Heilbrigðisþjónusta  Ný frjósemistofa verður sett á laggirnar síðar í sumar.
Heilbrigðisþjónusta Ný frjósemistofa verður sett á laggirnar síðar í sumar. — Ljósmynd/ Thinkstockphotos
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Þórir Harðarson líffræðingur og Ingunn Jónsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, eru nú önnum kafin við að undirbúa opnun nýrrar frjósemistofu. Er stefnt að því að starfsemi hefjist hjá Sunnu frjósemi ehf. í ágúst eða september.

Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is

Hjónin Þórir Harðarson líffræðingur og Ingunn Jónsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, eru nú önnum kafin við að undirbúa opnun nýrrar frjósemistofu. Er stefnt að því að starfsemi hefjist hjá Sunnu frjósemi ehf. í ágúst eða september en fyrirtækið verður til húsa í Urðarhvarfi í Kópavogi.

Með opnun fyrirtækisins munu Íslendingar geta valið á milli tveggja einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja sem bjóða upp á glasafrjóvgun og frjósemismeðferðir en Ingunn og Þórir segja íslenska markaðinn nógu stóran til að geta borið tvær stofur af þessu tagi auk þess sem áhugaverð tækifæri felist í því að laða til landsins erlenda viðskiptavini.

„Verkefnið kallar á mikla fjárfestingu í tækjabúnaði og sérhæfðu starfsfólki og kannski alveg á mörkunum að það sé pláss fyrir tvær stofur, en árlega eru um 600 frjósemismeðferðir framkvæmdar hér á landi. Eitt fyrirtæki hefur setið að markaðnum og munum við veita þeim aðhald og þau okkur, en við munum við leggja ríka áherslu á gott aðgengi, vandaða þjónustu og hlýlegt viðmót,“ útskýrir Þórir í samtali við Morgunblaðið.

Vandamálin koma fram við 35 ára aldurinn

Sögu frjósemismeðferða á Íslandi má rekja til ársins 1991 þegar fyrsta glasafrjóvgunin fór fram á Landspítalanum. Árið 2004 var starfsemin færð inn í einkarekið félag undir merkjum Art Medica sem sænska félagið Livio eignaðist 2015.

Ingunn segir ekki vanþörf á að auka framboðið af þessari þjónustu enda bendi flest til að þeim fari fjölgandi sem þurfa á aðstoð frjósemistofa að halda, ekki síst vegna þess að fleiri konur fresta barneignum langt fram á fertugsaldur og reka sig þá á að illa gengur að gera drauminn um barn að veruleika.

„Í kringum 35 ára aldurinn fara vandamál með frjósemi kvenna að verða algengari og í kringum 38. aldursárið tekur frjósemin dýfu, en þegar komið er yfir 43 ára aldur fer að verða nánast útilokað fyrir konur að eignast barn með eigin eggjum,“ útskýrir Ingunn og bætir því við að þótt endrum og sinnum berist fréttir af stórstjörnum í útlöndum sem hafa orðið óléttar kringum fimmtugt sé í slíkum tilvikum nær öruggt að notast hafi verið við gjafaegg.

Árangurinn af tæknifrjóvgunarmeðferð er breytilegur og segir Þórir að í hvert skipti séu um 30-40% líkur á þungun. Glasafrjóvgunin ein og sér kostar um 600 þús.kr. en þegar lyfjakostnaður bætist við má reikna með að meðferðin kosti talsvert meira í hvert skipti. Greiðsluþátttaka sjúkratryggingakerfisins er aðeins 5% þegar konur fara í sína fyrstu meðferð en hækkar upp í 65% í annarri, þriðju og fjórðu meðferð.

Þórir og Ingunn hafa bæði búið og starfað í Svíþjóð þar sem greiðsluþátttaka heilbrigðiskerfisins er töluvert meiri og segja þau vert að skoða hvort ekki megi fylgja fordæmi Svía.

„Óneitanlega getur kostnaðurinn fælt konur frá og þegar fólk er á þessu aldursbili, um og yfir 35, er yfirleitt ekki mikið viðbótarsvigrúm í fjárhag heimilisins,“ segir Ingunn og minnir á að ef kostnaðurinn verður til þess að konur draga það að fá aðstoð megi vænta þess að með hverju árinu sem líður þurfi fleiri meðferðir til að þungun eigi sér stað, með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir bæði einstaklinginn og hið opinbera. Að byrja fyrr ætti bæði að draga úr heildarkostnaði við meðferðina og auka líkurnar á að meðferðin beri árangur.

„Er ekki síst áríðandi að skoða þessi mál í ljósi þess að fæðingartíðnin er á niðurleið og margir sem hafa bent á að það geti m.a. leitt til óheppilegra breytinga á aldurssamsetningu samfélagsins sem myndi gera fjármögnun velferðarkerfisins erfiðari eftir því sem fram líða stundir.“

Með Boston og New York í sigtinu

Þórir bendir á að ýmis læknis- og heilbrigðisþjónusta einkarekinna stofa á Íslandi sé mjög samkeppnishæf við önnur lönd og ekki loku fyrir það skotið að Sunna reyni að höfða sérstaklega til fólks í Bandaríkjunum.

„Í samanburði við Bandaríkin er frjósemismeðferð á Íslandi í hæsta gæðaflokki en mjög hagkvæm og kostar jafnvel innan við fjórðung af því sem fólk þarf að borga vestanhafs,“ segir hann og bætir því við að Ísland hafi margt fram að færa á sviði sk. heilbrigðisferðamennsku (e. medical tourism). Það hjálpar m.a. að það er hluti af ímynd Íslands að landið er óspillt og landsmenn bæði hraustir og langlífir.

„Það er bara fjögurra til fimm tíma flug til stórborga á borð við New York og Boston og gæti verið hagkvæmt fyrir íbúa þar að ferðast til Íslands til að fara í frjósemismeðferð.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson