Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gerir óraunhæf markmið í loftslagsmálum að umræðuefni í pistli í Viðskiptablaðinu. Þar segir hún að losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við verðmætasköpun sé nær hvergi minni en hér á landi.
• • •
Hún segir: „Ætla mætti að eftirsóknarvert væri að hér væru framleiddar vörur með umhverfisvænni hætti en annars staðar. Er skynsamlegt út frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að refsa íslenskum fyrirtækjum fyrir það að auka við slíka framleiðslu?
• • •
Ef fram fer sem horfir munu íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga sem ljóst mátti vera frá öndverðu að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum.“
• • •
Anna Hrefna segir að skynsamlegast væri að „breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.“
• • •
Þetta eru stór orð en því miður ekki úr lausu lofti gripin. Ísland er á villigötum í þessum efnum og stefnan mun ekkert hjálpa umhverfinu en örugglega skaða Íslendinga.