Geir Waage
Geir Waage
Ekki mun hending ráða því, að nú er bönnuð starfsemi „Lands vors“, eins fárra stjórnarandstöðuflokka sem starfað hafa í Úkraínu í seinni tíð.

Enn bera leiðtogar og fjölmiðlar Vesturveldanna lof á ráðamenn Úkraínu fyrir það að vera kyndilberar fyrir vestræn gildi svo sem frelsi, þar með talið málfrelsi, lýðræði, rjettaröryggi og mannhelgi. Fá menn bágt fyrir ef þeir dirfast að hvá, hvað þá heldur að efast um þessar fullyrðingar.

Kjörtímabili Vladimírs Selenskís forseta Úkraínu lauk sem kunnugt er í maí sl. Kjörtímabili þingmanna í úkraínska Ráðinu, þingi landsins, lýkur þann 11. ágúst nk. Ekkert útlit virðist vera fyrir þingkosningar frekar en forsetakosningar. Skv. stjórnarskrá landsins mun forseti Ráðsins eiga að taka við forsetembættinu ef forsetalaust verður. Hann hefur afþakkað stöðuna. Verði þingbrestur á sumri komanda svo framkvæmdavald og löggjafarvald verði hvort tveggja ólögmætt mun þá víst koma til kasta landshlutanna, „oblastanna“, að fara með það ríkisvald hvert hjá sjer sem verið hefur í Kænugarði á vegum sambandsríkisins. Að vísu mun stjórnarskrá mæla fyrir um að „ráðsmenn“ skuli sitja þar til nýtt þing kemur saman, en þingkosningar eru bannaðar á neyðartímum. Mun forvitnilegt að sjá, hversu fram vindur.

Ekki mun hending ráða því, að dómstóll að kröfu dómsmálaráðherra Úkraínu mun nú hafa bannað starfsemi „Lands vors“, Nash Krai, eins fárra stjórnarandstöðuflokka sem starfað hafa í Úkraínu í seinni tíð. Sjóðir, eignir og lausafje var dæmt ríkinu. Einungis þrír þingmenn hafa setið í Ráðinu á vegum „Lands vors“ svo varla stafar „Þjóni fólksins“ og fyrrverandi forseta ógn af flokknum þar. Hins vegar er annað uppi í hjeruðum landsins, „oblöstunum“, þar sem flokkurinn ræður 1.694 þingsætum og mun vera með öflugustu flokkum síðan í hjeraðskosningunum árið 2020.

Vorið 2020 bannaði Úkraínustjórn, þá undir forsæti Vladimírs Selenskís leiðtoga „Þjóns fólksins“, starfsemi 11 stjórnmálaflokka. Stærstur þeirra var „Andstöðuhreyfingin til varnar lífinu“, Opposition Platform – For Life Party (OPZZh) með um 10% fylgi í þingkosningunum 2019. Flestir meðal hinna tíu voru vinstriflokkar, sumir sagðir hliðhollir Rússum, svo sem Sósíalistaflokkur Úkraínu, Bandalag vinstriflokka og Shariy-flokkurinn, kenndur við bloggarann Anatoly Shariy. Þrír þessara flokka náðu um fimmtungi atkvæða í þeim kosningum samanlagt. Kommúnistaflokkur Úkraínu var bannaður þegar árið 2015. Eignir flokkanna voru gerðar upptækar.

„Andstöðuhreyfingin til varnar lífinu“ mun þá hafa verið næststærsti flokkur landsins hvort tveggja á þingi sem og í hjeraðsstjórnunum, arftaki flokks fyrrverandi forseta, Viktors Janakovits, sem steypt var í valdaráni 2014. Fylgi flokksins var mest í austur- og suðurhjeruðum Úkraínu. Áður var flokkurinn kenndur við hjeruðin: „Hjeraðaflokkurinn“. Auðkýfingurinn Viktor Medvedsjúk leiddi flokkinn í fyrstu, hafði 44 af 450 þingsætum í Ráðinu. Flokkurinn fordæmdi innrás Rússa, mælti fyrir friði, studdi Minsk-samninginn og beitti sjer fyrir rjettindum þjóðernisminnihluta. Þremur sjónvarpsstöðvum Medvedsjúks var lokað. Sjálfur flýði hann land 2021 um tíma og var síðar handtekinn.

Í ársbyrjun 2022 mælti ríkisstjórnin fyrir sameiningu níu stærstu útvarps- og sjónvarpsstöðva landsins undir heitinu „Telemaraþon“ og setti undir sína stjórn. Í apríl sama ár voru aðrar stöðvar bannaðar. Í árslok 2022 tók gildi ströng ritskoðun allra miðla landsins. Var mörgum lokað, s.s. Google. Herlög banna körlum á aldrinum 18-60 ára för úr landi og hafa stjórnvöld krafið Evrópuríki um að vísa körlum, sem flúið hafa þangað, heim, með litlum heimtum. (Skyldi slík krafa hafa borizt íslenzkum stjórnvöldum?) Starfsemi rjetttrúnaðarkirkjunnar var bönnuð en sett á stofn kirkjudeild undir sama heiti, kennd sjerstaklega við Úkraínu sem hrifsað hefur til sín ýmsar eignir rjetttrúnaðarkirkjunnar. Öðrum hefur verið hnuplað með ýmsu móti, s.s. ýmsum elztu og merkustu íkonum kirkjunnar. Hafa sumar birzt í Louvre-safninu; sagðar vera þar í vörzlu en aðrir kirkjugripir ganga kaupum og sölum innan lands og utan að sögn manna. Kunn munu vera áform Vesturveldanna um stuld á sjóðum Rússa í vestrænum bönkum sem lengi hafa gengið fregnir af.

Mun forvitnilegt að fylgjast með því, hvernig vestrænum bönkum og ríkjum gengur framvegis við að telja ríki og auðmenn á að geyma fyrir þá bandaríkjadalina – eða skyldu þeir leita fyrir sjer annars staðar og ala þá maurana sína í annarri mynt?

• Yfirlit um bannaða stjórnmálaflokka í Úkraínu má finna á Wikipediu.

Höfundur er pastor emeritus í Reykholti.

Höf.: Geir Waage