EM Í FÓTBOLTA
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Þjóðverjar tryggðu sér sigur í A-riðli Evrópumóts karla í fótbolta í gærkvöld með jafntefli gegn Sviss, 1:1, í Frankfurt. Bæði lið leika í 16-liða úrslitum. Á meðan unnu Ungverjar Skota, 1:0, og eiga ágæta möguleika á að komast áfram. Þýskaland fékk 7 stig, Sviss 5, Ungverjaland 3 og Skotland er úr leik með eitt stig.
Dan Ndoye kom Sviss yfir en Niclas Fullkrug jafnaði fyrir Þjóðverja í uppbótartíma.
Kevin Csoboth skoraði sigurmark Ungverja gegn Skotum á tíundu mínútu í uppbótartíma.
Belgar galopnuðu E-riðilinn með því að sigra Rúmena, 2:0, á laugardagskvöldið og þar með eru öll fjögur liðin í riðlinum með þrjú stig fyrir lokaumferðina. Youri Tielemans og Kevin De Bruyne skoruðu mörkin. Þar með eru tveir úrslitaleikir í lokaumferð riðilsins, Belgía - Úkraína og Rúmenía - Slóvakía.
Portúgalir tryggðu sér sigur í F-riðlinum á laugardag með því að vinna Tyrki, 3:0, þó enn sé lokaumferð riðilsins eftir. Bernardo Silva og Bruno Fernandes skoruðu auk sjálfsmarks Tyrkja.
Georgía og Tékkland skildu jöfn, 1:1, þannig að Portúgal er með 6 stig, Tyrkland 3, Tékkland og Georgía eitt stig hvort, þannig að liðin þrjú berjast um annað sætið í lokaumferðinni.