Herdís Tómasdóttir
herdis@mbl.is
Frá 1. september geta notendur Íslendingabókar ekki lengur nýtt sér rafræn skilríki til að skrá sig inn á gagnagrunn ættfræðisíðunnar. Ástæða þess eru fyrirhugaðar stefnubreytingar hjá ísland.is að bjóða einungis upp á þjónustuna fyrir opinbera aðila.
„Vegna breytinga hjá ísland.is verður þjónustan ekki lengur opin fyrir einkaaðila, sem þýðir að við þyrftum að kaupa þjónustuna hjá öðrum aðila, sem væri mikill kostnaður fyrir okkur,“ segir Friðrik Skúlason, einn aðstandenda Íslendingabókar, í samtali við Morgunblaðið.
Friðrik segir breytingarnar hafa komið sér á óvart enda hefur stefna hins opinbera undanfarin ár verið að ýta undir notkun einstaklinga á rafrænum skilríkjum vegna öryggismála. Með þessari stefnubreytingu; að hætta að bjóða upp á endurgjaldslausa þjónustu, verði einkaaðilar að leita til einkafyrirtækja eins og Auðkennis.
„Við tókum upp á því að bjóða upp á rafræn skilríki af því að við héldum að það væri stefna hjá opinberum aðilum að þetta væri notað á sem flestum stöðum á þægilegan hátt og auka öryggið, svo fólk þyrfti ekki að muna endalaust af lykilorðum hingað og þangað.“
Engar tekjur eru af Íslendingabók sem þýðir að ef fyrirtækið ætlar að halda áfram með rafræn skilríki þyrfti að byrja að rukka notendur fyrir notkun á gagnagrunninum.
„Við þyrftum að velta þeim kostnaði yfir á notendur og gera kröfu um áskriftargjald, sem við viljum alls ekki gera. Þannig að þá er bara það eina í stöðunni að fara aftur í eldra og frumstæðara kerfi og að fólk noti bara lykilorð.“
Að hans sögn myndi kostnaðurinn við að kaupa þjónustuna hlaupa á nokkrum milljónum króna á ári. En hver skráning í gagnagrunninn myndi kosta tíu krónur og ætlar Friðrik að það séu um 100 þúsund skráningar í mánuði.
„Þetta væri milljón á mánuði og það væri hægt að nota þá upphæð í eitthvað annað. Við erum ekki reiðubúin til að borga það þar sem við höfum engar tekjur af þessu. Við viljum hafa þetta opið fyrir fólk því að kostnaðarlausu,“ segir Friðrik.