Strákagöng Siglufjarðarvegur um Almenninga er illa farinn.
Strákagöng Siglufjarðarvegur um Almenninga er illa farinn. — Ljósmynd/Halldór Gunnar Hálfdánarson
Ný jarðgöng sem tengja myndu Siglufjörð við Skagafjörð úr vestri eru eina varanlega lausnin til þess að tryggja öryggi í samgöngumálum bæjarins. Þetta segir Kristján L. Möller á Siglufirði, fyrrverandi samgönguráð­herra.

Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is

Ný jarðgöng sem tengja myndu Siglufjörð við Skagafjörð úr vestri eru eina varanlega lausnin til þess að tryggja öryggi í samgöngumálum bæjarins. Þetta segir Kristján L. Möller á Siglufirði, fyrrverandi samgönguráð­herra.

Sterk viðbrögð hafa myndast vegna fregna Morgunblaðsins síðustu daga um ástand vegarins í Almenningum við Siglufjörð. Rétt vestan munna Strákaganga er stór geil sem gengur inn í veginn, sem segja má að hangi saman á lyginni. Berghlaup á svæðinu hefur sorfið svo mjög úr hlíðum fjallsins að þverhnípi er nú við vegbrúnina á köflum.

Kristján L. Möller þekkir vel til aðstæðna á Siglufirði, bæði sem heimamaður auk þess sem hann beitti sér sem samgönguráðherra fyrir gerð Héðinsfjarðarganga í ráðherratíð sinni. Segja má að þau göng séu í dag eina örugga leiðin á landi til og frá Siglufirði – en þarna er tenging bæjarins við Eyjafjarðarsvæðið.

Lítið verið aðhafst undanfarin ár

Kristján er mjög gagnrýninn á stöðu mála og segir stöðuna á Siglufjarðarvegi mega rekja til athafnaleysis stjórnmálamanna.

„Það er átakanlegt hve lítið hefur verið aðhafst í samgöngumálum undanfarin ár, og hve illa vegum hefur verið viðhaldið. Hið alvarlegasta er að útlit er fyrir að þetta ástand muni ríkja áfram, þar sem vandamálið liggur hjá stjórnmálamönnum. Því held ég að þetta muni aðeins versna frekar en batna.“

Kristján telur ný jarðgöng til Siglufjarðar einu varanlegu lausnina við þessum vanda. Gerð nýrra ganga um svæðið er í öðru sæti á forgangsröðunarlista í ósamþykktri samgönguáætlun, en með því segir Kristján stjórnvöld leika sér að umferðaröryggi vegfarenda. „Göngin eru eðlilega barn síns tíma, einbreið og þröng, og uppfylla ekki öryggiskröfur nútímans og anna ekki umferðinni, sem hefur aukist. Menn eru því orðnir mjög óþreyjufullir að eitthvað verði gert,“ segir Kristján.

Staðan á veginum við Strákagöng er mikið til umræðu meðal Siglfirðinga eftir myndbirtingar í Morgunblaðinu. Óhugnanleg staðreynd, segir einn bæjarbúi á umræðuvef bæjarbúa á Facebook. Þar lýsir fólk áhyggjum sínum, sumir segjast hættir að aka þennan veg og velja frekar lengri leið.