Vopn Leppstjórnin á Krímskaga segir árásina „hryðjuverk“ og vill rannsókn.
Vopn Leppstjórnin á Krímskaga segir árásina „hryðjuverk“ og vill rannsókn. — AFP/Bandaríkjaher
Moskvuvaldið segir Bandaríkin og Úkraínu bera ábyrgð á mannskæðri eldflaugaárás sem gerð var á Krímskaga.

Í brennidepli
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is

Moskvuvaldið segir Bandaríkin og Úkraínu bera ábyrgð á mannskæðri eldflaugaárás sem gerð var á Krímskaga. Fimm eru sagðir látnir eftir árásina, þar af þrjú börn. Um 100 eru særðir. Var í árásinni notast við bandaríska vopnakerfið ATACMS.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir Washington og Kænugarð bera „ábyrgð á vísvitandi eldflaugaárás á friðsama íbúa“ borgarinnar Sevastopol á Krímskaga. Eru Úkraínumenn sagðir hafa skotið alls fimm ATACMS­eldflaugum í átt að flotastöðinni við Sevastopol. Eldflaugavarnir Rússa svöruðu árásinni og grönduðu flaugum Úkraínuhers. Kremlverjar segja sprengjubrot hafa dreifst yfir baðstrandargesti með fyrrgreindum afleiðingum.

Ekki er að fullu vitað hvort Rússar hafi grandað öllum fimm flaugunum. Vísbendingar eru um að ein þeirra hafi skyndilega breytt flugstefnu sinni og í kjölfarið sleppt klasasprengjum yfir nærliggjandi svæði. Þetta er þó óstaðfest.

Birst hafa myndskeið á samfélagsmiðlum sem sögð eru tekin upp á ströndinni. Sýna þau baðgesti hlaupa undan sprengingum og bera sært fólk í skjól. Fréttaveita AFP gat ekki sannreynt myndskeiðin.

Leppstjórnin á Krímskaga segir árásina „hryðjuverk“ og hefur ákveðið að hefja rannsókn. Undir þetta tekur varnarmálaráðuneyti Rússlands. Segir það ATACMS­eldflaugarnar hafa verið búnar klasasprengjum og að beiting slíkra vopna gegn almennum borgurum flokkist sem „hryðjuverk“.

Moskvuvaldið segir ATACMS-flaugum að hluta til stjórnað af bandarískum sveitum, þ.e. Úkraínumenn fái aðstoð frá bandarískum sérfræðingum sem gefa þeim hnit til árása en hnitin eru fengin úr gervitunglakerfi Bandaríkjanna. „Svona árás verður svarað,“ segir í yfirlýsingu Kremlverja.

Með Krímskaga í sigtinu

Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon tilkynnti í byrjun október á síðasta ári að vilji væri til að senda ATACMS­vopnakerfið til Úkraínu. Flaugar þessar geta hæft skotmörk í allt að 300 kílómetra fjarlægð, eða djúpt inni á herteknum svæðum Úkraínu. Strax þá var sagt að vopnakerfi þetta myndi gagnast vel til árása á Krímskaga. Flaugarnar má útbúa með ólíkum sprengihleðslum, s.s. klasasprengjum, og þykir kerfið afar nákvæmt. Er því stýrt af bæði GPS og innbyggðri tölvustýringu.

Hernaðarsérfræðingar á Vesturlöndum hafa lengi talað fyrir nauðsyn þess að gera linnulausar loftárásir á Krímskaga, einkum flotastöð Rússa og Sakí­herflugvöll þar skammt frá. Þannig megi koma í veg fyrir að Svartahafsflotinn, herskip hans og loftför, geti með góðu móti athafnað sig. Tíðar árásir eru einnig líklegar til að brjóta niður baráttuanda innrásarliðsins og ýta þannig undir óöryggi í röðum þeirra sem hafast við á skaganum.

Rússa skortir mjög innviði á Sakí­herflugvelli til að verja loftför sín fyrir árásum og geyma þeir t.a.m. bæði þyrlur sínar og þotur utandyra. Sprengjuheld flugskýli fyrirfinnast ekki á vellinum. Í ljósi þessa segja sérfræðingar öfluga ATACMS­árás geta gjöreytt þeim loftförum sem standa á vellinum.

Stórfelldar árásir á innviði

Á sama tíma halda Rússar úti linnulitlum loftárásum á orkuinnviði Úkraínu. Eru íbúar landsins sagðir þurfa að búa sig undir áframhaldandi orkuskort. Hafa orkufyrirtæki frá því í maí þurft að slá út ákveðnum landsvæðum í þeim tilgangi að hleypa rafmagni á önnur svæði. Ekki er útlit fyrir að það breytist á næstunni.

Orkuver landsins eru sögð afar illa farin, nær allar virkjanir eru skemmdar eftir árásir Rússa.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa kallað eftir auknum loftvörnum frá Vesturlöndum. Nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir eldflauga­ og loftárásir Rússlands. Til þess þarf öflug vopnakerfi á jörðu niðri og orrustuþotur – hvort tveggja er sagt á leiðinni. Er einkum verið að senda fleiri eintök af hinu öfluga Patriot­kerfi, sem er í hópi bestu loftvarnakerfa heims, og orrustuþotur af gerðinni F­16. Slíkar vélar henta vel til árása gegn öðrum loftförum en einnig til aðgerða gegn skotmörkum á jörðu niðri. Óvíst er hvenær vélarnar komast í hendur Úkraínumanna, þjálfun flugmanna er þó hafin.