Í yfirferð um þingstörfin hefur komið fram að þingið hafi verið ágætlega starfsamt, skilað drjúgum fjölda nýrra laga og þingsályktana, auk þess sem ráðherrar hafi svarað allmörgum fyrirspurnum þingmanna.

Þetta lagðist ágætlega undir lokin, sagði Birgir Ármannsson forseti Alþingis spurður um þinglokin um helgina. Í yfirferð um þingstörfin hefur komið fram að þingið hafi verið ágætlega starfsamt, skilað drjúgum fjölda nýrra laga og þingsályktana, auk þess sem ráðherrar hafi svarað allmörgum fyrirspurnum þingmanna, þó að sumir hinna síðarnefndu horfi meira til þeirra fyrirspurna sem ekki hafi fengist svör við og séu ekki nema mátulega sáttir. Í þeim efnum má þó hafa í huga að sumir þingmenn virðast telja það sitt helsta hlutverk að semja langa spurningalista í þeirri von að einhvers staðar kunni að dúkka upp áhugavert svar.

Birgir benti einnig á að fjöldi mála væri ekki mælikvarði í sjálfu sér og nefndi í því sambandi að mál væru misjafnlega stór. Það er vissulega rétt, en því til viðbótar er ástæða til að nefna að afköst þingsins eru í sjálfu sér ekki heldur mælikvarði á gæði þingstarfanna. Mögulega er því öfugt farið.

Þau mál sem berast frá Brussel og flæða í gegnum þingið án nokkurrar vitrænnar aðkomu þingmanna, og að því er virðist einnig án aðkomu ráðherra, eru dæmi um þetta. Þessi mál eru mörg hver óþörf og eiga ekki erindi við Ísland, en ofan á það bætist að einhvers staðar á leiðinni fer fram svokölluð gullhúðun margra þessara mála. Ekki hefur verið útskýrt svo fullnægjandi sé hvernig það hefur gerst, en ráðherrar virðast jafn hissa og þingmenn á þessum ósköpum og er þá ekki að undra að útlendingar sem hingað koma skuli skynja óvenjulega trú á draugagang hér á landi. Þessa  óværu þarf að kveða niður. Nokkur umræða hefur farið fram um hana og nú hlýtur að vera komið að því að ríkisstjórnin geri grein fyrir hvernig þetta verklag verði stöðvað og hvernig undið verði ofan af þeirri gullhúðun sem þjakar þjóðina nú þegar.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra þarf að taka forystu í því máli og full ástæða er til að ætla að hann geti komið því í viðunandi farveg. Ríkisstjórn hans hefur staðið betur en ýmsir spáðu og stóð meðal annars af sér vantrauststillögu í liðinni viku, aðra vantrauststillöguna á nokkrum vikum eins og forsætisráðherra benti á í umfjöllun sinni um þinglokin. Hann segir stjórnina hafa styrkst við þessar ágjafir og hafi lokið miklum fjölda mála skömmu fyrir þinglok á laugardagskvöld.

Forsætisráðherra rifjaði upp að við endurnýjun samstarfs stjórnarflokkanna í vor hefði komið fram að áhersla yrði lögð á útlendingamál, orkumál og efnahagsmál, auk þess sem stór tímamótamál hefðu verið til afgreiðslu um breytingar á örorkubótakerfinu og lögreglulögum. „Hrakspár um annað leysast upp og verða að engu hér á þinginu í kvöld, þegar afrakstur þingstarfanna liggur fyrir,“ sagði forsætisráðherra.

Hann benti á að útlendingalögum hefði verið breytt þannig að efnismeðferð þeirra sem eru með vernd í öðru landi verði hætt, skilyrði fyrir fjölskyldusameiningum verði hert og dvalarleyfistími styttur. Allt er þetta til bóta, en eins og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur bent á er þetta ekki fullnægjandi og hefur hún þegar boðað frekari lagasetningu á næsta þingi.

Hitt stóra málið sem dómsmálaráðherra fékk í gegn og er til bóta eru breytingar á lögreglulögum sem fela í sér auknar heimildir til að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og ógn við öryggi ríkisins.

Þá má nefna breytingar á örorkubótakerfinu sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra fékk samþykktar, en þær verða meðal annars til þess að þeir öryrkjar sem það geta hafi tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði án þeirrar miklu skerðingar sem verið hefur raunin.

Ekki náðist þó allt fram og er samgönguáætlun þar á meðal. Sú frestun verður þinginu vonandi til áminningar um að margt í samgöngumálum kallar á endurskoðun. Þar er samgöngusáttmálinn svokallaði á höfuðborgarsvæðinu augljósasta dæmið enda má hæglega spara tugi milljarða króna í samgöngubótum á því svæði með hófstilltari, hagkvæmari og skilvirkari nálgun en þessi sáttmáli, sem engin sátt er um, gerir ráð fyrir.

Ríkisstjórnarinnar bíða mörg erfið verkefni og ýmsu er ólokið, en það hefur út af fyrir sig átt við um flestar ríkisstjórnir við þinglok. Þessi ríkisstjórn býr þó við meiri óróa og óvissu en margar sem á undan hafa farið, þó að vera kunni að hún hafi styrkst í mótlætinu, líkt og forsætisráðherra segir. Fram undan eru þó óvissuatriði á borð við formannskosningar hjá einum stjórnarflokkanna, en þeim kann að fylgja ólga þó að ekki sé ástæða til að spá því nú.

En ríkisstjórnin hefur líka eitt og annað með sér sem ætti að auðvelda ráðherrum og stjórnarþingmönnum að njóta sumarsins. Hún býr við óvenjulega veika og sundurlynda stjórnarandstöðu sem nær ekki fótfestu í nokkru máli og misstígur sig iðulega. Það mun áfram hjálpa ríkisstjórninni í störfum hennar, en dugar þó vitaskuld ekki til eitt og sér.