Kópavogur Viktor Jónsson sóknarmaður Skagamanna í hörðum slag gegn Breiðabliki í gærkvöld.
Kópavogur Viktor Jónsson sóknarmaður Skagamanna í hörðum slag gegn Breiðabliki í gærkvöld. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Toppbarátta Bestu deildar karla í fótbolta jafnaðist þegar 11. umferðin var leikin um helgina því Víkingar og Blikar gerðu jafntefli í sínum leikjum á meðan Valsmenn unnu stórsigur gegn Vestra á Ísafirði.

BESTA DEILDIN
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Toppbarátta Bestu deildar karla í fótbolta jafnaðist þegar 11. umferðin var leikin um helgina því Víkingar og Blikar gerðu jafntefli í sínum leikjum á meðan Valsmenn unnu stórsigur gegn Vestra á Ísafirði.

Víkingar eru því með 27 stig á toppnum, Breiðablik 26 og Valur 25 en síðan koma ÍA með 17, FH 17, Stjarnan 16, Fram 13, HK 13, KR 12, Vestri 10, KA 8 og Fylkir 7 stig.

Breiðabliki mistókst að komast á toppinn í gærkvöld þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við ÍA á Kópavogsvelli. Marko Vardic kom ÍA yfir á 59. mínútu en Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði úr vítaspyrnu 10 mínútum fyrir leikslok.

Pálmi Rafn Pálmason stýrði KR í fyrsta sinn gegn Víkingi í Fossvoginum og krækti í óvænt stig, 1:1. Matthías Vilhjálmsson kom Víkingum yfir en Theódór Elmar Bjarnason jafnaði fyrir KR.

Valsmenn unnu stórsigur á Vestra, 5:1, í fyrsta heimaleik Ísafjarðarliðsins í efstu deild á laugardaginn. Eftir að staðan var 1:1 í hálfleik tóku Valsmenn öll völd á vellinum með Jónatan Inga Jónsson í aðalhlutverki. Hann skoraði tvö markanna, Patrick Pedersen og Tryggvi Hrafn Haraldsson og Lúkas Logi Heimisson eitt hver en Benedikt V. Warén skoraði mark Vestra.

Ótrúlegt sigurmark Atla

Atli Hrafn Andrason skoraði ótrúlegt sigurmark fyrir HK gegn Stjörnunni í Kórnum á laugardaginn, 4:3, með skoti frá miðju í uppbótartíma. Stjarnan hafði rétt á undan skorað tvisvar og jafnað í 3:3. Arnþór Ari Atlason og Viktor Helgi Benediktsson skoruðu einnig fyrir HK, auk sjálfsmarks, en Emil Atlason skoraði tvö marka Stjörnunnar og Haukur Örn Brink eitt.

Daníel bjargvættur KA

Daníel Hafsteinsson kom inn á sem varamaður og tryggði KA langþráðan sigur gegn Fram, 3:2, á Akureyri í gær með því að skora tvö síðustu mörk leiksins, sigurmarkið í uppbótartíma. Sveinn Margeir Hauksson skoraði fyrsta markið fyrir KA en síðan skoraði Kennie Chopart tvö skallamörk fyrir Fram.

FH vann Fylki, 3:1, í Kaplakrika í gærkvöld. Sigurður Bjartur Hallsson, Arnór Borg Guðjohnsen og Kjartan Kári Halldórsson skoruðu fyrir FH en Arnór Breki Ásþórsson gerði mark Fylkismanna sem sitja nú á botninum.

M-gjöfin á mbl.is

M-einkunnagjöf Morgunblaðsins og einkunnir dómara fyrir leiki 11. umferðar má sjá á íþróttavef mbl.is.