Klara Ósk Kristinsdóttir
klaraosk@mbl.is
Alls voru 29 lög samþykkt á Alþingi á síðustu þremur dögum þingsins. Eru það um25% allra þeirra laga sem samþykkt voru á 154. löggjafarþingi Alþingis, eða því löggjafarþingi sem lauk eftir miðnætti á sunnudag.
Voru þetta meðal annars lög um listamannalaun, Mannréttindastofnun Íslands, lög um fullnustu refsinga og Seðlabanka Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Á löggjafarþinginu voru alls lögð fram 267 frumvörp, 112 þeirra urðu að lögum en 155 þeirra voru óútrædd þegar þingi var slitið. Það voru þannig um 58% lagafrumvarpa sem ekki náðu fram að ganga á starfsárinu.
Meðal þessara frumvarpa voru lagareldið, sóttvarnarlög samgönguáætlun, frumvarp um vindorku og frumvarp um raforkuöryggi og forgangsorku. Þingmál til meðferðar í þinginu voru 1.213. Þar af voru lagðar fram 178 tillögur og urðu einungis 22 þeirra að ályktunum. Þannig voru 156 tillögur óútræddar og fimm kallaðar aftur.
Fundað í 649 klukkustundir
Þegar litið er yfir farinn veg má sjá að allur gangur var á því hvort mál voru afgreidd með miklum eða litlum breytingum. Fjármálaáætlun, Grindavíkurmálin, kjarasamningsmálin, útlendingalögin, fordæming á átökum fyrir botni Miðjarðarhafs og ferðamálastefnan eru dæmi um mál sem voru afgreidd að mestu óbreytt. Þá eru örorkufrumvarpið, lögreglulögin, húsnæðisstefnan og sameiningar stofnana umhverfisráðuneytisins dæmi um mál sem afgreidd voru með töluverðum breytingum.
Allt þetta og meira er meðal þess sem rætt var á þeim 131 þingfundi sem haldinn var á starfsárinu og stóð í rúmar 649 klukkustundir. Meðallengd þessara funda var fjórar klukkustundir og 55 mínútur, en lengsti fundurinn stóð yfir í 15 klukkustundir og 43 mínútur að því er fram kemur á vef Alþingis.
Lengstur tími fór í að ræða fjárlög fyrir árið 2024 en umræða um málið tók um 36 klukkustundir. Þá er áhugavert að skoða fjölda fyrirspurna sem lagðar voru fram á starfsárinu, en þær voru alls 715. Alls var 419 fyrirspurnum svarað og tvær kallaðar aftur en 262 skriflegar fyrirspurnir og 32 munnlegar biðu svars þegar þingi var frestað.