Gígur Eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina sem hófst 29. maí er nú lokið. Engin virkni var sjáanleg í gígnum þegar dróna var flogið yfir á laugardag.
Gígur Eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina sem hófst 29. maí er nú lokið. Engin virkni var sjáanleg í gígnum þegar dróna var flogið yfir á laugardag. — Ljósmynd/Almannavarnir
Yfir 45 milljónir rúmmetra af kviku hafa komið upp í síðasta eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina, sem lauk um helgina, og þekur hraunbreiðan nú um níu ferkílómetra.

Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is

Yfir 45 milljónir rúmmetra af kviku hafa komið upp í síðasta eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina, sem lauk um helgina, og þekur hraunbreiðan nú um níu ferkílómetra. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið en Veðurstofan tilkynnti á laugardag að gosinu við Sundhnúkagígaröðina, sem hófst af krafti hinn 29. maí, væri lokið.

Þó gæti jarðeldur brotist þar út sjötta sinni enda rís land enn og búast jarðvísindamenn við því að landrisið færist í aukana fyrst gosinu er lokið og kvikan á ekki lengur farveg upp á yfirborð.

Breytti umt stefnu í mars Eldgosið er hluti af stærra ferli sem hófst í lok október 2023 þegar

kvika tók að safnast undir Svartsengi. Magnús skiptir ferlinu upp í tvennt: Fyrst eru það kvikuinnskotið þann 11. nóvember og eldgosin 18. desember, 14. janúar og 7. febrúar. Þetta breytir um takt í mars,“ segir Magnús. Í seinni kafla ferlisins eru síðan kvikuinnskotið 2. mars, eldgosið hinn 16. mars og að lokum eldgosið sem hófst 29. maí. Bæði þau gos voru langlíf miðað við hin.

Prófessorinn bendir á að nýyfirstaðið gos sé það stærsta sem orðið hefur í þessari hrinu. Hraunstreymið í upphafi gossins var á við 1.500-2.000 rúmmetra á sekúndu. „Það eru eins og fjórar Þjórsár. Eða fimm Þjórsár öllu heldur.“

Innstreymi haldist stöðugt

Þá hafi heildarmagn kviku numið allt að 45 milljónum rúmmetra og hraunbreiðan sú breiðasta hingað til: Um níu ferkílómetrar. Á síðasta gostímabili á svæðinu hafi komið upp um hálfur rúmkílómetri af kviku. „Það er vísbending um að við getum búist við meiru.“

Innstreymi kviku í kvikuganginn undir Svartsengi virðist hafa haldist afar stöðugt síðustu mánuði.

„Það er mjög athyglisvert að þetta hefur haldið svona lengi áfram, í átta mánuði. Ef við tökum bara heildarmagnið sem er komið upp í þessu með ganginum stóra sem myndaðist 10. nóvember þá er þetta í heildina dálítið stærra en Fagradalsfjallsatburðirnir,“ segir Magnús.

Hann bendir þó á að vísbendingar séu komnar upp um breytta þróun, en bæði hann og Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri á Veðurstofu Íslands, segja að gögn bendi til þess að hægst gæti hafa á landrisi.

„Enn sem komið er er of snemmt að fara að segja til um einhverjar breytingar. Það mun skýrast á næstu dögum.“