfljótur Jónsson, f. 1930, d. 2016, grunnskólakennari og stundaði smábátasjómennsku á sumrin, og Ingibjörg Pétursdóttir, f. 1933, d. 2016, húsmóðir og kjarnakona.