Stemningin var góð og margt til gamans gert í tilefni af Jónsmessunni á Árbæjarsafni í Reykjavík um helgina. Þar var í gær efnt til hátíðarinnar „Midsommar“ samkvæmt fyrirmynd frá Svíþjóð, en þar í landi er rík hefð fyrir hátíðahöldum um þetta leyti sumars þegar sólargangur er lengstur. Margir mættu á svæðið og stigu hringdansa, sem þjóðbúningaklætt fólk leiddi með söng og gleði.
Einnig var boðið upp á ýmsa fræðslu á safnasvæðinu, sem gefur heimsóknum þangað ríkt inntak. Að hátíðinni í gær stóð Svenska föreningen på Island í samstarfi við Árbæjarsafn og Þjóðdansafélag Reykjavíkur. Samkvæmt dagatalinu er Jónsmessan í dag, 24 júní. sbs@mbl.is