Ímyndarkrísa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr forsætisráðherrastól mun án efa reynast þyngsta þrautin í áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur segir líðandi þingvetur hafa einkennst af óvenjumiklum sviptingum, en brestir innan ríkisstjórnarinnar hafi bersýnilega sett mjög svip sinn á samstarfið, sem nálgist nú þolmörk.
„Vinstri-grænir eru hreinlega í algjörri krísu eftir veturinn og hafa tapað allri vigt í samstarfinu. Það er alveg ljóst að það var Katrín sem hélt valdajafnvæginu milli flokkanna og gerði þessari ríkisstjórn kleift að starfa saman. Þegar hún hverfur af vettvangi breytist öll ásýndin með þeim afleiðingum að Sjálfstæðisflokkurinn, í skjóli Framsóknarflokksins, getur gert þetta að allt annarri ríkisstjórn með allt aðrar áherslur,“ segir Eiríkur.
„Leiðtogaleysi Vinstri-grænna færir því Sjálfstæðisflokknum gullið tækifæri til að ná mikilvægum áherslumálum í gegn, en þreyta vegna biðstöðu og málamiðlana af þeirra hálfu var farin að segja til sín.“
„Skýrasta dæmið um óánægju sjálfstæðismanna vegna samstarfsins við VG segir Eiríkur vera hvernig Jón Gunnarsson hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu um vantraust gegn Bjarkeyju Olsen matvælaráðherra.
Eiríkur telur þó þann mikla ófrið á stjórnarheimilinu sem einkennt hafi veturinn aðeins gefa forsmekk að því sem koma skal á næsta þingi.
„Það voru mörg stór mál sem komust ekki í gegnum þinigð en næsti vetur verður alveg undirlagður af kosningabaráttu enda mikið í húfi þar sem allir ríkisstjórnarflokkarnir horfa allir fram á töluvert fylgistap hvers flokks um sig.“
sveinnv@mbl.is