Eiríkur Brynjólfsson
Eiríkur Brynjólfsson

Eiríkur Brynjólfsson fæddist í Reykjavík 24. janúar 1930. Hann lést á Landspítalanum 10. júní 2024.

Foreldrar hans voru Brynjólfur Valdimarsson, f. 1896, d. 1973, og Lilja Eiríksdóttir, f. 1909, d. 1993. Systkini Eiríks: Valdimar, f. 1941, d. 2023, eiginkona hans er Jakobína Kjartansdóttir, Erlingur, f. 1944, d. 1945, Elísabet, f. 1947, eiginmaður Steinþór Þorsteinsson, Helga, f. 1953, eiginmaður Hjörtur Hjartarson.

Átta ára fluttist Eiríkur til Selfoss með foreldrum sínum og bjó þar þangað til hann fór til Reykjavíkur til að stunda nám við Menntaskólann í Reykjavík.

Eiríkur kynntist eiginkonu sinni Valgerði Björnsdóttur, f. 1929, d. 2019, og giftust þau 30. desember 1956. Börn Eiríks og Valgerðar eru átta talsins: 1) Lilja, f. 1956, gift Halldóri Laxdal, f. 1953. Þau eiga tvö börn: a) Hildur, f. 1974, gift Ingvari Á. Ingvarssyni, f. 1970, þau eiga eina dóttur, Helenu, f. 1999, sambýlismaður Árni K. Sigurvinsson, f. 1998, þau eiga tvö börn, Kolbúnu Nótt, f. 2019, og Jökul Móra, f. 2021, b) Hilmar, f. 1982, sambýliskona Guðrún Á. Sigurðardóttir, f. 1986, þau eiga tvö börn: Ásta Lilja, f. 2016, og Óskar Leó, f. 2023. Auk þess á Guðrún dóttur; Freyja Sif, f. 2012. 2) Björn, f. 1958, kvæntur Ástu Guðrúnu Guðbrandsdóttur, f. 1967, þau eiga tvær dætur: a) Valgerði, f. 1992, b) Lísbetu, f. 2000. 3) Brynjólfur, f. 1960, hann er ókvæntur og barnlaus. 4) Anna, f. 1961, gift Páli Pálssyni, þau eiga tvö börn: a) Ágúst, f. 1991, sambýliskona Guðlaug Pétursdóttir, f. 1991, þau eiga eina dóttur, Emilíu Eiri, f. 2018, b) Bryndís, f. 1997, sambýlismaður Nökkvi F. Mikaelsson, f. 1996, þau eiga eina dóttur, Þórönnu Ösp, f. 2023. 5) Örn, f. 1963, kvæntur Bjarnfríði Elínu Karlsdóttur, þau eiga tvö börn: a) Arna Björg, f. 1984, gift Sigurdóri S. Guðmundssyni, f. 1984, þau eiga tvo syni: Aron Breka, f. 2013, og Esjar Örn, f. 2019. b) Stefán, f. 1989, sambýlismaður Patrik Pétursson, f. 1994. 6) Ingi, f. 1966, kvæntur Hrönn Jónsdóttur, f. 1966, þau eiga tvö börn: Arnar, f. 2002, og Hildigunni, f. 2004. Ingi átti áður Júlíu, f. 1996 (barnsmóðir er Kristín Hallgrímsdóttir), sambýlismaður Ívar A. Barja, f. 1996, þau eiga einn son, Birni Inga, f. 2023. 7) Sigrún, f. 1967, gift Stefáni Má Kristinssyni, f. 1967, þau eiga þrjú börn: a) Kári, f. 2001, b) Freyja, f. 2003, c) Eiríkur, f. 2006. 8) Birgir, kvæntur Berglindi Snorradóttur, f. 1970, þau eiga þrjá syni: a) Matthías, f. 1997, b) Oliver, f. 2001, c) Kristófer, f. 2007. Barnabörnin eru 17 talsins og barnabarnabörnin eru í dag átta og tvö barnabarnabarnabörn.

Eiríkur starfaði á ýmsum stöðum en þó lengst af við afgreiðslustörf við verslunina Byko. Eiríkur var söngelskur maður og var í Samkór Kópavogs til fjölda ára. Hann þótti einstaklega ljúfur maður sem vildi öllum vel og saman stóðu þau hjónin eins og klettur að uppeldi átta barna sinna með miklum myndarskap.

Útför fer fram frá Háteigskirkju í dag, 25. júní 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi er farinn. Mikil sorg og söknuður grípur hjartað en á sama tíma ákveðinn léttir að núna sé þjáningum hans lokið og að hann muni sameinast mömmu og öðrum látnum ástvinum. Hugurinn fyllist af fallegum minningum um elskulegan mann sem gaf svo mikið af sér. Pabbi var okkur systkinunum frábær fyrirmynd í alla staði. Hann var einstaklega hjálpsamur, heiðarlegur, reglusamur og sérlega fróður um allt milli himins og jarðar. Reyndar svo fróður að hann átti stundum erfitt með að útskýra í stuttu máli það sem maður spurði hann um sem gat oft reynt á þolinmæði óþolinmóðrar stelpu sem vildi gjarnan fá einfalt og stutt svar.

Pabbi var ákaflega félagslyndur og hafði gaman af að spjalla við fólk á mannamótum og ekki var verra að vita hverra manna hinn eða þessi væri. Ég man að hann spurði gjarnan vini okkar systkina hverra manna þau væru sem mér fannst pínlegt sem krakki því sum jafnvel skildu ekki hvað það þýddi. Pabbi var einstaklega ljúfur maður með mikið jafnaðargeð sem öllum líkaði vel við. Hann og mamma bjuggu okkur systkinum hlýlegt og traust heimili þar sem aðrir krakkar voru ávallt velkomnir. Það var því oft mikið fjör á heimilinu en aldrei upplifði ég samt þrengsli heldur fannst bara þægilegt að hafa margt fólk í kringum mig og þekkti reyndar ekkert annað.

Þegar maður er barn er svo margt sem maður sér ekki en eftir að ég varð fullorðin gerði ég mér grein fyrir hve heppin við vorum í raun. Mamma og pabbi áttu ekki foreldra í Reykjavík svo þau sáu alfarið um uppeldi okkar systkinanna átta. Héldu alltaf vel utan um allan hópinn, kenndu okkur góða siði og lögðu áherslu á samkennd með náunganum. Þau voru bæði einstaklega vinnusöm hjón sem féll sjaldan verk úr hendi. Þau áttu ekki kost á mikilli menntun sjálf en lögðu áherslu á að við systkinin fengjum menntun. Pabbi var mjög söngelskur maður og var í kór í fjölmörg ár eftir að við systkinin urðum stálpuð og saman fóru þau mamma í ýmsar skemmtilegar ferðir með kórnum. Eitt af því dásamlega við pabba var að hann virtist alveg laus við fordóma og ég hef oft hugsað á mínum fullorðinsárum hversu heppin ég var að alast upp við slíkt fordómaleysi. Aldrei heyrði ég hann heldur segja eitt styggðaryrði um nokkurn mann. Í seinni tíð varð honum tíðrætt um hversu stoltur hann væri af barnabörnunum sínum og hve vel þeim gengi í lífinu en hann eignaðist 35 afkomendur sem hann var ákaflega lukkulegur með.

Ég er þakklát fyrir allt sem pabbi gaf mér en þó mest brosið sitt og hlýju sem aldrei hverfur. Minning um góðan pabba lifir. Hafðu þökk fyrir allt.

Þín

Sigrún.

Ég vil minnast tengdapabba míns, Eiríks Brynjólfssonar, með örfáum orðum.

Ég kom inn í fjölskylduna fyrir næstum 40 árum og á þeim tíma hef ég fengið að kynnast Eiríki. Hann var einstaklega fróður maður, víðlesinn og skipti nánast engu máli hvað umræðuefnið var – hann vissi alltaf eitthvað um það. Lengst af starfaði hann hjá BYKO, í yfir 40 ár, og var fyrsti starfsmaðurinn þar án fjölskyldutengsla. Eiríkur var alltaf snyrtilegur og flottur í tauinu, jafnvel þegar hann var að moka eða setja niður tré í landinu hennar Önnu – þá var hann í skyrtu.

Eiríkur var duglegur að ferðast, bæði innanlands og utan. Við fórum saman í ófáar ferðir. Þegar ég fór yfir myndir af Eiríki og Völlu kom berlega í ljós hversu víða þau höfðu farið. Þetta var eins og í ævintýrabók: Eiríkur og Valla í Vestmannaeyjum, Hrísey, Patreksfirði, Grímsnesinu og víðar. Ævintýrin héldu áfram erlendis: Eiríkur og Valla á Spáni, í Noregi og svo mætti lengi telja. Nú er þessum ævintýrum lokið hér á jörð, en kannski halda þau áfram á öðrum stöðum.

Tvisvar hef ég þurft að yfirgefa heimili mitt, fyrst í gosinu í Vestmannaeyjum árið 1973 og svo þegar bruninn var í Hringrás árið 2004. Í seinna skiptið var auðvitað farið upp í Hólaberg þar sem Valgerður og Eiríkur tóku á móti okkur, litlu fjölskyldunni, með opnum örmum. Það var aldrei mikið mál hjá þeim að bæta nokkrum við á heimilið sitt.

Eitt það síðasta sem Eiríkur bað mig um að gera var að sjóða fyrir hann egg í Hólaberginu. „Hvernig viltu hafa þau?“ spurði ég. „Linsoðin, alls ekki harðsoðin,“ svaraði hann. „Viltu kannski hafa rauðuna aðeins harða?“ spurði ég enn frekar. „Nei, ég vil hafa þau alveg linsoðin og passaðu að setja ekki of mikið vatn í tækið,“ svaraði hann ákveðinn. Ég fór niður í eldhús og notaði þar eggjasuðuvél sem hann hafði fengið að láni frá mér, gerði allt klárt og setti í samband. Síðan fór ég upp til hans og eftir smástund spurði hann: „Ertu ekki að sjóða egg fyrir mig?“ „Jú, ég er búinn að setja tækið í samband og það gefur hljóðmerki þegar þau eru tilbúin og þá fer ég niður og slekk á og kæli,“ svaraði ég. „Þú ert ekki nógu snöggur niður til að kæla þannig að best er að þú farir niður núna,“ bætti hann við með bros á vör. Þetta augnablik lýsir vel að hann hafði húmor fyrir lífinu.

Hann var einnig mjög tónelskur og söng meðal annars í kórum. Það síðasta sem við gerðum saman var að hlusta á Gissur Pál og Jóhann Friðgeir, sem voru í miklu uppáhaldi hjá Eiríki.

Eiríkur var einstaklega nægjusamur maður. Svarið var nánast alltaf: „Vertu ekki að hafa fyrir mér“ þegar boðist var til að hjálpa honum. Eiríkur og Valgerður voru afar stolt af afkomendum sínum. Þau fylgdust grannt með unga fólkinu sínu og studdu þau í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Það var mikill missir fyrir Eirík þegar Valgerður, sem hann kynntist á balli í Alþýðukjallaranum árið 1955 og bjó með alla ævi, lést árið 2019.

Um leið og ég kveð með hlýhug tengdapabba minn, vil ég senda öllum ættingjum mína dýpstu samúðarkveðjur. Hans verður sárt saknað.

Páll Pálsson.

Heimili ömmu og afa var nánast mitt annað heimili á yngri árum. Ég var sendur oft í pössun, var ekki sá þægasti, en fékk líka oft að gista. Einstök tilfelli, þar sem ég suðaði í foreldrunum, mátti heyra í ömmu og afa. „Auðvitað fær drengurinn að gista.“ Þar var mér alltaf tekið eins og prinsi.
Ég man mest eftir ömmu í eldhúsinu og afa í stofunni, að tefla, spila eða segja sögur. Þessar sögur voru frá hans yngri árum, fjölskyldunni og stríðssögur, sérstaklega frá seinni heimsstyrjöldinni, sem voru mínar uppáhalds en frá hans yngri árum í seinni tíð.
Það skipti aldrei máli hvort við höfðum hist fyrir einni klukkustund eða einum mánuði, við fundum alltaf eitthvað til að tala um. Sögurnar og fróðleikurinn hans hafa alltaf gefið mér eitthvað til að hugsa um.
Amma og afi sýndu mér alltaf ótrúlegan stuðning með því að mæta á alla viðburði sem ég tók þátt í, hvort sem það tengdist skólanum eða lúðrasveitunum sem ég spilaði í. Þau styrktu mig í öllum fjáröflunum, sem var alltaf klósettpappír. Það kæmi mér ekki á óvart ef þau væru enn með klósettpappír frá öllum barnabörnunum uppi á háalofti.
Sama hvað ég sagði við afa, þá hlustaði hann með miklum áhuga og var alltaf jafn stoltur af nýjasta afrekinu, sama hversu lítið eða stórt það var. Það var mjög skemmtilegt að segja honum frá, sökum viðbragðanna.
Mínar sterkustu og eftirminnilegustu minningar af afa eru tvær. Sú fyrri var þegar amma fór til útlanda og afi átti að vera einn heima. Þegar ég spurði hann hvað hann ætlaði að borða, svaraði hann: „Ég kann að sjóða bjúgu“ sem mér leist bara vel á. Sú seinni var þegar afi sýndi mér galdrabragð, þar sem hann sagðist geta opnað og lokað framrúðunni í bílnum með hugaraflinu. Ég gleymi því seint hversu orðlaus af aðdáun ég var og ég trúði því í nokkur ár að afi minn væri galdramaður, líka þegar mér var sagt (eða það var sagt mér eins og ég sagði og hann leiðrétti mig alltaf), afi þinn vann á bensínstöð, sem leigubílstjóri, í BYKO og fleira, svo galdramaður fyrir mér var ekkert langsótt. En mín uppáhalds og eftirminnilegasta minning, sem eru margar, er hvernig hann mætti eða kvaddi mig, hann var alltaf ánægður með bros á vör, gott knús og koss á enni eða kinn.
Í seinni tíð fór ég að sjá betur hversu góð manneskja afi var. Þrátt fyrir að vera verkjaður alla sína ævi, þá sá ég hann aldrei kvarta. Þrátt fyrir þessa verki eða hversu erfiður ég var, eins og þegar ég skaut rauðum berjum upp stigaganginn þeirra, sá ég hann aldrei reiðan, þrátt fyrir að ég heyrði seinna að það hefði verið mjög erfitt að þrífa þetta.
Ég leit alltaf upp til afa og geri enn. Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa haft hann í mínu lífi. Hann gerði og gerir mig enn að betri manneskju.

Þó farinn sértu, afi minn
aldrei mun þér gleyma
Allan lífsins fróðleikinn
mun ég alltaf geyma

Hver stund með þér var fjársjóður
sögur, leikir, gleði.
Alltaf varstu hlýr og góður
sama hvað á streði.

Mín besta minning verður sú
koss og þétt í þínum faðmi.
Bros á vör og alltaf glaður
ég varð að betri manni.

Ágúst Pálsson.

Ætli það hafi ekki verið upp úr 1970 þegar ég flyt ásamt foreldrum mínum í blokk í Álftamýrinni, þá 4-5 ára gömul. Hverfið var þá mjög barnmargt og alltaf hægt að fara út að leika. Í blokkinni minni bjuggu þau hjón Eiríkur og Valgerður með átta börn. Sigrún er næstyngst systkinanna og jafnaldra mín. Urðum við strax góðar vinkonur og ekki minnkaði vináttan þegar Eiríkur og pabbi höfðu komist að því að þeir voru náskyldir. Þá vorum við ekki bara vinkonur, heldur líka frænkur sem var nú ekki verra. Svo áttu pabbi og Eiríkur líka báðir Skoda sem okkur fannst rosa flott.

Eiríkur og Valgerður bjuggu með barnaskarann í þriggja herbergja íbúð, stelpurnar í einu herbergi og strákarnir í öðru og þau hjónin í stofunni. Á heimilinu var oftar en ekki ys og þys. Valgerður að prjóna eða sýsla í heimilisverkum enda nóg verkin á stóru heimili. Systkinin átta voru líka vinamörg og því oft gestkvæmt á heimilinu. Alltaf voru allir krakkar velkomnir þó ekki væri plássið mikið og Eiríkur og Valgerður pollróleg yfir barnaskaranum þó líklega hafi einhvern tímann verið sussað ef ærslin keyrðu um þverbak.

Eiríkur og Valgerður voru fyrst í blokkinni til að fá litasjónvarp á heimilið. Ekki fækkaði heimsóknum okkar krakkanna í hverfinu til Eiríks og Valgerðar þegar við föttuðum hvað það var miklu skemmtilegra að horfa á Prúðuleikarana í litasjónvarpi. Við áttum bara svarthvítt og það var náttúrlega bara frat miðað við litasjónvarp. Að sjálfsögðu fylltist stofan hjá Eiríki og Valgerði af krökkunum í blokkinni þegar Prúðuleikararnir voru á dagskrá og mikil þröng á þingi í stofunni þar sem krakkahópur þakti stofugólfið. Þetta eru yndislegar minningar sem mér þykir vænt um.

Eftir að ég varð fullorðin hitti ég Eirík sjaldnar en alltaf þegar ég hitti hann þá var hann léttur og glaður og heilsaði mér ávallt með kveðjunni: „Sæl Eva mín - hvað segir frænka?“

Ég votta minni kæru vinkonu Sigrúnu og stórfjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Eiríks Brynjólfssonar.

Eva Ágústsdóttir.