Árvakur mun ekki láta þrjóta stöðva fréttaflutning

Árvakur, útgáfufélag Morgun­ blaðsins, varð í gær fyrir stórfelldri netárás sem hefur haft áhrif á nær öll tölvukerfi fyrirtækisins. Þegar árásarinnar varð vart og alvarleiki umfangs hennar ljós, var ákveðið að slökkva á mbl.is og sömuleiðis stöðva útsendingar útvarpsstöðvanna K100 og Retro.

Um leið og árásarinnar varð vart var hafist handa við að kanna umfangið og reyna að takmarka tjónið. Svo virðist sem rússnesk glæpasamtök hafi verið á bak við árásina. Árásir af þessum toga eru engin nýlunda. Ekki er langt síðan greint var frá slíkum árásum á Háskólann í Reykjavík og bifreiðaumboðið Brimborg.

Netið hefur verið vettvangur margvíslegra framfara, en það getur einnig verið skuggalegur staður. Erfitt getur verið að sporna við netglæpum og sum ríki beinlínis ýta undir netglæpasamtök eða stunda jafnvel ríkisrekna netglæpi. Norður­Kórea er gott dæmi um það. Þar hafa stjórnvöld markvisst stundað tölvuárásir á fjármálafyrirtæki til þess að fylla ríkissjóð.

Rússar hafa einnig verið iðnir við kolann. Rússneskir tölvuþrjótar hafa víða valdið usla. Árásirnar eru gerðar í auðgunarskyndi, en eru um leið aðferð til að valda usla og glundroða á Vesturlöndum og njóta því velþóknunar ráðamanna í Kreml.

Fyrr í þessum mánuði gerðu rússneskir tölvuþrjótar árás á breska heilbrigðiskerfið. Ekki er nóg með að viðamiklum upplýsingum um sjúklinga hafi verið stolið og lekið, heldur lamaðist starfsemi fjögurra sjúkrahúsa um hríð þannig að meðal annars varð að fresta skurðaðgerðum. Í breskum fjölmiðlum hefur verið fjallað um umfangsmiklar árásir, sem færst hafi í vöxt upp á síðkastið. Meðal annarra fórnarlamba þeirra er breska ríkisútvarpið, BBC.

Netþrjótarnir eru í raun hjálparkokkar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og hann sigar þeim á þau ríki, sem hafa stutt Úkraínumenn í baráttunni gegn innrásarherjum hans.

Árásin á Árvakur er tilraun til að lama stóran fjölmiðil í vestrænu lýðræðisríki. Þessa atlögu ber að taka alvarlega. Árásir af þessum toga varða þjóðaröryggi og það á að taka á þeim í samræmi við það.

Netöryggi hefur verið mikið til umfjöllunar upp á síðkastið. Fyrir rúmum mánuði var viðtal í Morgunblaðinu við Theodór Ragnar Gíslason, sem rekur sprotafyrirtækið Defend Iceland, og fékk nýverið háan styrk frá Evrópusambandinu til að kanna forsendur þess að gera Ísland öruggt fyrir netárásum með því að leita uppi veikleika í tölvukerfum og uppræta þá. Verkefnið snýst í raun um að hakka til góðs áður en tölvuþrjótarnir mæta og hakka til ills. Ekki þarf að fjölyrða um hversu þarft slíkt verkefni er.

Miðlar Árvakurs verða oftsinnis fyrir innbrots­tilraunum tölvuþrjóta, flestum smávægilegum, en nokkrar hafa verið býsna harðar og reynt mikið á kerfisvarnir og útsjónarsemi öryggissérfræðinga.

Afleiðingarnar hafa yfirleitt verið hægagangur á netinu, jafnvel að stöku þjónusta á vegum mbl.is hafi dottið út í nokkra stund.

Engin þeirra kemst í hálf­kvisti við þá, sem yfir dundi í gær. Hún var þaulskipulögð og miðaði að því stöðva útgáfu miðla Árvakurs, ekki aðeins að trufla hana, hvert svo sem markmiðið þar að baki kann að vera.

Hér var því eitthvað allt annað og alvarlegra á ferðinni en raunin hefur verið til þessa og blasti við að ekki yrði hlaupið að því að koma starfseminni af stað á ný. Til þess að svo mætti vera unnu tæknimenn Árvakurs og öryggissérfræðingar hörðum höndum við að loka kerfunum, loka þrjótana úti og bjarga því sem bjargað varð.

Fréttavefnum mbl.is var lokað um fimmleytið síðdegis í gær og var kominn af stað aftur 3 klukkustundum síðar.

Ekki horfði vel um útgáfu Morgunblaðsins, en með miklu snarræði og sameinuðu átaki starfsmanna Árvakurs tókst að koma blaðinu í fram­leiðslu, prentun og dreifingu þrátt fyrir að hefðbundið útgáfukerfi þess lægi niðri.

Blaðið í dag ber þess vissulega merki að mikið gekk á við að koma því út og má segja að það sé afrek að lesendur séu með blaðið í höndum í dag.

Stundum er sagt að fréttir séu það sem einhver vill ekki að sagt sé frá. Árvakur mun ekki láta þrjóta stöðva sig í að flytja Íslendingum fréttir.